trusted online casino malaysia
Guðmundur Gunnarsson 21/09/2014

Skilið lyklum okkar

Ríkisstjórn B og DEitt af einkennum íslenskra stjórnmála er andúð stjórnmálamanna á forystumönnum í atvinnulífinu eins og birtist okkur í hverjum fréttatímanum á fætur öðrum þessa dagana. Þingmenn og ráðherrar segjast þekkja betur vilja félagsmanna en starfsmenn stéttarfélaganna, og þvertaka á grundvelli þess að ræða nokkrar umbætur. Stjórnmálamenn lokaðir inn í þröngri veröld Já-manna, heimóttalegir, þjakaðir af ofsóknarsýki og einagnraðir frá samfélaginu.

 

Í þessu sambandi má t.d. minna á ítrekuð reglubundin ummæli þingmanna um að forseti ASÍ starfi einn og taki ákvarðanir án nokkurs samráðs aðra innan hreyfingarinnar. Bakvið forseta ASÍ starfar 18 manna miðstjórn skipuð öllum helstu talsmönnum stéttarfélaganna og að baki þeim eru síðan stjórnin stéttarfélaganna. Miðstjórn ASÍ hittist mjög oft og þar er stefnan ákvörðuð, ekki á eldhúsborði forseta sambandsins. Ráðherrar og bakhjarlar þeirra eru að lýsa eigin vinnubrögðum, þeim völdum sem þeir hafa hrifsað til sín og gert Alþingi nánast óvirkt.

 

Hér má minna á útspil ríkisstjórnar Jóhönnu þegar hún tilkynnti þá ákvörðun að til stæði að taka 238 milljarða út úr lífeyrissjóðum landsmanna og nýta þá til þess að greiða niður skuldir landsmanna og forseti ASÍ var kallaður á fund ríkisstjórnarinnar til þess að ganga frá þessum samning. Miðstjórn ASÍ kom þá saman og sendi Jóhönnu þau skilaboð að þetta væri brot á ákvæðum stjórnarskrárinnar og gengi einfaldlega ekki upp, en miðstjórn ASÍ sagðist vera samþykkt því að tekið yrði á vanda heimilanna en það yrði að gera með samfélagslegum aðgerðum og beina þeim fjármunum til þeirra sem á þyrftu að halda.

 

Þegar Jóhann kynnti þessar tillögur sínar höfðu stórir hópar sjóðsfélaga samband við sinn lífeyrisjóð og tilkynntu að ef af þessu yrði höfðað mál gegn stjórnum og starfsmönnum lífeyrissjóðanna. Forseta ASÍ var gert að kynna þessa niðurstöðu og hvað gerðist, enn ein lúaleg viðbrögð stjórnmálamanna. Næstu vikurnar hljómaði það í fjölmiðlum að forseti ASÍ væri andstæður heimilum þessa lands þar sem hann hefði ekki viljað skrifa undir samning Jóhönnu og Steingríms. Margir fóru á vettvang og bentu stjórnmálamönnum að forseti hefði einfaldlega ekkert með þetta mál að gera, það gerðu stjórnarskráin og gildandi lög Alþingis Íslands. Þessir 236 milljarðar áttu eftir að koma við sögu síðar í kosningabaráttu Framsóknarmanna, en áttu þá að koma frá erlendum hrægammasjóðum.

 

Í sambandi við vinnubrögð ráðandi afla hér á landi má einnig minna þegar forsvarsmenn atvinnulífsins settu fram á þar-síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins gagnmerka framtíðarsýn ásamt punktum um samskipti við önnur lönd. Þessu var hent út í horn án umræðu og hlustað frekar á ræðu fyrrverandi formanns og þáverandi Seðlabankastjóra. Þar varð inntak umræðu landsfundarins sök annarra hvernig mál hefði klúðrast vegna pólitískra ofsókna almennings

 

Afleiðing þessarar stefnu opinberaðist í Hruninu og Íslenskur almenningur er að átta sig á þessari stöðu sættir sig ekki við þann ójöfnuð sem hér ríkir og hafnar því að samfélaginu verði splundrað til þess að verja hagsmuni fárra. Í nýlegri könnun kom fram að um 85% ungs fólks sér ekki framtíð sína á óbreyttu Íslandi.

 

Stjórnlagaráð kom inn með ferskan vind inn í íslensk stjórnmál, gömlu stjórnmálaflokkarnir óttast það og börðust hatrammlega gegn innsetningu nýrrar stjórnarskrár. Þar var valið fólk utan flokka og almenningur setti til hliðar tilskipanir stjórnmálaflokkanna um val á fulltrúum á Stjórnlagaþing.

 

Minna má á endurteknar fullyrðingar núverandi ráðherra um að þeim hefðu í síðustu kosningum tekist að koma í veg fyrir að gerð yrði grundvallarbreyting á íslensku samfélagi. Þetta er hárrétt, 67% kjósenda samþykkti breytingar á Stjórnarskránni en valdaklíkunni tókst með margskonar ógeðfelldum aðgerðum að koma því þannig fyrir að vilji þjóðarinnar var hunsaður. Fyrsta verk núverandi ríkisstjórnar var að koma í veg fyrir að tekjum af auðlindum þjóðarinnar yrði skilað inn í samfélagið

 

Lykillinn að endurreisninni er að gengist verði við ábyrgð á mistökum, þannig að hægt sé að endurbyggja nýtt samfélag. Menn verða að hafa dug og getu til þess að horfast í augu við eigin mistök. Undirrót þess hversu illa gengur að koma í veg fyrir að Ísland haldi áfram að dragast aftur úr jákvæðir þróun hinna Norðurlandanna er pólitísk spilling. Ísland er ríkt af auðlindum og þar af leiðandi er herfang ráðandi stjórnarflokks mikið. Foringjarnir þeirra sköffuðu vel og með því að deila út herfanginu til þeirra sem sýndi flokkshollustu tryggðu þeir um leið stöðu sína. Þeir sem ekki fylgdu foringjanum fengu ekkert.

 

Þetta birtist okkur svo vel þegar í ofsafengnum viðbrögðum þeirra valdablokka sem hér hafa verið við völd nánast frá stofnun lýðveldisins þegar ríkisstjórn Jóhönnu settist í valdastólana. „Skilið þið aftur lyklunum okkar“ var hrópað í fundarsölum Valhallar.

 

Og nú er unnið að því að koma Íslandi aftur í sömu stöðuna og hún var fyrir áratug.

 

Og lokin úr stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar:

 

„Ríkisstjórnin mun leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið.“

 

 

Flokkun : Pistlar
1,233