trusted online casino malaysia
Jón Daníelsson 27/04/2015

Skattlausir skólakrakkar: Hneyksli aldarinnar

fjarlagafrumvarp2015Það er alþekkt að tölfræði má auðveldlega beita til að fá hentuga niðurstöðu. Og meira að segja getur arfavitlaus niðurstaða verið „fræðilega“ rétt. Þannig gæti t.d. verið vafasamt að hætta sér út í rökræður um þá tölfræðilegu niðurstöðu að manni sem stendur öðrum fæti í frystikistu, en hinum á heitri eldavélarhellu, líði „að meðaltali“ ágætlega.

Nú hefur tölfræðin leitt í ljós að 18% íslenskra „fjölskyldna“ greiði engan skatt. Morgunblaðið sló þessu upp á forsíðu í morgun. Sennilega líta Moggamenn á þetta sem hneyksli aldarinnar.

En hvaða fólk skyldi þetta vera? Hvaða Íslendingar eru svo tekjulágir að þeir borga alls engan skatt? Svarið er í rauninni ekki flókið.

Þetta eru að uppistöðu skólakrakkar. Menntaskólanemar og háskólanemar, sem í mesta lagi hafa einhverjar sumartekjur, en lifa að öðru leyti ýmist í foreldrahúsum eða á námslánum. Hugsanlega koma fleiri við sögu, t.d. einhverjir, sem eru á framfæri sveitarfélaganna.

Þetta er því miður ekki útskýrt í greinarstúfnum í Tíund (sem er heimild þessarar merkilegu fyrirsagnar) og það má kalla klaufaskap hjá höfundinum. Hann tiltekur þó skilgreiningu Ríkisskattstjóraembættisins á „fjölskyldu“. Hún er svona:

Það er rétt að taka fram að hér eru fjölskyldur skilgreindar sem allir þeir sem skila eignasíðu með skattframtali. Allir sem verða 16 ára á árinu og skila skattframtali eru sjálfstæðir skattaðilar og teljast því vera sjálfstæð fjölskylda. Hjón með tvo unglinga á heimilinu teljast í þessum skilningi vera þrjár sjálfstæðar fjölskyldur.

Kannski ekki alveg sú skilgreining á „fjölskyldu“ sem við eigum að venjast. En svona langt þarf sem sagt að lesa, vilji maður átta sig á því um hvað málið snýst.

Að því er fram kemur í Tíund skilgreinir RSK fjölskyldur í landinu alls um 185 þúsund. 18% af þeim fjölda eru ríflega 33 þúsund. Það samsvarar gróflega tæplega sjö árgöngum þess fólks sem nú er kringum tvítugt og því eðlilega enn í skóla.

Þar á ofan er það svo auðvitað haugalygi að skólakrakkarnir borgi enga skatta, eins og Stefán Ólafsson rekur ágætlega í Eyjupistli í dag.

Flokkun : Pistlar
1,431