trusted online casino malaysia
Jón Daníelsson 06/07/2017

Stjórnarskrá brotin á láglaunafólki

Þegar tekin er um það ákvörðun að veita tilteknum hópi fólks styrki úr ríkissjóði er ekki sjálfgefið að allir fái jafnmikið í sinn hlut. Sem dæmi um þetta má nefna vaxtabætur, húsnæðisbætur og jafnvel bætur Tryggingastofnunar, sem fara minnkandi með bættum efnahag. Það verður að teljast sanngjarnt að þeir sem hafa úr litlu að spila fái meira en þeir sem eru betur settir og um það ríkir almenn sátt.

Nú eru hins vegar komnir til sögunnar ríkisstyrkir þar sem fólki er mismunað eftir efnahag á þveröfugan hátt. Þeir sem hafa hærri tekjur fá hærri styrk en þeir sem hafa lægri tekjur. Mér sýnist afar hæpið að þetta fyrirkomulag standist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Áhrif hennar að þessu leyti eru t.d. útskýrð á Vísindavef Háskóla Íslands.

Síðustu þrjú ár hefur fólki verið heimilt að nýta séreignarsparnað sinn, allt að 500.000 krónur á ári, bæði til niðurgreiðslu íbúðalána og til útborgunar í fyrstu íbúð án þess að greiða skatt. Ný lög um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð tóku gildi 1. júlí og með þeim er þessi heimild framlengd með dálítið breyttu sniði og kaupendum fyrstu íbúða veitt skattfrelsi í tíu ár.

Gallinn er sá að upphæðin miðast við 6% af launum. Launþegi getur lagt 4% af launum sínum í séreignarsparnað og fær þá 2% mótframlag. Til þess að þetta nái 500.000 krónum á ári, þurfa mánaðarlaunin að vera 694.445 krónur. Lægstu launataxtar hljóða nú upp á 280.000 króna mánaðarlaun og fari alls 6% af þeirri upphæð í séreignasparnað verður útkoman 16.800 x 12 = 201.600 krónur á ári, eða einungis 40% af hinu leyfilega hámarki.

Það er auðvitað enginn eðlismunur á því hvort ríkissjóður afhendir manni þúsundkall eða sleppir því að innheimta hann. Skattaafsláttur og bein peningagjöf eru að því leytinu eitt og hið sama. Og bjóðist tilteknum hópi fólks skattaafsláttur upp á hátt í tvær milljónir króna, verður það að gilda jafnt um allan hópinn – ekki bara suma.

Til að virða jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar er sem sagt nauðsynlegt, að lögin heimili öllum fyrstukaupendum að leggja hálfa milljón á ári í skattfrjálsan séreignasparnað alveg án tillits til launa. Nýju lögin gera ráð fyrir tíu ára skattfrelsi. Á þeim tíma styrkir ríkissjóður fólk á lágmarkslaunum um innan við 750 þúsund, en þeir sem geta fullnýtt 500 þúsund króna markið fá ríflega 1,1 milljón meira, eða nærri 1.850.000 krónur að gjöf frá ríkinu.

Að sjálfsögðu er í mörgum tilvikum afar hæpið að ungt fólk er á lágum launum hafi efni á að leggja aukalega 30-35 þúsund á mánuði í séreign, en skattfrelsið  gæti þó orðið mörgum talsverð hvatning. Raunar meiri hvatning en ella vegna þess að skattalækkunin kemur strax fram á launaseðlinum og útborguð laun lækka því talsvert minna en sem nemur sparnaðinum.

Ungt fólk á lágum launum býr reyndar við afar misjafnar aðstæður. Sumir búa enn í foreldrahúsum og gætu trúlega nýtt sér þetta úrræði til fulls. Aðrir væru kannski engu betur settir.

Þetta er hins vegar alveg óviðkomandi því grundvallarmisrétti að ríkið skuli mismuna ungum íbúðakaupendum svona gróflega á grundvelli efnahags. Eðlilegast er auðvitað að Alþingi taki rögg á sig og breyti lögunum afturvirkt strax í haust, þannig að allir sitji við sama borð. Til að ná fullkomnu réttlæti þyrfti ríkið að bæta upp þann hluta mótframlagsins, sem atvinnurekandinn borgar ekki. Í því fælist reyndar örlítil mismunun, en hún væri jákvæð gagnvart þeim sem hafa lægri laun, ekki neikvæð eins og í núgildandi lögum. Og slík jákvæð mismunun er vel þekkt og nýtur almennrar viðurkenningar.

Það eru takmarkaðar líkur til þess að stjórnarmeirihlutinn á Alþingi geri neitt í málinu. En það er hægt að láta reyna á það fyrir dómi hvort svo gróf mismunun standist stjórnarskrá. Úr því gæti orðið áhugavert prófmál.

Flokkun : Pistlar
1,786