trusted online casino malaysia
Jón Daníelsson 16/09/2014

Stjórnarkreppa í Svíþjóð

StefanLofven2014Staðan að loknum þingkosningum í Svíþjóð er nokkuð sérkennileg, en verður tæpast kölluð nokkuð annað en stjórnarkreppa. Rauðgræna fylkingin bætti aðeins við sig tveimur þingmönnum og þingstyrkur hennar er því nánast óbreyttur frá síðustu kosningum. Aftur á móti töpuðu ríkisstjórnarflokkarnir fjórir allir fylgi og samtals 31 þingsæti. Þar með varð hægrið minna en vinstrið. Stóri sigurvegarinn varð SD, Svíþjóðardemókratar. Flokkurinn meira en tvöfaldaði fylgið, bætti við sig 29 sætum og hefur 49 fulltrúa á þingi.

Byrjum á að skoða stöðuna:

V – Vinstriflokkurinn (Vänsterpartiet): 21 þingsæti (+2).

S – Sósíaldemókratar: 113 þingsæti (+1).

Mp – Umhverfisflokkurinn (Miljöpartiet): 24 þingsæti (-1).

C – Miðflokkurinn (Centerpartiet): 22 þingsæti (-1).

Fp – Þjóðarflokkurinn (Folkpartiet): 19 þingsæti (-5).

Kd – Kristilegir demókratar (Kristdemokraterna): 17 þingsæti (-2).

M – Hægri flokkurinn (Moderaterna): 84 þingsæti (-23).

SD – Svíþjóðardemókratar (Sverigedemokraterna): 49 þingsæti (+ 29).

Staða hinna hefðbundnu blokka er því þannig, að V+S+Mp hafa 158 þingmenn, en C+Fp+Kd+M alls 142 þingmenn. Svigatölurnar sýna breytingar frá kosningunum 2010 og það er alveg skýrt að úrslitin eru ekki vinstrisigur, heldur skýrist breytingin algerlega af tapi borgaraflokkanna.

Samstarf yfir miðjuna

Úrslitin koma ekki á óvart. Kannanir hafa að vísu á köflum sýnt meiri mun en raunin varð. En strax í kosningabaráttunni varð ljóst að a.m.k. Stefan Löfven, leiðtogi Sósíaldemókrata, gerði sér fulla grein fyrir að rauðgræna fylkingin fengi ekki hreinan meirihluta. Hann boðaði allan tímann samstarf við Umhverfisflokkinn og gætti þess að hvessa sig ekki um of gagnvart miðjuflokkunum, Miðflokknum og Þjóðarflokknum.

Í ræðu sinni á kosningavöku Sósíaldeókrata eftir að úrslit lágu fyrir, tók Löfven strax skýrt fram að hann rétti nú fram höndina til þessara tveggja flokka. Og hann steig mjög eindregið viðbótarskref daginn eftir, þegar hann tilkynnti leiðtoga Vinstriflokksins, að stjórnarsamstarf við hann kæmi ekki til greina. Þannig auðveldar Löfven sér samninga við miðjuflokkana.

Það hefur komið nokkuð á óvart hversu hratt og afdráttarlaust Stefan Löfven gengur til verks. En staðan er einfaldlega sú, að eina leiðin til að mynda starfhæfa ríkisstjórn felst í þessari brúarsmíð yfir miðjuna. Miðjustjórn S+Mp+C+Fp hefði 178 þingmenn af 349 að baki sér. Stjórnarandstaðan hefði samtals 171 þingmann, en væri að auki afar sundurleit.

Opinberlega hafa talsmenn miðjuflokkanna tekið þessari málaleitan illa og svo mikið er víst að myndun miðjustjórnar gerist hvorki hratt né fyrirhafnarlítið og svona allra fyrstu dagana eftir kosningar virðist möguleikinn meira að segja nokkuð langsóttur.

Ógnvaldurinn mikli

Svíþjóðardemókratar náðu í fyrsta sinn inn á þing í síðustu kosningum, en meira en tvöfölduðu fylgi sitt nú og fengu 49 þingmenn. Nú sameinast allir aðrir flokkar um að gera þá áhrifalausa. Það er þó ekki alls kostar einfalt, en segja má að tvær leiðir séu í boði.

Annars vegar er sú leið sem Stefan Löfven beitir sér nú fyrir með því að reyna myndun meirihlutastjórnar eða í öllu falli mynda stjórn sem njóti stuðnings meirihluta þingsins. Hins vegar mætti fræðilega hugsa sér að borgaraflokkarnir sjái alltaf til þess að nægilega margir sitji hjá til að rauðgræn ríkisstjórn komi málum sínum í gegn.

En það verður að segjast eins og er, að síðargreindi möguleikinn er ekki framkvæmanlegur í reynd. Á síðasta kjörtímabili tókst SD að hafa áhrif a.m.k. einu sinni með því að greiða atkvæði með stjórnarandstöðunni og fella þannig stjórnarfrumvarp.

Engu að síður ríkir um það fullkomin samstaða meðal 300 þingmanna af 349 að líta á Svíþjóðardemókrata sem „óhreina“ og halda þessum ógnvaldi áhrifalausum nánast sama hvað það kostar.

Sennilegasta lausnin

Þar eð átta flokkar eiga sæti á þingi, má auðvitað hugsa sér fjölmargar lausnir á þeirri úlfakreppu sem nú ríkir. Sú einfaldasta væri auðvitað samstjórn stóru flokkanna tveggja. Slík stjórn fengi ríflegan meirihluta og flokkarnir gætu báðir afsakað sig með því að þeir væru að bregðast við neyðarástandi. Sem fyrirmyndar mætti vísa til Þýskalands, þar sem Sósíaldemókratar starfa nú með Kristilegum demókrötum einmitt vegna þess að hreinar línur fengust ekki í síðustu kosningum.

En í Svíþjóð er þessi lausn þó alveg óhugsandi. Þar er aldarlöng hefð fyrir svokallaðri blokkapólitík og einu undantekningarnar eru stuðningur Miðflokksins við Sósíaldemókrata á sjötta áratug síðustu aldar og svo aftur á kjörtímabilinu 1994-98. Samstarf stóru flokkanna tveggja myndu kjósendur beggja líta á sem hrein og bein svik.

Einhvers konar brú yfir miðjuna er því sennilegasta lausnin. „Þegar púðurreykurinn frá kosningaósigrinum hefur sest, rennur upp fyrir þeim [leiðtogum miðjuflokkanna] að landinu verður að stjórna. Enginn vill hleypa Svíþjóðardemókrötum til áhrifa og þá verða bandalagsflokkarnir að taka þátt,“ hefur sænska Aftonbladet eftir ónefndum áhrifamanni úr röðum Sósíaldemókrata.

Það er vissulega ólíklegt að miðjuflokkarnir taki beinan þátt í ríkisstjórn undir forsæti Stefans Löfven, en hins vegar alls ekki óhugsandi að þeir verji minnihlutastjórn hans falli með hjásetu og semji við hana um einstök mál. Þetta er gerlegt þótt flokkarnir séu í orði kveðnu í stjórnarandstöðu.

Nokkuð hörð og neikvæð viðbrögð flokksleiðtoganna gagnvart miðjupólitík Stefans Löfven eru eðlileg fyrstu dagana eftir kosningar, en strax á næstu vikum gæti sú afstaða mýkst talsvert.

Erfiðasti hjallinn

Í Svíþjóð er það hlutverk þingsins að kjósa forsætisráðherra. Forseti þingsins ber fram tillögu og hún skoðast samþykkt nema meirihluti allra þingmanna greiði atkvæði á móti. Líklegast er að allir (eða flestir) þingmenn fráfarandi stjórnar sitji hjá og Stefan Löfven verður því væntanlega forsætisráðherra án fyrirstöðu.

Allt annað verður uppi á tengingnum þegar að því kemur að fá fjárlagafrumvarp nýrrar stjórnar samþykkt. Varðandi fjárlög gilda aðrar reglur og hefðir en hérlendis. Í sænska þinginu er hefðbundið að bæði stjórn og stjórnarandstaða leggi fram fjárlagafrumvörp. Í haust má gera ráð fyrir alls fjórum frumvörpum til fjárlaga. Minnihlutastjórn S+Mp leggur fram sitt frumvarp. Borgarabandalagið (M+Kd+Fp+C) hefur þegar ákveðið að standa saman að fjárlagafrumvarpi í samræmi við sameiginlega kosningastefnuskrá. Svíþjóðardemókratar hafa lagt fram eigið frumvarp undanfarin ár og gera það vafalaust einnig nú. Og loks má vænta þess að Vinstriflokkurinn leggi fram sitt eigið frumvarp.

Við afgreiðslu fjárlaga gildir „útilokunarreglan“ þannig að það frumvarp sem fær fæst atkvæði fellur út og síðan eru greidd atkvæði á nýjan leik. Augljóst er að á endanum standi slagurinn milli frumvarps minnihlutastjórnar S og Mp og frumvarps Borgarabandalagsins. Svíþjóðardemókratar hafa þá í hendi sér hvort þeir gefa nýrri ríkisstjórn líf með hjásetu, eða fella hana með því að greiða atkvæði með borgaraflokkunum.

Nýjar kosningar

Falli fjárlagafrumvarp nýju stjórnarinnar, er ekki um annað að velja en að boða til nýrra kosninga. En líka hér, hefur Svíþjóð nokkra sérstöðu. Nýjar kosningar teljast aukakosningar og næstu reglulegu þingkosningar verða í september 2018 – alveg sama hversu oft þarf að kjósa í millitíðinni.

Einmitt vegna samstöðunnar gegn Svíþjóðardemókrötum hugnast engum þingflokki að hleypa baráttunni um fjárlögin svo langt, sem lýst var hér að framan.

Það er reyndar athyglisvert í þessu samhengi að Fredrik Reinfeldt sagði af sér í nafni þessarar samstöðu. Stjórn hans hefði getað setið áfram, en þá þurft að gera einhverjar tilslakanir gagnvart SD. Afsögn hans má því öðrum þræði túlka sem fullkomna afneitun þeirrar staðreyndar að SD eigi fulltrúa á þingi. Um leið má kalla það rökrétt framhald að borgaraflokkarnir hleypi fjárlagafrumvari nýrrar stjórnar í gegn.

En það hlýtur jafnframt að verða freistandi fyrir miðjuflokkana að reyna að hafa einhver áhrif á fjárlög næsta árs. Það gerist þó aðeins með samningum og um leið og byrjað er að semja, er verið að taka í þá útréttu hönd Stefans Löfven, sem slegið er svo harkalega á, núna allra fyrstu dagana eftir kosningar.

Flokkun : Pistlar
1,382