trusted online casino malaysia
Jón Daníelsson 15/06/2016

Ósvífin samlíking

Sigurður EinarssonSigurður Einarsson fyrrum stjórnarformaður Kaupþings líkir meðferðinni á sér og fleiri sakborningum í hrunmálum við framkomu lögreglu og dómsvalds í Guðmundar- og Geirfinnsmálum fyrir fjórum áratugum. Það er erfitt að finna fáránlegri samlíkingu en einmitt þessa.

Hvorki Sigurður né aðrir, sem dæmdir voru í kjölfar hrunsins sættu stöðugri einangrunarvist í heilsuspillandi fangelsi árum saman. Þeir voru heldur ekki yfirheyrðir jafnt að nóttu sem degi, ýmist af lögreglumönnum eða fangavörðum, án þess að nokkuð væri skráð, og neitað um að hafa lögmenn sína viðstadda.

Þvert á móti hafði Sigurður Einarsson einhverja færustu lögmenn landsins á sínum snærum og svipað gilti um aðra sem dæmdir hafa verið vegna hrunsins. Að samanlögðu má nokkuð hiklaust reikna með að lögfræðikostnaður vegna málsvarnar hafi verið jafnvel margfalt meiri en það fé sem sérstakur saksóknari hafði úr að spila.

Ástæður þess hve skelfilega óhugnanleg niðurstaða Guðmundar- og Geirfinnsmálanna varð á sínum tíma voru nokkuð margar. Ein hinna veigameiri var þó sú, að sakborningar höfðu afar takmarkaðan aðgang að lögmönnum sínum og lögmönnum var jafnvel bannað að tala fangana langtímum saman. Það var meira að segja dregið að skipa einum þeirra réttargæslumann þangað til hann var búinn að játa. Sakborningarnir voru algerlega á valdi kvalara sinna, rannsóknarlögreglumanna, dómfulltrúa og fangavarða.

Íslenskir bankamenn og stórfjárfestar spiluðu djarft á  árunum fyrir hrun og töpuðu. Þeir settu bankana og mörg stórfyrirtæki á hausinn með skelfilegum afleiðingum. Íslenskur almenningur þurfti að taka á sig þungar byrðar vegna spilagleði þessara manna. Fjöldi fólks missti vinnuna. Fjöldi fólks missti húsnæðið. Það er hins vegar ekki að sjá að þeir standi sjálfir eignalausir eftir.

Strax í upphafi var vandséð að þessir menn hlytu ekki að bera a.m.k. einhverja siðferðilega ábyrgð á því hvernig fór. Hitt var framan af nokkuð óvíst, hvort þeir hefðu beinlínis gengið svo langt að brjóta lög. Það hafa þó í mörgum tilvikum orðið niðurstöður dómstóla. En enginn hefur gengist við því að bera nokkra ábyrgð, hvorki siðferðilega né lagalega.

Sigurður Einarsson hefur hins vegar geð í sér til að líkja málaferlunum nú við það sem gerðist í Síðumúlafangelsinu fyrir 40 árum. Hann virðist telja sig hafa sætt sambærilegri meðferð og utangarðsmennirnir, sem voru látnir rotna bak við lás og slá árum saman, þvingaðir til að játa og jafnvel beittir líkamlegu ofbeldi.

Hafið mig afsakaðan gott fólk, en svona ótrúlega ósvífin samlíking vekur mér afskaplega takmarkaða samúð.

Flokkun : Efst á baugi, Pistlar
1,310