trusted online casino malaysia
Karl Th. Birgisson 02/05/2014

Þetta er búið, Hanna Birna

Eina mikilvæga staðreyndin, sem ekki liggur fyrir í lekamálinu, er hver lak. Allar hinar nægja til þess að hið augljósa liggi fyrir allra augum: Hanna Birna Kristjánsdóttir á að víkja sem innanríkisráðherra ekki seinna en á mánudag.

Skoðum bara tvær ástæður:

  • Það var skrifstofa ráðherrans sem bað um að minnisblaðið yrði skrifað. Ástæðan var yfirvofandi mótmæli við ráðuneytið. Að baki lá sumsé pólitík og minnisblaðið átti greinilega ekki að vera hælisleitandanum til varnar. Ráðherrann ber pólitíska ábyrgð á tilurð minnisblaðs sem ætlað var að sverta mannorðs nafngreinds einstaklings með meiðandi persónulegum upplýsingum.
  • Hanna Birna sagði á alþingi 27. janúar að minnisblaðið væri „ekki sambærilegt við nein gögn í ráðuneytinu.“ Þetta var eftir sérstaka innanhússrannsókn að hennar undirlagi. Þetta var og er ósatt. Skrifstofa ráðherrans bað um að minnisblaðið yrði skrifað og það var vistað í skjalakerfi ráðuneytisins. Ráðherrann laug að þinginu.

Ég gæti haldið áfram, en þreyti ykkur ekki með meiru. Nema þessu þó:

Í janúar neitaði Hanna Birna að víkja vegna þess að engin rannsókn væri í gangi, hvað þá „sakamálarannsókn.“

Nú hefur sakamálarannsókn staðið í nokkrar vikur. Hún beinist að innanríkisráðherranum, skrifstofu hans og starfsfólki. Þau hafa verið kölluð til yfirheyrslu hjá lögreglu. Rannsóknin hefur náð alla leið til umfjöllunar og úrskurðar í hæstarétti.

Þarf virkilega að segja hið augljósa? Æðsti yfirmaður lögreglu og dómsmála á ekki að sitja í embætti á meðan hann, aðstoðarmenn og annað starfsfólk sætir rannsókn vegna gruns um saknæmt athæfi.

Það er „Heilbrigðir stjórnarhættir 101.“ Eða bara almenn skynsemi. Eða bara svo átakanlega augljóst.

1,405