Tryggvi segir sannleikann
Tryggvi Þór Herbertsson sagði eitt ákaflega merkilegt í útvarpsviðtali í morgun.
Tryggvi er sumsé sá sem sér um framkvæmdina á því, að einstaklingum verða færðir tugmilljarðar úr ríkissjóði, óháð tekjum og eignum eða hvort þeir þurfa yfirleitt nokkuð á peningunum að halda.
Við munum að ríkisstjórnin hefur haldið því fram að millifærslan komi frá bönkunum í formi bankaskatts. Aðrir hafa ekki talið svo vera, heldur komi peningarnir úr ríkissjóði af almennu skattfé, og að skynsamlegra væri að verja þeim í annað við okkar aðstæður, til dæmis að greiða niður skuldir ríkissjóðs.
Undir þetta hafa stjórnarflokkarnir ekki tekið og Framsóknarflokkurinn er staðráðinn í að láta skattgreiðendur borga fyrir atkvæðin sem hann keypti í síðustu kosningum.
Þetta staðfesti Tryggvi Þór í viðtalinu í morgun:
„Þrátt fyrir að stjórnmálamenn hafi beintengt þetta, því að skatturinn sé lagður á út af þessu, þá er það í raun og veru ekki hægt, vegna þess að aðgerðin – hún er bara fjármögnuð úr ríkissjóði, og einn af þeim sköttum sem voru hækkaðir til þess að standa undir heildarútgjöldum ríkissjóðs, voru bankaskattarnir. Þannig að það er ekki alveg hægt að beintengja það, þrátt fyrir að stjórnmálamenn geri það í umræðunni.“
„Þrátt fyrir að stjórnmálamenn geri það í umræðunni.“
Þetta merkir á mannamáli: Það er ósatt sem forsætis- og fjármálaráðherra segja um bankaskattinn. Hann er ekki eyrnamerktur einu eða neinu. Það er bara áróður sem stjórnmálamenn nota „í umræðunni.“
Skyldu ráðdeildarsamir sjálfstæðismenn þurfa frekari vitni um hversu galin ráðstöfun það er á almennu skattfé að greiða með því skaðabætur fyrir ónýtan gjaldmiðil? Og eru þá ekki nefnd hin skaðlegu efnahagslegu áhrif, sem Seðlabankinn og fleiri hafa varað við.
Er allt til vinnandi, að borga fyrir atkvæðakaup Framsóknarflokksins?
- Möskvar minninganna (XXI): Gleðimont - 12/08/2019
- Um gamlar kærustur og nýjar - 02/07/2019
- Möskvar minninganna (XX): Með hitamælinn í rassinum - 30/06/2019