trusted online casino malaysia
Björgvin Valur 08/08/2014

Þrælarnir okkar

sweatshopÞessi stutti pistill er skrifaður á tölvu sem var búin til af þrælum einhversstaðar austur í Asíu.  Ég er klæddur í föt sem kostuðu ekki mikið og ég geri þess vegna ráð fyrir því að þau hafi verið saumuð í einhverri svitabúllu í Bangladesh eða einhverju nágrannalanda þess.  Þau eru að minnsta kosti ekki virði einnar lopapeysu á sæmilegum handverksmarkaði, hérlendum.

Ég keypti sjónvarp fyrir HM í fótbolta karla til að geta fylgst með mótinu en 42 tommu flatskjárinn kostaði rétt rúmar 100.000 krónur svo það er alveg ljóst að hann var ekki framleiddur af fólki á vestrænum launum.

Til stendur að halda þessa skemmtun, HM í fótbolta karla, í Qatar eftir nokkur ár en kostnaðurinn við það er þegar orðinn allt of mikill því tugir eða hundruðir verkamanna úr snauðustu löndum heims hafa látið lífið í þeim ömurlegu aðstæðum sem þeim eru búnar við að reisa mannvirkin sem til þarf.  Og ég verð þá sjálfsagt búinn að fá mér annað og betra sjónvarp til að horfa á herlegheitin í þrælabúðunum.

Þetta eru bara þrjú dæmi sem ég hef fyrir augunum eða skjóstast upp í hugann og ég nenni að telja upp í smátriðum en ég gæti alveg bætt við upptalninguna myndavél, síma, prentara, spjaldtölvu og fleira dóti en ég bara nenni því ekki.

Í morgun las ég grein á Guardian um verkfall starfsmanna í fataiðnaði í Bangladesh þar sem útlistaðar eru þær ömurlegu aðstæður sem fólkið þarf að þola, bara til þess að við hérna á vesturhveli jarðar getum keypt á okkur ódýrari föt.  Ég skora á ykkur að lesa þessa grein því velferð okkar nú um stundir er byggð á þrælahaldi.

Að vísu eru þrælarnir ekki lengur í sömu sýslum og við; þeir eru ekki lengur bundir við íslenskt vistarband eða amerískar plantekrur, heldur höfum við flutt agalega stóran hluta framleiðslu okkar þangað sem vinnuframlag fólks er einskis metið og líf þess lítils virði í hugum okkar, að því er virðist

En vörurnar eru ódýrar, maður minn lifandi.  Eða dauður.

Latest posts by Björgvin Valur (see all)
Flokkun : Pistlar
1,777