trusted online casino malaysia
Karl Th. Birgisson 01/05/2018

Troddu því, spámaður

Hvenær átti verkafólk síðast fulltrúa í borgarstjórn Reykjavíkur? Man það einhver?

Eitthvað í þessa veru spurði formaður Sósíalistaflokksins, Gunnar Smári Egilsson, á facebook um daginn. Ég gaf mér ekki tóm ekki að fylgjast með svörunum.

Gunnar Smári getur verið afar sannfærandi maður. Þegar hann hefur selt sjálfum sér einhverja hugmynd er fátt sem stendur í vegi fyrir honum. Um það vitna öll fjölmiðlaævintýrin.

Ég skrifaði meiraðsegja heila grein um þennan eiginleika Smára fyrir nokkru, og komst að þeirri niðurstöðu að ef hann hefði verið uppi fyrir þúsund árum, þá hefði hann sennilega stofnað ný trúarbrögð og farið létt með það.

En allar hugmyndir og plön Smára fela í sér forsendur, eina eða fleiri, sem hann gefur sér og dregur aldrei í efa. Annars myndi jú allur píramídinn hrynja.

Spurning Smára var grein af þeim meiði. Hann fékk áreiðanlega fjölda fólks til að klóra sér í hausnum og grafa eftir svarinu. „Ja, er þetta ekki bara rétt hjá honum Gunnari? Er þetta ekki allt saman menntað millistéttarhyski hjá borginni, alið upp í dún? Svei mér þá alla daga.“

Hér er hugtakið verkafólk ein af forsendunum sem Smári býr til og hleður ofan á. Hver getur jú verið fulltrúi verkafólks annar en það sjálft?

Hugtakið er í bezta falli loðið og óljóst eftir breytingar á vinnumarkaði síðustu ára. Er konan sem svarar í símann hjá Eimskip verkakona? Er leigubílstjórinn verkamaður? Líklega finnst okkur það ekki, en þau hafa sömu félagslegu stöðu og verkafólk fyrri ára.

En Smára er alveg sama um það. Hann sveipar hugtakið „verkafólk“ rómantískum ljóma – það er trixið – við sjáum næstum fyrir okkur karlana á Eyrinni og konurnar við saltfiskstæðurnar.

Það er falsmynd. Af einni ástæðu fyrst og fremst.

Afkomendur verkafólks fyrri ára hafa langflestir aflað sér skólagöngu og menntunar langt umfram það sem foreldrarnir áttu kost á. Þar með verða börn verkafólks að einhvers konar „menntamönnum“ í hugarheimi Smára og þar með líka sjálfkrafa einhvers konar millistétt. Og ekki getur millistéttin verið fulltrúi „verkafólks“ í einu eða neinu.

Gunnar Smári hefur sérstakt yndi af því að núa vinstra fólki í Vg og Samfylkingunni því um nasir að það sé menntafólk og löngu búið að missa tengsl við „alþýðuna“. Og af því að það fer ekki um gargandi stéttabaráttuslagorð er það líka þjónar auðvaldsins og á spena hjá því.

Þetta er villutrúarfólkið í nýju trúarbrögðunum.

Svona stimplar Smári heilu hópana, af því að hann hefur gefið sér forsendur og hvarflar ekki að honum að það sé eitthvað brogað við þær.

Þegar ég andmæli Smára á facebook slettir hann framan í mig „Blairisti“, „elíta“ og „auðvaldshækja“ eða einhverju álíka og virðist þykja málið útrætt þar með. Sem það er enda nennir enginn að svara svona skætingi.

En nú ætla ég að gerast persónulegur og ræskja mig aðeins. Troddu þessari þvælu, ágæti spámaður, þangað sem ekkert þrífst annað en þínar eigin kjánalegu fantasíur.

Ég ætla ekki að sleppa því að mig velgir við tilhugsuninni um þig sem varðmann launafólks, nýbúinn að setja enn einn fjölmiðilinn á hausinn og skilja starfsfólkið eftir launalaust, og skammast þín ekki einu sinni. Þar starfaði nefnilega „verkafólk“ okkar tíma.

Og ég ætla að bæta því við, að sem sonur verkakonu sem þrælaði allt sitt líf við skúringar, heimilishjálp og hvað eina tilfallandi, allt til þess að koma okkur systkinunum til manns (það tókst ágætlega með systur mínar), og sem sonur iðnaðarmanns sem drakk sig í hel hálffimmtugur, og sem frændi og vinur fólks sem þarf á öllu sínu að halda alla daga – þá frábið ég mér yfirlætið og dónaskapinn um elítur og auðvaldsþjóna, sem renna nánast viðstöðulaust upp úr þér á hverjum degi.

Nái ég kjöri til borgarstjórnar fyrir Kallalistann hyggst ég verða fulltrúi þessa fólks og margra annarra, og ég ætla ekki að láta þá staðreynd trufla mig að ég gekk í háskóla.

Ég verð seint fulltrúi þinn eða nýjustu fantasíanna þinna.

Ég skal hins vegar vera fulltrúi mömmu.

1,817