trusted online casino malaysia
Karl Th. Birgisson 17/07/2014

Skáld ástarinnar: Enginn maður hefur elskað heitar en hann í samanlagðri íslenskri ljóðagerð

Eftir Guðmund Andra Thorsson

Páll Ólafsson

Páll Ólafsson

[Eg skal kveða um eina þig. Ástarljóð Páls Ólafssonar. Þórarinn Hjartarson tók saman og skrifar skýringartexta. Salka (2008)]

Þessi útgáfa Þórarins Hjartarsonar og Sölku á ástarljóðum Páls Ólafssonar til Ragnhildar Björnsdóttur er merkileg fyrir ýmissa hluta sakir. Til dæmis varð hún metsölubók nú í sumar – og skákaði þar margri morðsögunni. Þetta sýnir okkur að þegar búið er um af alúð og hugkvæmni er hægt að lokka íslenska lesendur til að kaupa ljóðabók. Það sýnir líka að 19. aldar klassíkin lifir góðu lífi með þjóðinni þótt liðið sé á aðra öld.

Sé rétt á haldið. Það er ánægjulegt að sjá 19. aldarskáld loksins losna úr gyllingunni – eða „gullstrandlengjunni“ eins og Megas kallaði skrautbandsútgáfurnar í stofuhillunum í söngnum um Jónas Hallgrímsson. Árum og áratugum saman stóðu íslenskir bókaútgefendur í þeirri meiningu að besta ráðið til að sporna við því að verk gömlu skáldsnillinganna fyrntust og gleymdust væri að gefa þá út í sem skrautlegustum viðhafnarútgáfum. Með hverju árinu jókst gyllingin á bandinu svo að þjóðskáldin urðu æ meiri stofuprýði en hurfu að sama skapi með rókókó-mublunum frá Ingvari og Gylfa. Því eins og við vitum sem séð höfum kennslu- og forskriftarþættina Innlit/Útlit hafa bækur verið gerðar brottrækar úr stofum flestra landsmanna, svo að jafnvel hefur spurst til ágætra bókamanna sem neyðast til að geyma gersemar sínar í kössum í kjöllurum, háaloftum og bílskúrum á meðan auðir veggir þjóna kröfum tímans um minimalískt söguleysi.

Þó að þessari þróun fylgi óneitanlega tómlegri og kuldalegri stofur en ella þá kann líka að vera önnur hlið á þessari þróun: að fólk sé í ríkara mæli farið að kaupa bækur til annarra nota en að gylla menningarlega tilveru sína – sem sé til að lesa þær.

Hvað sem því líður er útgáfan á ástarljóðum Páls Ólafssonar í anda þessarar þróunar. Farin er þveröfug leið við skrautbandsstefnuna: hér er handhæg kilja, rauð kápa með hvítu og grönnu letri, ein fínleg vinjetta, titill. Pappírinn ögn kremaður en það þunnur að sést í gegn letrið á næstu opnu – prjállaust en snoturt. Og skilaboðin skýr: maður sér þessa bók hæglega fyrir sér í herbergi hjá ljóðrænum unglingi, á náttborði foreldranna, í strætó, á salerninu hjá IKEA-bæklingunum…

Því má ekki gleyma að ljóð Páls hafa hlotið góða kynningu á undanförnum árum hjá Þórarni Hjartarsyni sem gerði um árið afbragðs góða plötu með lögum við ljóð Páls, Söngur riddarans, þar sem hann söng með Ragnheiði Ólafsdóttur lög eftir Hróðmar Inga og fleiri við hin geysi sönghæfu ljóð Páls. En hitt fer samt ekki á milli mála að Páll er um margt lífvænlegra skáld en ýmis önnur stórskáld 19. aldarinnar – sem var öld ljóðsins í íslenskri bókmenntasögu. Þannig samræmast ljóð Páls eflaust um margt betur fagurfræði nútímans en til dæmis obbinn af ljóðagerð séra Matthíasar sem lét sér sæma að fara um Pál lítilsvirðingarorðum í bréfi til Hannesar Hafstein eins og kemur fram í formála Þórarins.

Á meðan við þurfum að setja okkur í nokkrar stellingar og sjá í gegnum fingur við eitt og annað þegar við lesum ljóð Matthíasar Jochumssonar þá útheimtir kveðskapur Páls ekkert slíkt. Hann er hraður og léttfleygur, hnyttinn og andríkur. Hann er ævinlega eins nálægt mæltu máli og unnt er – og var meðvituð stefna hjá honum eins og Þórarinn sýnir ágætlega fram á – og treystir á tilfinninguna sem ætlað er að miðla og ljóst myndmálið. Hann er andstæðan við Matthías sem alltaf er einhvern veginn að reyna að magna sig upp í einhvern mikilfengleik sem á það til að verða hjákátlegur.

Sjálfur gerði Páll ekki mikið með ljóð sín og virðist einkum hafa samið þau handa ástmeyju sinni og öðrum til ununar. Samtímamenn hans virðast almennt hafa kunnað að meta bragsnilld hans og lipurð í meðferð tungunnar; Einar H. Kvaran sagði til dæmis að hann hafi „sjálfsagt [verið] hagorðasti maðurinn sem nokkru sinni hefur verið hér á landi“ og ýmsir aðrir vitnisburðir eru til um það álit sem hann naut hjá öðrum skáldum, einkum undir lok ævinnar – en þótt menn bæru lof á fimi skáldsins og hnyttni kvörtuðu þeir um leið yfir yrkisefnunum. Gröndal sagði þau „hvorki stórkostleg né víðtæk“ og bróðir Páls, Jón Ólafsson ritstjóri og fyrsti íslenski alvörublaðamaðurinn sagði hann ekki hafa „valið sér stórfengleg yrkisefni“.

Yrkisefnin voru með öðrum orðum ekki verðug að mati sumra samtíðarmanna. Og hver voru þau? Hann eftirlét öðrum hnattasundin, Guð og grísku goðafræðina – og geimvísindi á borð við Þjóðsöng Matthíasar væru óhugsandi hjá Páli – en orti í staðinn um hestana sína og strákana sína og brennivínið. En fyrst og fremst orti hann um ástina.

Páll Ólafsson er hið eina sanna skáld ástarinnar í íslenskum bókmenntum. Enginn maður hefur elskað heitar en hann í samanlagðri íslenskri ljóðagerð. Í því á hann engan sinn líka, hvorki hvað varðar fjölda ljóðanna, hugkvæmni í því að sýna þessa miklu ást í sífellt nýju og frumlegu ljósi – því alltaf var þetta sama konan – og síðast en ekki síst, einlægni og tilfinningahita.

Og engin músa jafnast á við Ragnhildi Björnsdóttur því að hún er ekki fjarlæg hugsýn eða rómantískur heilaspuni til að koma sér í gott stuð, eins og vildi henda hjá öðrum skáldum, heldur raunveruleg kona sem bíður eftir manninum sínum í sextán ár. Ljóðin sín yrkir Páll handa henni fremur en handa sjálfum sér eins og vildi líka henda sum skáld; hann yrkir þau til að fá sín skáldalaun, faðmlög og kossa og önnur ástarhót eða til að tjá raunverulegt hugarvíl þegar hún er fjarri – og fögnuð þegar hún er nærri.

Þessi bók er ástarsaga (19.) aldarinnar. Og sú ástarsaga er rakin skilmerkilega af Þórarni Hjartarsyni í þessari bók. Hann hefur brugðið á það ráð að skipta ástarljóðum Páls í fjórar syrpur, eftir því hvenær ort er, og fylgir hverri syrpu úr hlaði með því að rekja hvar komið er sögunni af þeim Ragnhildi og Páli, eftir að hafa ritað greinargóðan inngang þar sem hann gerir mjög vel grein fyrir manninum, bóndanum og skáldinu Páli. Fyrir vikið verður lestrarnautnin hér epísk; við erum ekki aðeins að lesa hér stök ljóð á stangli – þó að við getum það auðvitað sem hægast – heldur erum við jafnframt að lesa sögu; epísk vídd bætist við ljóðin, sem fyrir voru bæði ljóðræn og tilfinningarík.

Okkur hættir til að gleyma því að hér er mestanpart ort um forboðnar ástir, þetta er ást í meinum. Þegar Páll var 29 ára gekk hann að eiga ríka ekkju, Þórunni Pálsdóttur sem sjálf var 45 ára, þriggja barna móðir – en áður hafði Páll verið ráðsmaður hjá henni. Árið 1864 fluttust þau að Eyjólfsstöðum í tvíbýli við Björn Skúlason, en með þeim Páli og Birni var mikil og innileg vinátta og hafa naumast verið ortar innilegri vinahyllingar en Páll orti til Björns vinar síns. Ragnhildur dóttir Björns var þá 21 árs og takast ástir með þeim Páli. Árið 1865 deyr Björn faðir Ragnhildar og ári síðar flytja þau Páll og Þórunn á Hallfreðarstaði en Ragnhildur er send suður til Reykjavíkur, væntanlega til að stía elskendunum í sundur og í þeirri von að hún hitti annan mann. Hún kemur aftur austur eftir fjögurra ára vist fyrir sunnan, án þess að ferðin hafi borið tilætlaðan árangur. Og enn mega elskendurnir bíða – allt til ársins 1880, að Þórunn lést, 68 ára að aldri. Þá máttu þau Ragnhildur og Páll loksins eigast, þegar hann var 53 ára en hún 37, og til marks um að ástin var ekki farin að kólna milli þeirra er þessi vísa: „Ástin þín er ekki dygð,/ ekki skylda heldur, / hún er ekki heldur tryggð, / hún er bara eldur.“ Þau Páll og Ragnhildur eignuðust fimm börn en einungis tvö komust á legg, en þessi barnadauði hafði með öðru mótlæti mikil áhrif á viðkvæmt sálarlíf Páls sem tók nú að mæðast, en lifði til 1905.

Ragnhildur virðist hafa haldið þessum kveðskap til haga, ritað margt upp sjálf, og eftir hennar dag fór handritið á býsna reyfarakennt flakk sem Þórarinn rekur á skemmtilegan hátt, og komst um síðir til allrar hamingju í hendur manna sem báru skynbragð á þær gersemar sem hér er um að ræða. En það er samt ekki fyrr en nú, árið 2008, að við fáum að kynnast ástarskáldinu Páli Ólafssyni í allri sinni dýrð.

Hafi útgáfan heila þökk. Gaman væri að sjá fleiri útgáfur fylgja á ljóðaperlum fyrri tíma – maður getur séð fyrir sér mansöngva Sigurðar Breiðfjörð, kvæði Þorsteins Erlingssonar og Einar Ben, Ólöfu frá Hlöðum, þulur Theódóru – já og meira að segja ljóð séra Matthíasar…

Guðmndur Andri Thorsson

[September 2008]

1,540