trusted online casino malaysia
Pétur Tyrfingsson 25/09/2014

Raddir úr Kleppsholtinu

KleppurNú frétti ég af einhverju fólki sem vill ekki skrýtið fólk í sitt hverfi… mitt hverfi. Eitthvað fólk í snobbhill vill ekki sjá fatlaða á almannafæri nálægt sér. Ég las þetta í Vísi. Nú ætlaði ég mér að þegja í tvö ár og mánuðirnir 24 eru ekki liðnir fyrren núna þann fyrsta… En því miður er ég ekki rólegur fyrr en ég hef sagt mitt.

Í ljóma æskuminninganna er bjart yfir Kleppsholtinu þar sem ég sleit barnsskónum. Alltaf gott veður á sumrin – man ekki eftir öðru. Og snjórinn ekki annað en mjúk ábreiða yfir mannlífi og mannvirkjum. Okkar megin í holtinu leit yfir sundin og stutt niður í Vatnagarða þar sem við lékum okkur gjarnan. Austan Vatnagarðanna var Kleppur – hvíta húsið með geðsjúka fólkinu.

Við krakkarnir ólumst upp með því að skrýtið fólk sem jafnvel talaði við sjálft sig mætti labba um hverfið sér til heilsubótar eða fara í búðir. Ekki hrópa að því fólki né stríða. Og engin ástæða til að hræðast það. Ég man ekki til þess sem krakki að ég hafi nokkru sinni verið hræddur við þetta einkennilega fólk. Þvert á móti. Ég stal Roy-sígarettum öðru hvoru frá Hildi frænku til að gefa gamalli konu sem jafnan gekk um á flókainniskóm og var tannlaus. Mér fannst stubbarnir sem hún tíndi uppaf götunni þar sem leigubílstjórarnir höfðu tæmt öskubakkana langt frá því samboðnir þeirri konu.

Einu sinni fengum við óræka sönnun þess að maður nokkur sem stundum talaði nokkuð hastarlega við sjálfan sig og brosti aldrei væri ekki bara meinlaus heldur góður við börn. Einn pjakkurinn klaufaðist til að festa buxnaskálmina í keðjunni á hjólinu. Datt og lá ósjálfbjarga með hjólfákinn hreyfingarlausan ofaná sér. Algerlega hjálparvana lá hann þarna. Það sem verra var – þetta var þungt 28 tommu hjól bróður hans. Geggjaði kallinn sem skammaði stundum sjálfan sig hljóp til og bjargaði barninu úr klípunni og talaði hughreystandi meðan hann vann gustukaverkið. Fengu drengir þá óræka sönnun fullyrðinga móður minnar í fyrirlestrum hennar um meinleysi geðsjúklinganna og ástæðulausan ótta.

Ég hef alltaf verið þakklátur fyrir að hafa alist upp í Kleppsholtinu á blómatíma þess – þegar allra mesta baslið var búið, þetta var enn sveit en samt ekki og allt fullorðna fólkið tók ábyrgð á að siða og aga öll börnin sama hver átti þau. Í þessu uppeldi fylgdi veganestið að fólk gæti verið skrýtið og komið manni undarlega fyrir sjónir vegna þess að það væri eitthvað andlega veikt. Og veikt fólk á ekki að vera fyrir neinum og hefur ekki unnið á neinn hátt til þess að vera burtrekið úr samfélaginu.

Í Kleppsholtinu var líka glæsilegasta elliheimili landsins. Hrafnista – dvalarheimil aldraðra sjómanna. Í fyrsta skipti sem ég fór í bíó var í matsal Hrafnistu og hét það þá Laugarásbíó. Þegar ég bar út Alþýðublaðið voru tveir áskrifendur á elliheimilinu. Svo alla daga vikunnar fékk ég minn skammt af blíðlyndi og kóngabrjóstsykri.

Ekki nóg með að Kleppsholtið væri hverfi verkalýðs og iðnaðarmanna, gamalmenna og geðsjúklinga – þá voru líka byggðar þar „bæjarblokkir“. Þetta voru íbúðir fyrir annarsflokks fólkið. Ég man að það var erfiðara að sættast við þessar blokkir og krakkana þar heldur en skrýtna fólkið sem var gamalt eða geðsjúkt. Ég held það hafi helst verið vegna þess að sum börnin höfðu verið brennimerkt annars staðar og voru sum soldið árásargjörn. En þetta varð aldrei að neinni styrjöld. Og einhvern veginn fjaraði út. Þau voru alveg einsog við.

Nú hefur skríllinn numið land í hverfinu mínu. Þetta fólk veit ekki einu sinni hvar það býr. Það býr „uppí holti“ sem það hét. Þar var paradís barnanna inní hringnum sem Austurbrún og Vesturbrún búa til. Þar var ekkert hús en byggðir tveir turnar þegar ég var strákur nyrst í hringnum – öllum að ósekju og þótti manni þetta glæsileg bæjarprýði. Eftir langa bílferð úr sveit og aftur í bæinn var fátt gleðilegra barnsauganu en sjá ljósið í turnunum síðsumars af Kjalarnesinu. Já við erum alveg að verða komin heim. „Þarna eru blessaðar tólfhæða-blokkirnar-mínar“ sagði drengurinn með loksins-loksins í röddinni.

Holtið var leiksvæði okkar krakkanna þar sem byggð voru hús, búnir til hellar, skipulagðir heilu bæirnir og sveitirnar og ekið um á alls konar trukkum. Þar áttu menn í orrustum í fullum herklæðum með sverð og málaða skildi litríka. Ég var alltaf með flottustu skildina því pabbi var smiður og bræður mínir lásu Prins Valiant uppúr blöðum áður en hann var þýddur og kunnu að fara með verkfæri.

Á þessum reit átti aldrei að byggja í upphafi og við mundum aldrei gera það án mótmæla í dag. Þarna hefði átt að vera fallegur garður með náttúrulegum gróðri, göngustígum, reitum fyrir barnaleiki og áningarstöðum fyrir gamalmenni, geðsjúklinga og annað alvörufólk. En því var ekki að heilsa. Vesturbæjaríhaldið eyðilagði þetta rétt einsog annað landslag í Reykjavík. Þarna var byggt annað snobbhill.

…og svo þykist þetta fólk sem var alla tíð óvelkomið og óverðugt að byggja sér þarna bústað mega hafa eitthvað um það að segja þó skrýtið fólk búi sér heimili í sömu götu. Í hverfi sem á sér þá hefð að vera skjól þeirra sem eru skrýtnir – hvort sem það er vegna aldurs eða andlegra veikinda. Hefð hverfisins lak yfir á vesturbrún ássins einsog allir eiga að vita sem eitthvað vita. Það voru ekki svo lítil læti þegar Kleppur fékk að gjöf glæsilega villu við Laugarásveginn til að hýsa andlega veikt fólk. Reis þá upp alls konar skítapakk. Þær raddir voru kæfðar með skörulegum málflutningi þeirra sem véluðu um málefni geðsjúkra á þeim tíma og þegjandi þungum stuðningi fólksins alls í hverfinu austan og norðan við hið eiginlega snobbhill. Og þarna hefur verið skjól ungs fólks sem á við alvarleg andleg veikindi að stríða – og erum við öll stolt af því sem erum úr þessari sveit að þetta athvarf er einmitt þarna… í okkar sókn.

Fólkið í holtinu sem mótmælir nú áttar sig ekkert á því að það sjálft er framandi aðskotahlutur en skrýtna fólkið sem nú ætlar að búa sér heimili á reitnum þeirra er heimafólk og hefur alltaf verið í Kleppsholtinu.

Hefð Kleppsholtsins er að þar hafa geðsjúklingar, gamalmenni og illa staddir fátæklingar verið fullgildir samfélagsþegnar í bæjarhverfi verkafólks og iðnaðarmanna. Nú er öldin önnur. Skítapakkið og skríllinn rís nú upp og leyfir sér að mótmæla því að Kleppsholtið fóstri fjölfatlað fólk uppí „holti“. Með þeim rökum að eignir þess lækki í verði vegna allskonar fylgja þessa skrýtna fólks og þeirrar „stofnunar“ sem þarna á að rísa… sem er reyndar ekki hærra en ein hæð. Ég vona sannarlega að eignir þessar lækki verulega í verði þannig að óbreytt alþýðufólk velviljað skrýtnu fólki hafi ráð á að kaupa eignirnar. Væri landhreinsun að þetta pakk flytti úr Kleppsholtinu.

Margir sem hafa látið í ljós skoðanir sínar á þessum ófarnaði í Kleppsholtinu halda að þetta snúist um fordóma. Svo er ekki því enginn er að dæma eitt eða neitt fyrirfram án þess að hafa kynnt sér mál. Viðhorf þessa fólks í holtinu byggist ekki á neinni fáfræði – þetta fólk vill einfaldlega ekki búa á meðal þeirra sem eru skrýtnir. Punktur.

Hvað er þetta þá, ef þetta eru ekki „fordómar“? Menningarleysi. Fullkomið menningarleysi og bjálfaháttur sem kemur ekki auga á hið fagra í mannlífinu. Fegurð Kleppsholtsins felst í hinum dásamlegu andstæðum í fullkominni sátt. Sem engin önnur sveit í Reykjavík býr yfir. Þarna bjuggu fulltrúar ríkasta og valdamesta fólksins í landinu í jaðri sóknarinnar þar sem verkafólk og iðnaðarmenn ríktu. Þarna átti heimili alþýðufólk við hlið þeirra sem voru á mörkum samfélagsins vegna félagslegrar ógæfu. Þarna voru geðsjúklingar nágrannar hinna heilbrigðu. Þarna var reist elliheimili í miðju barnahverfinu. Þarna mættust borg og sveit, mannabyggð og ósnortin náttúra… Þeir sem búa í þessu hverfi og setja sig uppá móti að fjölfatlaðir búi sér þar heimili eru einfaldlega menningarsnautt lágkúrufólk sem kannar ekki hefðir og venjur sveitunga sinna til þriggja kynslóða.

Af hverju er þessi andstaða menningarleysi? Íslendingar eiga bara eitt orð yfir það sem forframaðri þjóðir taka tveimur hugtökum með tveimur samsvarandi orðum. Menning stendur bæði fyrir kúltúr og sivilasjón. Kúltúrinn snýst um hið fagra og sivilasjónin um réttinn, reisnina og mannvirðinguna. Hið fagra… fátt hlýjar mér meir um hjartarætur en sjá unga sumarkrakka heilbrigða og fallega láta vel að og styðja önnur fötluð ungmenni. Þau eru hér á stjái í Háaleitishverfinu alla góðviðrisdaga enda hinir skrýtnu einhvers staðar hér í hverfinu, ég veit ekki hvar og kemur það ekki við. En þarna sé ég fegurðina í mannlífinu. Áminnir mig um að hvað sem öðru rugli líður í þessu samfélagi þá hefur unga kynslóðin ekki glatað hæfninni til að gæta náungans, hjálpa og gleðja þá sem eiga erfitt með að bera sig eftir björginni af eigin rammleik.

Og fólkið sem á sér heimili í dýrum húsum í holtinu heima í Kleppsholtinu sem kemur ekki auga á að mannlífið þar verður fallegra ef hinir „fjölfötluðu“ eignast þar heimili einsog gamalmennin, geðsjúklingarnir og ógæfufólkið í bæjarblokkunum… getur bara flutt eitthvað annað.

 

Pétur Tyrfingsson
Latest posts by Pétur Tyrfingsson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,568