Tóm della
Eftir kosningar hófst fjölmenn og fjörleg keppni.
Hún var um hver gæti gefið út stórkarlalegustu yfirlýsinguna um að Samfylkingin væri ónýt, búin að vera eða dauð. Eða allt í senn. Ég krýni engan sigurvegara hér en margir koma til greina.
Og hann ætti enda engin verðlaun skilin heldur. Þessar yfirlýsingar voru nefnilega alveg út í hött.
Flokkar eins og Samfylkingin deyja ekki af því að þeir fá lítið fylgi í kosningum. Jafnvel tvisvar í röð.
Hví ekki? heyri ég ykkur spyrja. Fyrir því er ein höfuðástæða: Fólkið í flokknum.
Er vogandi að vitna í Styrmi Gunnarsson? Hann kom á fyrsta landsfund Samfylkingarinnar, leit yfir hópinn og sagði efnislega: Þetta verður eitthvað.
Styrmir hefur stundum rétt fyrir sér.
Innan Samfylkingarinnar er nefnilega saman komin meiri þekking og reynsla en í nokkrum öðrum stjórnmálaflokki á Íslandi. Þetta er stór fullyrðing, en henni verður trauðla andmælt.
Þessi þekking og reynsla býr í núverandi og fyrrverandi þingmönnum (þeir skipta tugum), núverandi og fyrrverandi sveitarstjórnarfólki (þau skipta trúlega hundruðum) og hjá ótölulegum fjölda fólks út um allt í samfélaginu, sem vill flokknum allt hið bezta og vill vinna honum gagn, en hefur ekki fundið sér farveg til þess í þeim kúltúr sem einkennt hefur Samfylkinguna undanfarin ár.
Ég nefni bara sem dæmi: Ekki er til sá hópur fólks sem veit meira um velferðarmál en Samfylkingarfólk. Sama gildir um Evrópu-, auðlinda- og heilbrigðismál.
Nýrrar forystu bíður meðal annars það verkefni að virkja þetta fólk til vinnu og hugmyndaframlags. Mér lízt raunar einkar vel á nýja formanninn. Það er einhver ferskur blær í kringum hann, kraftur og hispursleysi.
Viðfangsefni Samfylkingarinnar á næstu misserum er ekki að láta flokksmenn sitja hnípna saman í hring og svara spurningunni: Hvað gerðum við vitlaust og hverjum er um að kenna? Það er gamli kúltúrinn.
Eitt af stærstu verkefnum formannsins á næstunni verður að fá allt sitt hæfileikaríka fólk til að svara þessum spurningum: Hvað gerum við rétt? Hver er með beztu hugmyndina? Og ekki síður mikilvægt: Hvernig vinnum við kosningar?
Þetta verður mikil vinna. Nýi formaðurinn þarf þess vegna einkum tvennt: Að hafa tímann sem fylgir því að vera í stjórnarandstöðu. Hins vegar þolinmóða og skilningsríka fjölskyldu.
Og auðvitað stuðning og aðstoð okkar sem vitum að allt þetta taugaveiklunartal um andlát Samfylkingarinnar er tóm della.
- Möskvar minninganna (XXI): Gleðimont - 12/08/2019
- Um gamlar kærustur og nýjar - 02/07/2019
- Möskvar minninganna (XX): Með hitamælinn í rassinum - 30/06/2019