Skapillir ráðherrar
Eftir áralanga dvöl í útlöndum vakti það eftirtekt mína hve íslenskir stjórnmálamenn voru margir hverjir viðskotaillir. Sérstaklega voru þau sem sátu í ríkisstjórn frekar pirruð. Þetta var fyrir 13 árum.
Þau höfðu flest setið lengi á ráðherrastólum og kannski ekki skrýtið að þau væru orðin bæði þreytt og úfin.
Ekkert þeirra sem nú gegnir ráðherraembætti hefur gert það lengur en í rétt rúma sautján mánuði. Þeir ráðherrar sem eitthvað heyrist í eiga það sammerkt með forverum sínum frá 2001 að vera viðskotaillir og pirraðir. Í öðrum ráðherrum heyrist svo lítið að næsta ómögulegt er að segja nokkuð til um hvað þau eru að bardúsa og enn síður hvernig þau eru í skapinu. Það á við um iðnaðar- og viðskiptaráðherrann, félags- og húsnæðisráðherrann og heilbrigðisráðherrann.
Það er út af fyrir sig svolítið kostulegt vegna þess að fáir voru vígreifari í stjórnarandstöðu en t.d. Ragnheiður Elín sem hélt ótal ræður um seinagang í Helguvík svo dæmi sé nefnt. Nú bíðum við enn eftir náttúrupassanum, hægt gengur með að kanna hagkvæmni sæstrengs með rafmagn og engar fréttir aðrar berast úr ráðuneytinu.
Á síðasta kjörtímabili var Eygló Harðardóttir ötull ,,málsvari heimilanna” – eins og komist var að orði. Nú er hún húsnæðisráðherra og hefur ekki enn sett reglugerð við lög um fjárhagsaðstoð vegna skiptakostnaðar, sem gengu í gildi 1. febrúar. Samkvæmt lögunum geta þeir sem komnir eru í slíkt öngstræti að þeir kjósa að fara í gjaldþrot fengið fjárhagsaðstoð fyrir 250.000 kr. skiptakostnaði.
Reglugerðin á m.a. að kveða á um hvernig meta eigi fjárhagstöðu umsækjenda. Aðeins 41 % þeirra sem sótt hafa um hafa hlotið náð hjá Umboðsmanni. 59 % umsækjenda hefur verið hafnað og það án þess að fyrir liggi hvernig meta eigi fjárhagsstöðu þeirra. Ætlar ráðherrann að gera eitthvað í því ? – Svo ekki sé spurt um stærri málin eins og afnám verðtryggingar sem Eygló sannarlega lofaði.
Læknar eru komnir í verkfall í fyrsta skipti í sögunni og lítið heyrist í Kristjáni Þór Júlíussyni. Hann segist hafa samúð með læknum, en konu skilst að hann ráði engu. Hann segist ekki trúa því að uppbygging Landspítala geri rekstur spítalans hagkvæmari. Sú fullyrðing heilbrigðisráðherrans bendir til að hann skilji ekki mun á því að hagræða og auka rekstrarfé til að veita meiri eða betri þjónustu.
Sigurður Ingi allskonarráðherrann, taldi sig aldeilis gera skurk þegar hann sagðist ætla að afnema heilan lagabálk um náttúruvernd. Hann komst að því að ráðherrar þó miklir séu setja hvorki lög né afnema. Lagasetning er verkefni Alþingis, þó mönnum gleymist það á stundum.
Menntamálaráðherrann gefur út Hvítbók, sem lítið stendur í. Síðan geysist hann fram og segir hvernig hann ætlar að gera hlutina. Þeir sem eru 25 ára og vilja fara í nám geta bara greitt fyrir það sjálfir. Framhaldsskólarnir skulu styttir í þrjú ár, þar verða engar undantekningar gerðar. Samt segir í hvítbókinni að markmiðið sé að lækka stúdentsaldurinn. Það er hægt að gera það á ýmsa vegu. Ráðherrann vill ekkert tala um það, hvorki við skólamenn, né aðra.
Gunnar Bragi er þreyttur á vitlausum spurningum um undurfurðuleg byssukaup eða byssugjafir. Nennir ekki að svara slíkum. Utanríkisráðherrann vill að við verðum best í EES bekknum. Best við að innleiða lög og reglugerðir sem Evrópusambandið samþykkir. Hann en vill samt ekki að við höfum nein áhrif þegar þessi lög eru sett. Ég viðurkenni fúslega að sá hugsunarháttur er mér alveg óskiljanlegur.
Til er fólk sem vill ekki trúa því að Sjálfstæðisflokkurinn sé flokkurinn sem hann er. Frá því fólki heyrir kona stundum að formanni flokksins, fjármálaráðherranum, geti nú ekki liðið vel í þessu stjórnarsamstarfi. Ég skil ekki svona tal. Bjarni Benediktsson er formaður Sjálfsæðisflokksins og annar af tveim forystumönnum ríkisstjórnarinnar. Varla væri hann það ef stefnan þóknaðist honum ekki.
Fjárlög og skattastefna eru skýrasta mynd pólitískrar stefnu. Flest erum við sammála um að fjárlög eigi að vera hallalaus. Það eru ýmsar leiðir til að ná því markmiði. Leið Bjarna er að létta álögum af þeim sem betur mega sín og halda áfram niðurskurði í opinberri þjónustu.
Veiðileyfagjald var lækkað, auðlegðarskattur ekki endurnýjaður svo ekki sé minnst á ruglið með virðisaukaskatt á gistingu. Á þriðja tug milljarða hverfa úr ríkiskassanum með þessum aðgerðum. Þess í stað þarf fólk að greiða meira úr eigin vasa. Komugjöld sjúklinga eru hækkuð, hjálpartæki sjúklinga eru hækkuð, styrkir til enduhæfingar krabbameinssjúkra og geðfatlaðra á heilsuhælinu í Hveragerði eru afnumdir. Bara til að nefna nokkur dæmi.
Hækka á virðisaukaskatt á mat, sem fólk kaupir á hverjum degi og lækka á móti vörugjöld á vörum, sem fólk kaupir á margra ára fresti. Þessi ráðstöfun gagnast auðvitað best þeim sem meira hafa á milli handanna. Ekki má gleyma sykurskattinum, sem á að afnema. Akkúrat á sama tíma og enn berast fregnir af því að lífsstílstengdir sjúkdómar – þar með talin offita og yfirþyngd – eru helsta heilbrigðisógnin í nútímasamfélagi.
Nú er Sigmundur Davíð líka dómsmálaráðherra. Auðvitað kom hann hvorki að byssukaupunum né skrýtnu skýrslunni um mótmælin. Mér finnst samt að yfirmaður lögreglunnar eigi að segja að gerðar verði ráðstafanir til að endemi af þessu tagi endurtaki sig ekki.
Forsætisráðherrann verður alltaf svo pirraður ef orði er vikið að honum að kannski veigra menn sér bara við því að tala við hann. Það má líka vera gott trikk hjá honum til að komast hjá pólitískri umræðu, eins konar loftvarnarbyrgi. Hann er nú samt skipstjórinn í brúnni og ber því ábyrgð á öllu klúðrinu.
- Varist eftirlíkingar - 24/10/2016
- Land ríkra útgerðarmanna og fátækra barna - 07/09/2016
- Um lögreglufræðin og gagnrýni mína - 25/08/2016