trusted online casino malaysia
Hallgrímur Helgason 17/04/2014

Þjóðarsálin hans Jóns míns – Leikhúsferð suður á Akureyri

la-gullnahlidid

Gaman að keyra “suður” og fara í leikhús. Brá mér inn á Akureyri í gærkvöldi. 

Hundurinn fékk prímapössun hjá Dinnu á Dalvík og bíllinn nýtt gamalt dekk hjá BHS-verkstæði á Sandinum, miklir yndismenn sem hlúa þar að sjúkum og veikum bílum. Veit ekki með ykkur en mér finnst eitthvað alveg ómótstæðilegt við bifvélaverkstæði, einkum á landsbyggðinni. Notaleg hlýjan og smurolíuilmur í lofti, Rás 2 mallandi í þremur viðtækjum og allt útí biluðum bílum, ónýtum dekkjum og vitlausum varahlutum. En umfram allt ró og festa, vel hert ró og festa.

Það var líka undarleg tilfinning að koma út úr Siglufirði. Eftir þrjár vikur í logni milli fjalla er Eyjafjörður svo risastór og víður, svo mikið LAND. Loftslag getur líka verið allt annað austan gangna, og vorið virðist greinilega hafa tafist eitthvað á Ólafsfirði, skaflarnir þar eru lengra komnir. Náði inn á Akureyri um sex og fékk mér pizzu á Bryggjunni. Flottur staður og starfsfólk og frábært útsýni en Akureyringar hafa enn ekki masterað pizzugerð, hafa ekki náð eldbakaða þunna borninum enn, deigið auk þess of salt, og pepperóníið smátt eins og tópas á svamli í ostinum. Ekki eins slæmt og Domino’s en samt ekki nógu gott. Kíkti svo hratt við í Bókval og rakst þar á Gerði Kristnýju og Kristján B. Hún hafði nýverið í þættinum hjá Bubba á Bylgjunni og við stóðum þarna þrjú og mærðum kónginn um stund. Náði því hvorki að blaða í ljóðasafni Gerðar, eða glænýjum Þórarni Eldjárn og Inga Frey.

Jæja.

Það var slatti af sunnanfólki mættur í þéttsetið leikhúsið. Nýskipaður Borgarleikhússtjóri og frú sem og nýskipaður Ráseittstjóri og frú með börnum. Öllum óskað til hamingju hægri vinstri. Í fyrrverandi leikhúsi Magnúsar Geirs var andi hans þarna yfir og allt um kring. (Magnús Geir KE 5 var auk þess að koma inn á Sigló í gær með fullfermi af rækju, ekki allsvarnað þeim manni.) Sú sem tók við af honum um daginn heilsaði þeim sem hann hafði skipað fyrr um daginn.

Gullna hliðið eftir Davíð Stefánsson frá Fagraskógi í gamla góða Samkomuhúsinu á Akureyri. Sounds like 1950.

akgullna

En Egill Heiðar Anton Pálsson leikstjóri nær að færa þá klisju upp á disk merktan 2014. Hlín Agnars gaf sýngunni fimm stjörnur í DV. Eftir korter var maður kominn með það niður í þrjár og hálfa og farinn að efast um þetta allt en svo hrökk sýningin í gírinn og lyfti sér upp í fjórar fyrir hlé, með innkomu Djöfulsins sem aðeins talaði í rammbundnu máli, frábærum línum skáldsins, og var stórkostlega leikinn af Hilmi Jenssyni. Ég komst að því hvað leikarinn hét með því að hvísla spurningu að hjónunum við hliðina á mér, Óskari Péturssyni söngvara og frú, sem voru með prógrammið í kjöltunni. “Hilmir” hvíslaði konan í myrkrinu og ég bætti við “Snær” í huganum, svo mjög minnti hinn ungi maður á stórleikarann.

Yes, people, we have a new Hilmir.

Eftir hlé var síðan keyrt á þessum fimm stjörnum sem Hlín gaf sýningunni. Þétt og hratt og gott. Leikmyndin er ægisnjöll, með rísandi og hnígandi fleka, þótt eldgosamyndir hefðu mátt missa sín. Alltaf vandmeðfarið með vídeóvörpur í leikhúsi, einkum ef blastað er svo realískum hreyfimyndum á fleka ímyndunaraflsins. Slíkt virkar oft jafn utanaðkomandi gestur í sýningunni eins og fjandans popplögin sem á tímabili var troðið inní allar sýningar hérlendis. Hér var sem betur fer öllu slíku sleppt, enda tónlist í höndum hins ljúfa tvíós sem hljómsveitin Eva er. Þær Sigríður Eir og Jóhanna Vala fóru bæði með texta úr verkinu og tóku líka gamla meistarasöngva frá Fagraskógi eins og Capri Katarínu og Ég leiddi þig í lundinn, auk þess sem engklakór barna birtist óvænt eftir hlé. Hvað er nú meira Himnaríki en Akureyrsk börn með englavængi að syngja sinn Davíð?

“Ég beið þín undir björkunum í Bláskógarhlíð…”

Leikritið er sannarlega íslensk klassík (nr. 88 á Topp 300 Egils, enn á uppleið eftir 73 ár á lista). Það sést vel á því hvernig draga má úr því skírskotanir og tilhöfðanir til nútímans. Klassískt verk hefur alltaf eitthvað að segja, öllum tímum allstaðar. Og skilaboð Gullna hliðsins árið 2014 eru skýr fyrir þann sem hér situr: Sálin hans Jóns míns er þjóðarsálin, þjóðin er Jón, Jón er þjóðin: Bersyndug og bíræfin, þrjósk og þumbaraleg, neitar staðföst að horfast í augu við mistök fortíðar og iðrast einskis en gerir þó sterka kröfu um vist í Himnaríki (!) Við þekkjum hugarfarið frá því fyrir Hrun og eftir, úr Iceasave-kosningum og síðustu kosningum. Hættið þessu væli! Við gerðum ekkert rangt! Ekki horfa alltaf í baksýnisspegilinn! Hvað þarf eiginlega margar skýrlsur?! Við kjósum bara hrunstjórana aftur!

“Allt er nú snuðrað uppi!” æpir Jón á Lykla-Pétur þegar sá síðarnefndi rifjar upp syndir hans, sauðaþjófnað, drykkjudrafl og hórerí. Þrátt fyrir að við honum blasi hrap niður í helvíti neitar Þjóðar-Jóninn að hafa gert nokkuð rangt og heimtar inn í Himnaríki iðrunar- og möglunarlaust. Þarna er semsagt heimtufreka þjóðin okkar lifandi komin. Allt fyrir ekkert. Enga samninga ef við fáum ekki að veiða eins og við viljum af makríl! IPA-styrkina strax en ekkert helvítis Evrópusamband! Jú, við stálum þessum Icesave-peningum en við borgum samt ekki!

Allt verður þetta svo enn magnaðra í ljósi þess að leikarinn sem leikur Jón, Hannes Óli Ágústsson, er frægur sem forsætisráðherraherma. Þegar Jón keyrði sig upp í frekjuna og hrokann var ekki laust við að hann minnti á Sigmund okkar Davíð og þá varð auðvitað kerlingin þjóðin, hin meðvirka þjóð sem umber allt og lætur allt yfir sig ganga, fyrigefur svikin loforð og ýkjur um skuldaleiðréttingu, og fórnar sér síðan duglega fyrir lygarann, leggur allt á sig til að koma sínum mæta herra inn í Himnaríkið. María Pálsdóttir var ansi fín í því hlutverki. Og Aðalbjörg Árnadóttir best í hlutverki frillunnar. Jamm og já. Svona má sjá þetta en svo eru líka til hundrað aðrar leiðir. Þjóðsagan og leikrit Davíðs lifa góðu lífi. Það var nú kannski merkilegasta niðurstaða kvöldsins.

Gullna hliðið er enn úr gulli.

PS. Hugmyndin um sál í skjóðu sýnir okkur hvað þjóðin var frumleg, jafnvel á fyrri öldum volæðis. Hugmyndin er skemmtilega nálægt frægu verki Marcel Duchamps frá 1919 er hann langaði að senda vinum sínum í Bandaríkjunum vott af París og tappaði andrúmslofti/sál borgarinnar á flösku, kallaði verkið Parísarloft, Air de Paris.

pod_082008

Flokkun : Menning, Pistlar
2,126