trusted online casino malaysia
Gestastofa 29/05/2014

Svarti bletturinn

Eftir Sigtrygg Magnason

Sigtryggur MagnasonMér hefur alltaf verið frekar hlýtt til Framsóknarflokksins. Ég ólst upp við það hjá afa mínum og ömmu fyrir norðan að í lok nóvember kom pakki inn á heimilið sem innihélt jóladagatal Sambands ungra framsóknarmanna sem ég held að afi minn hafi einhverra hluta vegna verið áskrifandi að. Hann var þó ekki ungur framsóknarmaður. Hann var bara framsóknarmaður. Og á þessum tíma, hinum stórkostlega níunda áratug síðustu aldar, var það að vera framsóknarmaður hluti af sjálfsmynd og framtíðarsýn margra. Steingrímur Hermannsson var hófsamur leiðtogi. Á mínu æskuheimili var borin mikil virðing fyrir honum. Hann var okkar maður, okkar sveitafólksins, ólíkt Jóni Baldvini sem amma mín heitin sagði stundum að hún myndi spýta í augað á ef hún rækist á hann. Ég er sem sagt úr framsóknarfjölskyldu. Þetta er og var duglegt fólk sem bar virðingu fyrir landinu sínu og skildi það að engu er áorkað án erfiðis.

Mér hefur, þrátt fyrir að margt hafi farið úrskeiðis í stefnu flokksins og að forystumönnum hans hafi eftir daga Steingríms verið mislagðar hendur og stundum hafi jaðrað við spillingu, gengið illa að fyrirlíta hann eins og svo margir virðast gera. Framsóknarflokkurinn hefur nefnilega búið að því að eiga sér djúpar rætur og sögu í íslensku samfélagi. Hann hefur átt sínar skuggalegu helmingaskiptahliðar en eins og amma sagði oft þá er sami rassinn undir þeim öllum. Framsókn var flokkur sveitamanna sem mörgum er tamt að nota sem skammaryrði en hefur í mínum augum yfir sér einhvern nostalgískan og náttúrulegan ljóma.

Við lifum á merkilegum tímum. Við lifðum háskalegt fjárhagslegt hrun heillar þjóðar. Fyrir hrun lifðum við sjarmerandi brjálæði peningamannanna settu heila þjóð sem tryggingu fyrir reikningum á barnum. Eftir hrun höfum við lifað nagandi óttann við framtíðina sem á sér alltaf ískalda birtingarmynd í næstu mánaðamótum. Við höfum rifist, við höfum bölvað, við höfum sett stóru málin á dagskrá, stjórnarskrá og fiskveiðistjórnarkerfi, og kaffært þeim í smásmugulegum hagsmunum. Enginn hefur getað brotið sig upp úr mykjuskáninni til að skoða heildarmyndina af því alltaf hengir sig einhver í fæturna og dregur hann dýpra í skítinn.

Við lifum á hættulegum tímum. Við sjáum það þegar litið er yfir stjórnmálaþróun í Evrópu. Eitrið er farið að seitla upp á yfirborðið og það sums staðar hressilega. Eftirhrunsárin eru okkar eftirstríðsár. Óttinn og reiðin krauma undir og það er á ábyrgð stjórnmálamanna að íslenska þjóðin verði ekki fórnarlamb þeirra. Á tímum sem þessum þurfum við ekki sterka leiðtoga, við þurfum hugsandi réttsýna leiðtoga sem taka sér ekki far með því viðurstyggilegasta í fari manneskjunnar: hatrinu sem er knúið áfram af ótta og vanþekkingu.

Framsóknarflokkurinn stendur á tímamótum. Forystukona hans í Reykjavík hefur opnað dyr stjórnmálanna fyrir heimsku og hatri. Ég vona hennar vegna og ég vona Framsóknarflokksins vegna að hún nái ekki þeim árangri að komast inn í borgarstjórn með sinn eitraða farangur. Þá verða ekki aðeins tímamót í sögu Framsóknarflokksins heldur líka í sögu íslensku þjóðarinnar. Þá verður kominn óafmáanlegur svartur blettur á sögu flokksins. Þá verður opnað sár á íslensku þjóðinni grær seint – eða aldrei.

Sigtryggur Magnason

Flokkun : Pistlar
1,384