trusted online casino malaysia
Björn Valur Gíslason 10/06/2014

Svo mikið svoleiðis

Þessi litla og sakleysislega frétt um hækkun á fasteignamati er kannski stærri og meiri en halda má í fyrstu. Skoðum það aðeins betur.Borgarmynd

Fasteignamat á að endurspegla söluverð fasteigna miðað við staðgreiðslu. Samkvæmt því hækkaði fasteignaverð í Reykjavík um 4,3% í fyrra og mun hækka tvöfalt og jafnvel þrefalt það á þessu ári. Mest er hækkunin í miðbænum og vesturbænum.

Í fyrsta lagi þá er 14% hækkun á verði fasteigna milli ára hvorki til merkis um eðlilega þróun fasteignaverðs né efnahagslegan stöðugleika. Þetta er því bóla sem og skýrt vitni um óeðlilegt ástand sem ber að óttast af fyrri reynslu.

Í öðru lagi þá liggur fyrir að fasteignaeigendur í Reykjavík og þá sérstaklega í vestur- og miðbænum fá mest út úr stóru millifærslu ríkisstjórnarinnar. Aukin eignamyndun hefur engin áhrif á möguleika fólks til að sækja um millifærsluna enda skiptir efnahagsleg staða fólks engu í því sambandi. Þeir fá mest innlagt úr ríkissjóði til skuldalækkunar er því sami hópurinn og á eignirnar sem eru að hækka svo mikið í verði. Það mun leiða til aukinnar neyslu umfram það sem eðlilegt getur talist með tilheyrandi áhrifum á verðlag, viðskipti við útlönd, gengi krónunnar og  – verðbólgu.

Í þriðja lagi þá vegur fasteignaverð þungt í mælingu á vísitölu og því mun þessi mikla og óeðlilega hækkun virka sem kjarnafóður á verðbólguna sem mun síðan hafa neikvæð áhrif á lífskjör okkar allra. Fleira mætti nefna til í þessu sambandi.

Það er því í rauninni fátt gleðilegt við þessa miklu hækkun á fasteignamati (verði) í Reykjavík til lengri tíma litið. Til skemmri tíma spái ég að flestir muni kætast yfir skammtímagróða og láta sig litlu varða um morgundaginn.

Við erum svo mikið svoleiðis.

Latest posts by Björn Valur Gíslason (see all)
Flokkun : Pistlar
1,247