trusted online casino malaysia
Karl Th. Birgisson 09/05/2014

Tilfinnanlegur skortur á vandamálum

Alþingiskosningarnar 1999 verða seint skráðar í sögubækur. Einu tíðindin voru að óstofnuð Samfylking og nýstofnuð VG buðu þá fram í fyrsta sinn. Að öðru leyti var þetta hundleiðinlegt. Davíð og Halldór fengu sinni meiri hluta, aðrir höltruðu með.Borgarstjórn

Kosningabaráttan leið fyrir átakanlegan skort á vandamálum í samfélaginu. EES-samningurinn hafði fært nýjan þrótt í atvinnulífið, netbólan var að byrja og til stóð að hnoða í eina virkjun fyrir austan og fabrikku með. Almennt fín stemmning og bjartsýni bara.

Að vísu reyndu jafnaðarmenn að tuða eitthvað um kvótakerfið, ömurleg kjör lífeyrisþega og að EES myndi nú ekki duga til frambúðar, þótt gott væri. En það var enginn að hlusta. (Það er svo sérstakt umhugsunarefni að við skulum enn vera að tala um þetta sama, fimmtán árum seinna, en það er efni í aðra messu.)

Og að vísu voru sumir verstu eiginleikar Davíðs Oddssonar sem valdamanns farnir að koma í ljós, en það var öllum sama um það líka.

En þessi óeftirminnilegheit öll rifjuðust upp í dag þegar ég heyrði auglýsingu frá sjálfstæðismönnum í Reykjavík. Þeir eru sumsé í framboði.

Núverandi meirihluti hefur staðið sig framar öllum vonum, og hafði ég persónulega þó miklar. Orkuveitan var stærsti vandinn, eiginlega ævintýralega stór eftir REI og allt hitt ruglið. Þar er nú allt á réttri leið og nokkuð lygnum sjó.

Annað hefur gengið vel, en það sem mestu skiptir er að það var gaman að vera Reykvíkingur á síðasta kjörtímabili. Andinn í borginni breyttist. Fólk brosti meira, herpingurinn og krumpið létu undan.

Það var ekki bara Jóni Gnarr að þakka, þótt hann hafi slegið tóninn. Þau hin áttu ekki síðri þátt í stemmningunni.

Það var aldrei neitt sérstaklega gaman að vera Reykvíkingur þegar t.d. Hanna Birna var borgarstjóri. Það var örugglega ekki henni að kenna, en samanburðurinn er sláandi.

Og við þetta þurfa nú sjálfstæðismenn í Reykjavík að glíma: Tilfinnanlegan skort á vandamálum í borginni. Vitanlega er enn nóg af verkefnum, en erfitt að benda á eitthvað sem er í tjóni eða vitleysu. Helzt væri þá að nefna mjög undarlegar hraðahindranir á enn undarlegri stöðum.

Og því var nú það, að auglýsing sjálfstæðismanna hófst svona: Finnst þér ekki þurfa að laga til í Reykjavík? Slá grasið og sópa sandinn?

Laukrétt, það á að slá grasið og sópa sandinn. Alveg hárrétt og heyr, heyr. En það er samt eiginlega alveg ömurlega mikill skortur á vandamálum.

Sorrí með það, sjálfstæðismenn. Virkilega sorrí.

1,447