trusted online casino malaysia
Indriði Þorláksson 20/11/2014

Tónlistarskólar í nauðvörn

Síðan verkfall tónlistarskólakennara hófst hefur lítið gerst í samningum við þá. Von sem kviknaði í byrjun þessarar viku er að dofna. Samninganefnd sveitarfélaganna virðist búa sig undir jólin með því að pakka sömu tillögunni í æ nýjar umbúðir. Ekki er ljóst hvort það er gert til að einhverjir haldi að verið sé að reyna að semja eða hvort sveitarfélögin hafa ekki gefið nefndinni umboð til raunverulegra samninga. Markmiðið virðist vera að knýja fram samning, sem njörvar niður ójafnræði milli kennslustarfa, misræmi í kjörum félaga innan sömu félagasamtaka og launamun fyrir sambærileg störf eftir stofnunum. Það er vondur samningur sem reynast mun illa þeim sem hann gera og þeim sem við hann verða að búa.

Stjórnendur sveitarfélaganna leggja blessun sína yfir aðferðafræði og stefnu SNS en málstaður tónlistarskólakennara nýtur víðtæks stuðnings í samfélaginu. Ójöfnuður er ekki vel liðinn og krafa um jafnræði á sterkan hljómgrunn. Uppeldislegt og menningarlegt gildi tónlistar er almennt viðurkennt og þáttur tónlistarskólanna í þeim efnum. Ég hef litlu við það að bæta sem komið hefur fram í mörgum góðum greinum og ræðum að undanförnu en vil vekja athygli á þætti þessa máls sem snýr að þeim sem eru í fjárhagslegu forsvari einkarekinna tónlistarskóla.

Verkfall starfsmanna ríkis og sveitarfélaga snertir vinnuveitendur með öðrum hætti en verkfall á almennum markaði. Fyrirtæki, sem ekki getur aflað sér tekna með framleiðslu og sölu vöru sinnar og þjónustu, verður fyrir beinu fjáhagstjóni. Í verkfalli opinberra starfsmanna lendir tjónið á neytendum opinberrar þjónustu, nemendum, sjúklingum o.s.frv. Launagreiðandinn verður ekki fyrir beinu fjárhagslegu tjóni a.m.k. ekki strax þótt það geti komið fram síðar. Þvert á móti “sparar” hann sér fé að því leyti sem launagreiðslur falla niður í verkfallinu.

Í tónlistarskólunum greiða nemendur eða foreldrar þeirra há skólagjöld. Fregnir herma að einhver sveitarfélag hyggist endurgreiða hluta skólagjalda vegna verkfallsins. Með endurgreiðslum dregur úr “sparnaði” sveitarfélaga í verkfallinu. Það á þó eingöngu við sveitarfélög sem sjálf reka tónlistarskóla. Í Reykjavík eru flestir tónlistarskólar reknir sem sjálfseignarstofnanir. Ólíklegt er annað en að þeir verði að fylgja fordæmi og endurgreiða skólagjöldin að því leyti sem töpuð kennsla verður ekki bætt upp. Sjálfstæðu tónlistarskólarnir verða því fyrir beinu fjárhagslegu tjóni en sveitarfélagið situr eftir með “sparnað” af verkfallinu.

Það tjón sem einkareknir tónlistarskólar verða fyrir með þessum hætti getur verið ein til tvær milljónir króna eða meira á verkfallsmánuði fyrir hverja 100 nemendur. Það eru miklir fjármunir fyrir stofnanir sem eru þegar illa staddar og er eðlilega áhyggjuefni þeim sem bera rekstrarlega og fjárhagslega ábyrgð á skólunum. Þeir hljóta að velta fyrir sér leiðum til að draga úr fjárhagslegu tjóni skólanna. Þær leiðir eru ekki margar. Ekki skilar miklu að skrúfa fyrir hitann og slökkva ljósin. Það kann að verða þrautalending einstakra skóla að fá kennara sína aftur til starfa gegn því að greiða þeim álag á laun þar til samningar hafa tekist. Þau útgjöld yrðu aðeins brot af því sem tapast við endurgreiðslu skólagjalda í verkfallinu.

Höfundurinn er formaður skólaráðs Tónskóla Sigursveins.

Latest posts by Indriði Þorláksson (see all)
Flokkun : Menning, Pistlar
1,996