trusted online casino malaysia
Björgvin Valur 11/09/2014

Sæluhúsið

Þessi mynd tengist efni pistilsins ekki mikið.

Þessi mynd tengist efni pistilsins ekki mikið.

Ég heyrði því fleygt í dag að til stæði að rífa Sæluhúsið á Fagradal. Ég fórnaði höndum, reytti hár mitt og skegg og mer stóð ekki á sama.

Sæluhúsið á Fagradal er stofnun. Það er bjargfastur hluti af tilveru allra Austfirðinga og án þess yrðu þeir ekki neitt. Eða allt að því. Íbúar Fjarðabyggðar myndu til dæmis ekki rata í Egilsstaði því hvernig ættu þeir að staðsetja sig ef Sæluhúsið væri ekki þarna á sínum stað? Hvar er ég? Hvar er Sæluhúsið? Er ég að fara uppeftir eða er ég að koma niðureftir? Hvað er upp? Hvað er niður? Hjálp! Mig vantar Sæluhúsið!

Þetta skiptir íbúa Egilsstaða sennilega minna máli því þeir hafa fæstir komið niður á firði og ef þeir fara þangað, þá fara þeir um Öxi og koma niður í Berufjörð og halda þess vegna að allir fjarðabúar séu villimenn.

Sæluhúsið hefur verið þarna svo lengi sem ég man, appelsínugult og fallegt; austfirskara en hreindýrin eða harðfiskurinn frá Sporði. Það markar nokkurnveginn miðjan Fagradal og er eina tilbreytingin í útsýni þegar ekið er eftir veginum sem liggur milli Reyðarfjarðar og Fljótsdalshéraðs. Það er Eiffelturn Austurlands. Jafnvel þótt Hérðasbúar hafi aldrei séð það.

Getum við ekki gert það upp og fundið því nýtt hlutverk? Til dæmis matvöruverslun sem selur líka áfengi og þá gætu bæði þeir sem vilja einkavæða brennivínssölu og hinir sem vilja að aðgengi að áfengi sé vont, hrósað sigri. Löggan gæti svo verið fyrir utan með rafbyssur og plaffað niður þá sem stela úr búðinni eða kaupa áfengi fyrir unglinga. Þar með myndu báðir draumar Vilhjálms Árnasonar rætast og hann gæti hætt á þingi.

Auðvitað er þetta óraunhæft og þess vegna legg ég til að í Sæluhúsinu verði komið fyrir safni tileinkuðu forsætisráðherra vorum og fyrsta þingmanni kjördæmisins sem inniheldur Sæluhúsið á Fagradal. Við innganginn að safninu myndi glaðbeitt rödd ráðherranns koma úr hátalara og segja að það væri ekki nóg með að aðgangur væri ókeypis, heldur fengi hver gestur greiddar fimmhundruð krónur í miðasölunni. Þegar þangað kæmi, yrðu gestirnir rukkaðir um tvö þúsund krónur í aðgangseyri og þegar þeir mótmæltu og vitnuðu til loforða forsætisráðherrans, heyrðist röddin hljómfagra segja: Ég sagði þetta aldrei.  Þið eruð föst í neikvæðri umræðuhefð.

Og aðstoðarmaður hans myndi koma og segja:  Hvers vegna slítið þið orð leiðtogans óskeikula úr samhengi og leggið hann í einelti?  Auk þess sagði hann aldrei það sem hann sagði og hann meinti allt annað þegar hann sagði það.  Og til að komast hingað inn, þurfið þið rafræn skilríki.

Inni á safninu yrðu svo munir og minjar frá ævi forsætisráðherrans til sýnis; fyrst bæri fyrir augu silfurskeiðina sem hann fékk í vöggugjöf, því næst yrði tómur skápur með öllum háskólagráðunum og þegar gestir ýttu á hnapp til að heyra um efndir kosningaloforða ráðherrans, myndi heyrast sturtað niður í gullslegnu salerni.

Undir þessu öllu yrði svo leikið í sífellu hið sívinsæla lag, Ég fer í fríið.

Sæluhúsið á Fagradal myndi svo sannarlega standa undir nafni þá.

Latest posts by Björgvin Valur (see all)
Flokkun : Pistlar
2,199