trusted online casino malaysia
Davíð Þór Jónsson 26/06/2017

Þar sem illmenni og vitleysingar ráða

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Hvað er kirkjan að skipta sér af stjórnmálum? Af hverju ætti kirkjan að taka afstöðu til deilumála samtímans? Er það ekki hlutverk kirkjunnar að sameina frekar en sundra? Vinnur hún ekki gegn meginmarkmiði sínu með því að taka sér stöðu með annarri fylkingunni þar sem tvær deila? Af hverju er hún ekki þæg og góð og heldur sig við það sem til hennar friðar heyrir; að prédika líf eftir dauðann og að við eigum að vera góð hvert við annað og lætur stjórnmálamönnunum það eftir að deila um skattkerfið, auðlindanýtingu, loftslagsmál og annað dægurþras?

Að skipta máli

Svarið er einfalt: Af því að kirkjan lætur sig líf fólks varða. Kirkjan lítur ekki á það sem hlutverk sitt að klappa hinum kúguðu og þjáðu á kollinn og segja: „Svona, svona. Þetta verður miklu betra eftir að þið eruð dauð, því þá verðið þið hjá Guði og hann er svo góður sérstaklega við aumingja eins og ykkur. Kúgararnir og arðræningjarnir fá makleg málagjöld í helvíti eftir  dauðann. Þess vegna skuluð þið láta ykkur lynda að þeir geri líf ykkar að helvíti á jörð.“

Með því að tala þannig væri hún ekki að halda uppi merki og boðskap Jesú Krists, heldur þveröfugt. Jesús Kristur mætti þjáningunni hvorki með aðdáun né skeytingarleysi heldur alltaf með líkn. Og hann kallaði arðræningjana og kúgarana sínum réttu nöfnum, jafnvel „nöðrukyn“ þegar hann var í stuði. Jesús líknaði hinum þjáðu, hann huggaði þá aldrei með því að með þjáningunni væru þeir að leggja inn fyrir sérstökum lúxus á himnum.

Ef kirkjan vill skipta máli í lífi fólks í samtíma sínum þá tekur hún afstöðu til þeirra mála sem varða lífsgæði mannkynsins. Og eitt brýnasta málefnið um þessar mundir er lofstlagsbreytingar af manna völdum. Þetta er ekki rómantískt hjal sem snýst um blóm eða fiðrildi sem kynnu að deyja út og ekki heldur um bengaltígrisdýrið eða hvítabjörninn – þótt auðvitað sé missir að hverri tegund sem verður aldauða. Dýrategundin sem við ættum að láta okkur mestu varða og vinna hörðum höndum að því að koma í veg fyrir að við útrýmum er við sjálf; homo sapiens – hinn viti borni maður.

Eða er hann það?

Lífið á jörðinni

Lífið á jörðinni mun halda áfram þrátt fyrir loftslagsbreytingar. En það kynni að vera gerólíkt nokkru sem við þekkjum. Bessadýr og moskítóflugur þurfa víst ekki að hafa miklar áhyggjur, skilst mér. En loftslagsbreytingar kynnu á endanum að gera jörðina óbyggilega fyrir okkur sjálf. En áður en að því kemur munu milljónir þjást og líða skort. Akurlönd munu sökkva í sæ með tilheyrandi hungursneyð og flóttamannavanda. Orðið „loftslagsflóttamaður“ er þegar til í málinu og ekkert bendir til þess að það sé á útleið.

Lofstlagsbreytingar af manna völdum eru vísindalega margsönnuð staðreynd. Vissulega eru þeir til sem þræta fyrir að þær séu að eiga sér stað. Og kannski er fullmikil einföldun að afgreiða þá sem það gera sem illmenni og vitleysinga.

Það er erfitt að byggja lífsafkomu sína, ég tala nú ekki um auðsöfnun hafi maður gert hana að tilgangi lífs síns, beint eða óbeint á brennslu jarðefnaeldsneytis og þurfa svo að horfast í augu við það að allir marktækir vísindamenn á jörðinni séu á einu máli um að hún sé á góðri leið með að valda mestu náttúruhamförum mannkynssögunnar. Þá er auðveldara að ráðast á vísindamennina, skera niður fjármagn til rannsókna þeirra til að reyna að þagga niður í þeim og kenna pólitískum andstæðingum sínum um að hafa skáldað þennan þvætting til að klekkja á manni. Maður gæti jafnvel freistast til að trúa því sjálfur að það sé raunin. Jesús segir að auðveldara sé fyrir úlfalda að komast í gegn um nálarauga en auðmann að komast inn í Guðs ríki. Kannski erum við einmitt að verða vitni að því núna.

Svo eru það hinir sem áratugalangur áróður gegn vísindalegum vinnubrögðum og vísindakenningum – til dæmis gegn einhverju jafnsjálfsögðu grundvallaratriði og þróun tegundanna – hefur gert ólæsa á vísindalegar niðurstöður og tortryggna í garð þeirra.

Semsagt … já … kannski er það eftir allt saman ekkert sérstaklega mikil einföldun að kalla þá sem véfengja loftslagsbreytingar af manna völdum illmenni og vitleysinga

Hlutverk okkar hinna

En þá hlýtur það líka að vera heilög skylda okkar, sem teljum okkur ekki tilheyra þeim hópi, að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að þeir fái nokkru ráðið um neitt sem varðar lífið á jörðinni.

Við höfum ekki staðið okkur sem skyldi í þeim efnum. Valdamestu menn heims leyfa sér að afneita hinu augljósa upp í opið geðið á allri heilbrigði skynsemi.

Við kristnir menn trúum því að við höfum sérstakar skyldur við sköpunarverkið. Við erum sett hingað til að hugsa um það. Við erum eini hluti sköpunarverksins sem Guð gerir kröfur til. „Hann skal drottna yfir fiskum sjávarins, fuglum loftsins, búfénu, villidýrunum og allri jörðinni og öllum skriðdýrum sem skríða á jörðinni,“ segir hann. Og þetta höfum við svo sannarlega gert. En hvernig höfum við gert það? Hvers konar drottnari er það sem tortímir ríki sínu og þegnum og á endanum sjálfum sér?

Við trúum því líka að Guð elski sköpunarverk sitt. Við trúum því að Guð hafi skapað himinn og jörð af því að hann varð. Af því að Guð er kærleikur. Og kærleikur getur ekki verið til í tómi og snúist um sjálfan sig. Það er ekki hægt að elska nema elska eitthvað. Kærleikurinn krefst andlags. Þar sem ekkert er til nema Guð hefur Guð ekkert nema sjálfan sig til að elska og getur því ekki verið kærleikur og þarafleiðandi ekki heldur Guð. Allt sem er til er beinlínis til orðið til þess að vera andlag við kærleika Guðs.

Við getum komið saman í kirkju eða hvar sem er annars staðar og tjáð Guði ást okkar á honum með löngum ræðum og bænamáli fullu af fallegum orðum og skrúðmælgi. En ef við gerum það og förum svo út og misþyrmum því sem hann elskar og svívirðum það erum við með verkum okkar að tjá honum allt annað en ást okkar á honum. Kristinn maður umgengst sköpunarverkið af virðingu fyrir skaparanum.

Um þetta ættu kristnir menn að geta verið sammála.

Það sem við erum sammála um

Þrír síðustu páfar hafa tjáð sig undanbragðalaust um hnattræna hlýnun og þegar núverandi Bandaríkjaforseti heimsótti Frans páfa fyrir skemmstu afhenti sá síðarnefndi honum 192 blaðsíðna páfabréf þar sem fólk er hvatt til dáða að bregðast við – sem eins og alþjóð er kunnugt er eitur í beinum Bandaríkjaforseta.

Ágreiningur er á milli íslensku þjóðkirkjunnar og þeirrar kaþólsku um mörg málefni; svo sem um sakramentis- og embættisskilning, prestvígslu kvenna, hjónaband samkynhneigðra, getnaðarvarnir og fóstureyðingar svo fátt eitt sé nefnt. Nýlega sendi Frans páfi frá sér yfirlýsingu sem vakti athygli fyrir það hve frjálslynd og róttæk hún þótti. Hann lagði til að fráskildu fólki yrði heimilt að þiggja altarissakramentið.

Ágreiningurinn er raunverulegur og ekkert samkirkjulegt starf getur breytt yfir hann eða afmáð hann. En þegar að loftslagsmálum og virðingu fyrir sköpunarverkinu kemur gengur ekki hnífurinn á milli okkar og kaþólskra bræðra okkar og systra.

Við hljótum að spyrja okkur: Í hvernig heimi búum við þegar páfinn í Róm er orðinn hættulega frjálslyndur og róttækur í augum þeirra sem mestu ráða? Þegar kristindómur valdamesta fólks í heimi – sem svo sannarlega gerir í því að flagga kristindómi sínum við hvert tækifæri – er með þeim hætti að kaþólska kirkjan virðist beinlínis líbó og afslöppuð í samanburði?

En önnur spurning er mikilvægari: Hvaða kröfur gerir þið til okkar, sem kristinna manna, að við skulum búa í slíkum heimi?

Um það mætti flytja langt mál og það ætla ég ekki að gera hér … kannski síðar.

En við skulum aldrei, aldrei gleyma þessari spurningu. Við skulum hafa hana syngjandi í kollinum á okkur hverja stund, láta hverja okkar athöfn, allt okkar mál, vera innlegg í það hvernig við svörum henni.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 25. júní 2017

Davíð Þór Jónsson
Latest posts by Davíð Þór Jónsson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,464