trusted online casino malaysia
Karl Th. Birgisson 16/12/2015

Plebbarnir

Ég nota hugtakið aðför ekki af léttúð, en fyrirhuguð lækkun á útvarpsgjaldinu er ekkert annað, eftir allt sem á undan er gengið.Ríkisstjórn B og D

Hefur einhver annars heyrt rökstuðning fyrir þeirri meðferð sem ríkisstjórnarflokkarnir beita nú Ríkisútvarpið? Hver er hin brýna nauðsyn til þess að rýra þennan tekjustofn mikilvægustu menningarstofnunar landsins?

Ég tel mig fylgjast þokkalega vel með, en rökin hef ég ekki heyrt. Og þó.

Einn þingmaður, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, hefur reynt að réttlæta þessa ákvörðun. Röksemdafærsla hennar er þessi: Ríkisútvarpið gerði svo arfavitlausan samning við Vodafone um dreifingu efnis að stjórnendur þess hljóta að bera ábyrgð og gjalda þess. Sá kostnaður má ekki lenda á skattgreiðendum.

Olræt. Þetta er þó eitthvað. Viðleitni. Látum nú vera, að eins og margt annað í Eyþórs-skýrslunni er umfjöllun um þennan samning ákaflega broguð. En gefum okkur að þetta sé rétt hjá Ragnheiði og samningurinn sé skandall.

Þessi samningur var gerður fyrir allmörgum árum og kostnaður við hann hefur legið fyrir lengi. Hann var líka gerður löngu áður en nokkur núverandi yfirmaður Ríkisútvarpsins kom þar til verka – það gildir bæði um stjórnina og ráðna yfirmenn.

Er meintur vondur samningur, sem Páll Magnússon og samstarfsfólk hans gerði, röksemd fyrir því að Magnús Geir Þórðarson þurfi nú að skera enn meira niður í rekstri Ríkisútvarpsins?

Magnús Geir og samstarfsmenn hans hafa fátt annað gert en að skera niður síðan þeir tóku til starfa. Margar þær ráðstafanir lýsa miklu hugmyndaflugi og hugkvæmni, og hafa orðið til þess að koma skipinu á réttan kjöl, en því miður stórsér líka á dagskránni eins og blasir við á hverjum degi, einkum í sjónvarpinu og á Rás eitt.

Á semsagt að refsa nýja útvarpsstjóranum, starfsfólkinu, áhorfendum og hlustendum fyrir ákvörðun sem var tekin fyrir mörgum árum?

Ragnheiður Ríkharðsdóttir er skynsamari en svo, að telja þetta boðlegan málflutning. En hún fær prik fyrir viðleitnina.

Hvað þá? Hvaða nauðsyn rekur til þess að grafa ennú frekar undan Ríkisútvarpinu, á meðan skattar eru lækkaðir á hina efnamestu og útgerðina? Ég er hræddur um að hvatirnar séu ómerkilegri en svo, að hollt sé fyrir viðkvæma að rekja þær.

Sjálfstæðisflokkurinn

Allt frá því að Davíð Oddsson og Hannes Hólmsteinn breyttu Sjálfstæðisflokknum úr breiðri kirkju þjóðlegs íhaldsflokks í þröngan frjálshyggjuflokk hefur flokkurinn viljað skemma Ríkisútvarpið. Þetta var ekki mjög áberandi á meðan þeir höfðu þar öll ráð í hendi sér, Gunnlaugur Sævar var formaður útvarpsráðs, Markús Örn útvarpsstjóri, Hannes fékk að gera þættina sína svo að borgin hló, að ógleymdum Hrafni Gunnlaugssyni, sem var þá enn innundir hjá litlu klíkunni.

En svo misstu þeir tökin og eftir situr flokkur með kredduhugmyndafræði, sem hann kann þó lítið á. Það sýnir sig í endurteknum tillögum á landsfundum um að Ríkisútvarpið skuli ýmist lagt niður eða selt.

Það er algerlega óhugsaður málflutningur sem stenzt ekki minnstu skoðun, en hann er í samræmi við frjálshyggjunamöntruna um að ríkisrekstur sé vondur og einkarekstur sé góður. Sama hvað.

Við bætist svo, að forysta flokksins og þingmenn virðast vera – já, ég ætla að nota svo sterk orð – kúltúrlausir plebbar, sem hafa ekki lágmarksskilning á sögu og menningu þjóðar sinnar. Á þessu eru fallegar undantekningar, en þær eru fáar og greinilega áhrifalitlar.

Eða getum við ímyndað okkur að Gunnar Thoroddsen, Geir Hallgrímsson, Bjarni Benediktsson eldri eða Jóhann Hafstein hefðu staðið fyrir viðlíka aðgerðum gegn Ríkisútvarpinu?

Sumir eru ekki bara menningarsnauðir plebbar sem fylgja sjálfkrafa frjálshyggjukreddu án nokkurrar hugsunar. Í sumum tilvikum bætast við svo sterkir prívathagsmunir að viðkomandi ættu að teljast algerlega vanhæfir til að fjalla um málefni Ríkisútvarpsins (halló, Elín Hirst).

Þetta er stutta (og vitaskuld nokkuð einfaldaða) lýsingin á afstöðu Sjálfstæðisflokksins til Ríkisútvarpsins.

Hvernig skyldi nú til dæmis Matthíasi Johannessen líka við sinn gamla flokk?

Framsókn

Hér eins og í mörgum öðrum málum knýja mun frumstæðari hvatir Framsóknarflokkinn. Í þessu tilviki hefndarhugur.

Við höfum fylgzt með því í forundran síðustu árin, hvernig forystufólk í flokknum hefur ítrekað hótað Ríkisútvarpinu vegna þess að því líkaði ekki fréttaflutningur þess. Versta dæmið er náttúrlega Vigdís Hauksdóttir, en þetta hefur líka heyrzt frá ráðherrum flokksins þótt þeir tali ekki jafngrímulaust um hefndina. Þeir kunna betur að dylja fantaskapinn, en þó verður ekki komizt hjá því að vitna í Sigrúnu Magnúsdóttur:

„Nei, nú nennum við ekki lengur að styðja Ríkisútvarpið.“

Hvers vegna lætur Framsóknarflokkurinn svona? Jú, í Ríkisútvarpinu er ekki fjallað nógu vel um Framsóknarflokkinn. Og í Ríkisútvarpinu er ekki talað nógu illa um Evrópusambandið.

Hvorugt stenzt nokkra skoðun, eins og rakið hefur verið í rannsóknum, en það skiptir engu máli. Hinn nýi Framsóknarflokkur hægri plebbanna upplifir Ríkisútvarpið svona. Hann býr ekki í sama heimi og aðrir.

Flokkurinn, sem ætti sögu sinnar og uppruna vegna að vera öflugasti bakhjarl mikilvægustu þjóðmenningarstofnunar landsins, hann hefur bitið í sig að Ríkisútvarpið sé á móti honum og þess vegna verði hann að hefna sín. Það þurfi að refsa Ríkisútvarpinu fyrir óheppilegan fréttaflutning og umfjöllun.

Verst er þó líklega, að þeim finnst þetta sjálfsagt. Þau sjá ekkert athugavert við það, að stjórnmálamenn noti völd sín til að refsa fjölmiðlum. Það er svosem í stíl Davíðs Oddssonar, en hvað hefðu Steingrímur og Eysteinn sagt?

Eða Villi á Brekku?

Yfirplebbinn, Vigdís Hauksdóttir, er stolt af verkum sínum. Við getum séð hana hróðuga í ræðustól á fundi hjá Framsóknarflokknum: „Sjáiði bara mig. Ég fékk völd og misnotaði þau við fyrsta tækifæri sem gafst.“

Næstur í pontu er Guðni Ágústsson, sem telur þessa framkomu enn eina sönnun þess að Vigdís Hauksdóttir sé mikill skörungur.

Aðrir gætu talið framkomu Framsóknarflokksins enn eina sönnun þess, að þeir sem kunna ekki að fara með völd ættu ekki að hafa þau.

———-

Ég fæ ekki varizt þeirri hugsun, að manntegundin sem veitir ríkisstjórnarflokkunum forystu sé einmitt sú sem Dagur Sigurðarson hafði í huga þegar hann kom sér upp lífsmottói: „Gott á pakkið.“

1,397