trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 05/04/2014

Svo æli ég úr mér iðrunum

Þegar þar að kemur get ég sest niður fyrir framan tölvuna mína, slegið inn vefslóðina á skuldaleiðréttingarvél ríkisstjórnarinnar, fengið mér kaffisopa úr appelsínugula fantinum mínum og sótt um niðurfellingu á verðtryggða húsnæðisláninu mínu. Ég á sannarlega rétt á þessu eins og þúsundir annarra Íslendinga. Takk Sigmundur Davíð: Nú ertu ekki bara búinn að segja eitthvað rétt heldur gera eithvað rétt líka.Ingi Freyr

Þetta verður víst eins auðvelt og þægilegt fyrir mig og að „panta pítsu“. Nema í stað pítsunnar mun ég panta mér pening. Í stað þess að borga 20 falt kostnaðarverð fyrir hveitisull fæ ég allt fyrir ekkert; skuldaniðurfellingu með tölvustriki fyrir einungis örfáar mínútur af tíma mínum. Hver getur hafnað slíku kostaboði? Takk Sigmundur Davíð.

Ég get svo hallað mér aftur í stólnum þegar ég verð búinn að sækja um aurinn, hugsað um hvað þetta sé nú frábært og tekið til við að hripa niður grein um hvað þessi peningapöntunarvél ríkisstjórnarinnar er galin frá upphafi til enda. Allt frá því að Sigmundur Davíð byrjaði að delera um hrægamma og 300 milljarða eignaupptöku úr þrotabúum kröfuhafa bankanna við örvæntingarfulla kjósendur, til sögulegs kosningasigurs hans vorið 2013 og hálf fjarstæðukenndrar biðar þjóðarinnar eftir efndum á þessu galna loforði, og loks á endanum til þessarar allt öðruvísi niðurstöðu á kosningaloforðinu sem ég var að enda við að nýta mér.

Mér finnst þetta í heildina vera fráleit saga; saga sem er ekki síður absúrd á sinn hátt en það sem gekk á á Íslandi árin fyrir hrunið. Fyrri sagan snýst um misnotkun á bólu en sú seinni um að misnota neyð. Saga um kosningalygar og brigsl, saga um auðtrúa og örvæntingarfulla kjósendur, saga um taugaspenntan og vanstilltan framsóknarformann sem er andlit þessara „stærstu svika íslenskrar stjórnmálasögu“ þar sem orðalagið „tilgangurinn helgar meðalið“ hefur öðlast eina sína ógeðfelldustu birtingarmynd. Sigmundur Davíð keypti heilar kosningar með þessu loforði sem endaði sem þessi hortittur í pöntunarvél sem ég var að ljúka við að nota.

Og lokakaflinn í þessari sögu er eiginlega einn sá áhugaverðasti því hann snýst um það hvernig ég gat haft geð í mér til að nýta mér eitthvað sem ég er svo mikið á móti. Ég kaus hvorki Framsóknarflokkinn né Sjálfstæðisflokkinn þannig að ríkisstjórnin vinnur ekki í mínu pólitíska umboði. Ég bað ekki um þessa skuldaniðurfellingu, þvert á móti. Skuldaniðurfellingin sem ég var að panta mér er röng að svo mörgu leyti, og ég veit það, en samt ákvað ég að taka við henni: Hún er siðferðilega röng – hvað annað er hægt að segja um það að ljúga að kjósendum til að komast til valda; hún er efnahagslega vafasöm – hún er fjármögnuð með skattfé að hluta og kann að ýta undir verðbólgu; hún er óþörf í sumum tilfellum af því hún nýtist fólki sem þarf ekki á henni að halda – ég þarf ekki nauðsynlega á henni að halda þó auðvitað sé fínt að fá milljón og ég á vin sem er tekjuhár og barnlaus lögfræðingur sem ætlar að nýta sér skuldaúrræðið þrátt fyrir að vera vel settur fjárhagslega; hún er líka hugsanlega ólögleg – hluti fjármagnsins sem nota á í skuldaniðurfellinguna er ekki í hendi og verður sóttur sem skattur í þrotabú föllnu bankanna og kann sú skattlagning að vera brot á lögum. En ég tek samt þátt í þessu af því ég græði á því og af því ég get það.

Að þessu leyti er ég í sömu sporum og þúsundir annarra Íslendinga sem telja skuldaleiðréttingarnar vera þvætting frá upphafi til enda, allt frá kosningaáróðrinum um hrægammana til peningapöntunarmaskínu ríkisstjórnarinnar. En við pöntum okkur samt peninginn með óbragð í munni.

Ef ég, og þúsundir annarra Íslendinga, tek þátt í þessu hvaða skilaboð sendir það þá til Framsóknarflokksins? Ekki eingöngu hefur flokkurinn náð að kaupa fjórðung kjósenda til greiða sér atkvæði heldur líka fengið meirihluta þjóðarinnar til að nýta sér peningavélina sem þessi sami meirihluti greiddi ekki atkvæði sitt og sem hluti hans hefur gagnrýnt harkalega í meira en heilt ár. Hvað kennir þessi staða stjórnmálamönnum um réttmæti þess að gefa kjósendum óraunhæf kosningaloforð? Á endanum gleypir meirihlutinn við því með glýju í augum sem aðeins minnihlutinn vildi. Endurtekur sagan sig ekki? Er ekki málið að Framsókn lofi næst 120 prósent húsnæðislánum?

Ég halla mér fram í stólnum mínum, grúfi mig yfir skrifblokkina og píri augun yfir párinu. Nú ætla ég brátt að setja punkt aftan við þessa grein. Ég er með pennann í hendi en ég fæ mig bara ekki til að skrifa meira því ég get það ekki. Mér líður alls ekki vel. Ég ætla að leggja pennann frá mér, hreiðra um mig á gólfinu í fósturstellingu í smá stund og fara svo inn á klósett og æla úr mér iðrunum.

Takk Sigmundur Davíð: Nú ertu ekki bara búinn að fá fjórðung þjóðarinnar til að kjósa þig heldur líka fá meirihluta þjóðarinnar til að brúka útþynntu útgáfuna af snákaolíunni sem þú lofaðir væntanlegum kjósendum þínum ef þeir myndu treysta þér.

Ingi Freyr Vilhjálmsson, 4. ppríl 2014

1,443