trusted online casino malaysia
Guðmundur Gunnarsson 24/04/2014

Raflínur og náttúruvernd

Hún er harla einkennileg uppstilling forseta bæjarstjórnarinnar í Fjarðabyggð, Jens Garðars Helgasonar, sem fullyrðir að rafmagnslína yfir Sprengisand sé lífsnauðsynleg fyrir Austfirðinga. Annars sé yfirvofandi reglubundinn raforkuskortur og það sé allt að kenna Björk og hinu lattéfólkinu í 101 Rvík.

 

Alþekkt er að það eru um 200 megawött ónotuð í raforkukerfinu og mestur hluti af þeirri orku er einmitt í Kárahnjúkum. Það er nefnilega dreifikerfið fyrir austan sem flytur ekki nægilega orku um svæðið.

 

Með því að nýta betur umframorku þarf að auka flutningsgetu núverandi dreifikerfis, það samsvarar því augljóslega að við getum sparað byggingu sem svarar tveggja Búðarhálsvirkjana.

 

Það verður annað hvort gert með því að endurbyggja hringlínuna sem liggur með ströndum landsins eða leggja línu yfir Sprengisand frá virkjununum á Tungnár og Þjórsársvæðinu og styrkja línukerfið á milli Blönduvirkjunar, Kröfluvirkjunar og væntanlegra virkjana á því svæði og svo Kárahnjúkavirkjun. Viltu stór stálmöstur meðfram suðurströndinni og austur um?

 

Þetta er nauðsynlegt byrjunarskref sama hvaða kost við skoðum. Ef byggja á orkufrekan iðnað á Húsavík. Það er einnig nauðsynlegt eigi að selja orku til nágrannalanda okkar, að hafa flutningskerfi til þess að safna saman á einn stað umframorku í landinu.

 

Þetta er einnig nauðsynlegt til þess að tryggja miðnorðurlandi næga orku, eins og bent hefur verið á og nú eru deilur um línunna frá Blöndu austur til Akureyri og svo þarf að halda áfram með þá línu. Það þarf að tengja virkjanirnar á Reykjanesinu við orkuveitukerfið svo það sé framkvæmanlegt að nýta umframorkuna og miðla henni um landið.

 

Þessar framkvæmdir eru nauðsynlegar ef við ætlum að tryggja atvinnuástandið, jafnvel þó svo við förum ekki í orkufreka iðnaðarframleiðslu umfram það sem þegar er búið að samþykkja.

 

Dreifikerfið eins og það er í dag flytur einfaldlega ekki þá orku sem við erum að nota og eins og sagði hér ofar við erum ekki að nýta þá orku sem við erum að framleiða.

 

Umræðan þarf því að snúast um hvernig við ætlum að gera þetta, ekki hvort við ætlum að styrkja dreifikerfið, það er nefnilega ekki mögulegt að víkja sér undan þeim framkvæmdum.

 

Það er gjarnan talað um jarðstrengi eins og þeir séu allsherjar lausn, það er bara ekki rétt. Lagning háspennustrengja með þessa miklu flutningsgetu kallar á töluverðar framkvæmdir. Mikla skurði og steypt göng. Þessir strengir þurfa gríðarlega mikið viðhald. Þetta er ekki eins og einhver framlengingarsnúra milli húsa.

 

Þetta minnir mann á hina harkalegu umræðu gegn vatnsaflsvirkjunum og við ættum að snúa okkur að gufuaflinu það væri svo pent. „Bara sona ein hola oní jörðina og skrúfa svo rafal oná gufurörið.“

 

Hafið þið skoðað Hellisheiðina nýverið? Hvað er eitt lítið vatnslón í fallegu umhverfi samanborið við þau ósköp. Það er einfaldlega búið að rústa öllu svæðinu með holum, pípum og vegum um allt svæðið og upp á fjöllin.

 

Plís ræðum þetta af einhverju viti, bara svona til tilbreytingar.

Flokkun : Pistlar
1,386