trusted online casino malaysia
Karl Th. Birgisson 24/05/2014

Það sem angistarhrínið merkir

Samkvæmt lögum er bannað að gelda grísi án þar til ætlaðrar deyfingar sem gerir þeim meðhöndlunina bærilegri.Grísagelding

Samt eru þúsundir grísa geltir án nokkurrar deyfingar allt árið um kring. Þeir hrína og væla og berjast um af sársauka í höndum kvalara sinna.

Fulltrúi svínaframleiðenda (því að framleiðendur eru þeir, en engir bændur) sagði í sjónvarpsfréttum að sársauki væri „afstæður“ og sitthvað fleira sérkennilegt.

Ég þori að hengja mig upp á að grísunum þykir sársaukinn hreint ekkert afstæður. Þeir tjá það mjög skýrt með mergnístandi hríni.

Yfirdýralæknir sagði í sömu fréttum að þetta væri náttúrlega ekki nógu gott, en hún ætlaði að gefa iðnfyrirtækjunum séns fram að áramótum til að fara að lögum. Það þýðir sjö mánuði í viðbót af óáreittu dýraplageríi.

Yfirdýralæknir meinar eflaust vel, en það er óvart ekki hennar hlutverk að ákveða hvort fyrirtæki fara að lögum eða ekki. Þau eiga að fara að lögum, og við höfum sýslumenn og lögreglu til að framfylgja því. Hvar er löggan, sem horfir á fréttirnar eins og við hin?

Ef ég gerði þetta við hundinn minn yrði ég (sem betur fer) umsvifalaust kærður og (vonandi) dæmdur í dágóða sekt. Og dýrinu komið í annarra hendur.

Iðnrekendur sem kvelja dýr í gróðaskyni á hverjum degi, mánuðum og árum saman, þrátt fyrir skýr lagaákvæði sem þeim er fullkunnugt um, eiga að fara í fangelsi. Og aðrir að taka við framleiðslunni sem skilja hvað lögin segja og hvað angistarhrínið merkir.

1,251