trusted online casino malaysia
Valgarður Guðjónsson 24/03/2014

Rökleysan um fullveldisafsal

Eitt af því sem truflar mig hvað mest við umræður um stjórnmál og önnur þjóðfélagsmál eru rökleysur.

Þetta getur verið margs konar, beinlínis rangar fullyrðingar, rökvillur og spil á tilfinningasemi.

Ein algengasta bábiljan í umræðunni um aðild Íslands að ESB er að í aðild felist fullveldisafsal. Þessu er (einmitt) gjarnan haldið fram af andstæðingur aðildar.

En þessi fullyrðing stenst ekki skoðun. Á meðan það er í okkar valdi að draga okkur úr ESB þá erum við fullvalda. Þetta er alveg kýrskýrt og tal um allt annað hrein og klár blekking, rökleysa.

Þá má auðvitað benda á að það að taka á okkur skuldbindingar í alþjóðasamningum, sem við gerum af fúsum og frjálsum vilja, felur ekki í sér afsal á fullveldi. Þarna er einfalt að benda á aðild okkar að Sameinuðu Þjóðunum, Barnasáttmála þeirra, Mannréttindasáttmála Evrópu, EES, EFTA, samninga um loftslagsbreytingar, Genfar sáttmálann… þarf nokkuð að nefna fleiri dæmi?

Og ef einhver er enn í vafa… þá ætti að nægja að benda á aðildarríki ESB. Eða er einhver sem heldur því fram að Bretland, Holland, Þýskaland, Frakkland… séu ekki fullvalda ríki? Jú, það má eflaust halda því fram, en þá um leið er hugtakið „fullveldi“ orðið merkingarlaust.

Svona málflutningur virkar kannski á einhverja. En ekki á mig.

Ef þið, sem eruð andstæðingar aðildar Íslands að ESB, viljið vinna mig á ykkar band þá þurfið þið að vera málefnaleg og koma með rök sem standast skoðun.

Ef þið haldið áfram að spila á rökleysur og rangfærslur þá hallast ég æ meira að því að þið hafið vondan og óverjandi málstað.

PS. Þetta er svo samhljóða svipuðum pistli sem ég hef birt áður…

Flokkun : Pistlar
1,398