Svörtu rásirnar
Á námsárum mínum í Vestur Berlín áður en múrinn féll, horfði ég stundum á sjónvarpsþátt í austur-þýska sjónvarpinu sem hét Svarta rásin („Der Schwartze Kanal“).
Á hverju þriðjudagskvöldi lýsti þáttastjórnandinn, Karl Eduard von Schitzler, því skelfilega ástandi sem ríkti í Vestur-Þýskalandi og vestur-Evrópu yfirleitt. Hann fullyrti með „rökum“ að Austur-Þýskaland væri fyrirmyndarríkið sem þyrfti ekki nein samskipti við „vestrið“.
Vondur matur í vestrinu
Fjallað var um erfiðleika fólks við að finna sér vinnu, menningarleysið, glæpatíðni, mengunina, vændið í vestrinu, vondan mat sem væri þar að finna, sjálfsmorð og allt það sem var slæmt við það að búa vestan megin – „Im Westen“ eins og það var kallað. Ekkert af þessum vandamálum væri að finna austanmegin í landinu að sjálfsögðu!
Austur-Þjóðverjar kölluðu þáttinn „Der Schwartz…“ þar sem þeir slökktu á honum áður en þáttastjórnandinn gat byrjað reiðilesturinn. Þeir vissu að það var verið að ljúga að þeim, þeir vissu betur af því að þeir gátu séð sjónvarpsútsendingar frá Vestur-Þýskalandi og lesið blöð sem var smyglað þaðan.
Skítugt rafmagn í Evrópu
Erum við Íslendingar hugsanlega með okkar „svörtu rásir“ sem fjalla um það hvað það sé skelfilegt ástand í Evrópu í dag. Við höfum heyrt um 28 þjóðir sem hafa afsalað sínu fullveldi, borða óætan mat sem breytir hugarástandi fólks og framleiða „skítugt rafmagn“ eins og einn snillingurinn á Alþingi orðaði það nýlega. Samtök sem tengja við sig víðsýni og háttsettir stjórnmálamenn geta þess daglega hvaða hryllingur bíður okkar við fulla aðild að ESB.
Oftast er vísað í lönd sem eru sem lengst í burtu og sem syðst í álfunni sem eru með hagkerfi sem er ólíkt okkar og hafa allt önnur viðfangsefni en við.
Það sem er ekki talað um
En aldrei er talað í svörtu kanölunum okkar um þá velmegun og góða atvinnuástand sem er í löndunum nálægt okkur sem við ættum að bera okkur saman við. Þessi lönd, eins og Holland, Belgía, Írland, Bretland, Þýskaland, Svíþjóð, Finnland og Danmörk búa við stöðugleika og lága verðbólgu og lága vexti, lágt atvinnuleysi og engin gjaldeyrishöft, borga mannsæmandi lágmarkslaun, hafa frið á vinnumarkaði og gott velferðarkerfi… einmitt það sem okkur finnst eftirsóknarvert.
Fólkið sem býr þarna veit ekki hvað vísitölutenging lána er og getur eignast húsnæði án þess að þurfa að taka mikla áhættu. Venjulegt húsnæðislán (20mkr) kostar um 28 þúsund krónur á mánuði í vexti meðan íslenskt lán kostar 128 þúsund krónur. Það þarf að vinna fyrir um 140 þúsund krónum á mánuði fyrir skatta til að eiga fyrir þessum aukavöxtum. Það myndi muna um slíka kjarabót á Íslandi í dag.
Svörtu kanalarnir á Íslandi nefna það aldrei að venjulegar fjölskyldur þurfi með reglulegu árabili að eiga hættu á að tapa öllu sínu eigin fé þegar gengi gjaldmiðilsins fellur og verðbólgan rýkur upp. Nýjustu kannanir sýna að íslenskar fjölskyldur komu hvað verst út úr hruninu 2008 í samanburði við nágrannalönd okkar.
Hræðilegt ástand á Íslandi ef við göngum í ESB
Þrátt fyrir að öll 28 fullvalda ríkin sem eru í ESB búi við einhverja mestu velmegun og frið sem um getur í heiminum, öflugt velferðarkerfi, lágt vöruverð, mikla umhverfisvernd og neytendavernd og hagstæð vaxtakjör af húsnæðislánum er stöðugt verið að reyna að sannfæra okkur um þetta hræðilega ástand sem Ísland myndi búa við ef við gerðust fullgildir aðilar að Evrópusamstarfinu.
Auðvitað leysum við ekki öll okkar vandamál með inngöngu. Henni fylgja annmarkar, en væri það ekki samt góð hugmynd að hætta að hlusta á okkar svörtu rásir og ræða frekar hugsanlega kosti við Evrópuaðild?
Thomas Möller, Hringbraut, 19. maí 2015
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021