Orðin sem við notum
Eftir Margréti Pálu Ólafsdóttur
Börn endurspegla uppalendur sína á hreint ótrúlegan hátt fyrstu æviárin. Ég horfði einmitt í ógáti inn um gluggann hjá nokkrum fjölskyldum í haust – vitaskuld án þess að umræddar fjölskyldur vissu af því og tilefnið var aðlögun yngsta barnabarnsins í leikskólanum.
Þessi kríli frá 18 mánaða og upp í tveggja ára aldurinn gripu alla lausamuni innan seilingar og breyttu þeim í snjallsíma. Ein snótin „talaði“ viðstöðulaust í trékubbinn og gekk um gólf af miklum ákafa á meðan en sú næsta lagðist út af á mjúka dýnu og lét fara vel um sig meðan hún lét dæluna ganga – báðar útfarnar í eins konar „símensku“ sem enginn fullorðinn í rýminu skildi enda hreinn óþarfi.
Sú þriðja hrópaði og kallaði í símann og pataði út í loftið með lausu hendinni og sú fjórða potaði ákaflega í skjáinn á gamalli myndavél. Sú fimmta og síðasta sló þær allar út. Hún stóð á gólfinu með fornan síma úr tískusmiðju síðustu aldamóta, hélt honum armslengd frá sér og brosti ákaflega. Svo hreyfði hún úr stað og endurtók athöfnina aftur og aftur með sífellt nýjum líkamsstellingum en sama fullkomna myndabrosinu allan tímann.
Svo fara sömu börn heim til sín og þá fá fjölskyldurnar að horfa inn um glugga leikskólans. Enginn má snerta kvöldverðinn fyrr en barnið er búið að þylja seremóníu leikskólans eða þá að öllum böngsum og dúkkum er raðað upp við vegg og barnið skammar hópinn – alveg eins og það hefur séð kennarann sinn gera um daginn.
Herminám fyrstu æviáranna er stundum afskaplega skemmtilegt en stundum birtumst við hjá barninu okkar þannig að við hrökkvum við. „Er ég virkilega svona ergileg í röddinni þegar ég neita með sömu setningunni og alltaf; ekki núna, ekki núna.“
Allan þennan langa formála má ummynda í eitt orð; fyrirmynd.
Börnin okkar munu nota orðin sem við notum, þau munu verða pirruð og ergileg ef þau skynja þau tilfinningablæbrigði hjá okkur. Þau verða áhyggjufull og döpur ef þau skynja áhyggjur hjá okkur, þau verða streitt og þreytt ef það er ástandið á okkur. Þau munu leyfa sér að kalla vini sína og vinkonur hálfvita ef þau heyra slíkt orðbragð okkar við kvöldfréttirnar og þau munu sparka í næsta barn rétt eins og pabbi sparkaði til heimilishundsins sem pissaði á stofugólfið.
Svo eru börn líka eins og barómet á foreldra sína og skynja minnstu veðrabrigði á augabragði. Þau skilja fullkomlega svip og tón og hafa minna þol gegn slíkum stjórnunarháttum heldur en fullorðnir. Þau munu spyrja í undrun hvort eitthvað sé að og við svörum ósjálfrátt, nei, nei, það er ekkert að – og mamma er ekkert að gráta þótt svo að tárin renni. Börn eru í reynd næmari á okkur en við sjálf.
Horfum í spegil, elsku uppalendur, áður en við látum eftir okkur neikvæða orðanotkun, uppþot og skammir yfir smáræði, pirring og ergelsi og annan slíkan óhollan munað við börnin okkar. Verum heiðarleg og grandskoðum hegðun okkar, öndum svo djúpt og rólega og hugsum hvernig við viljum að börnin okkar endurspegli okkur í framtíðinni.
„Gættu að hugsunum þínum því þær verða orð þín. Gættu að orðum þínum því þau verða athafnir þínar. Gættu að athöfnum þínum því að þær verða vani þinn. Gættu að vana þínum því hann verður gildi þín. Gættu að gildum þínum því þau verða örlög þín.“
Við þessu frægu orð Mahatma Gandhis er því einu að bæta að hugsanir þínar, orð og vani verða líka örlög barnanna þinna.
Margrét Pála Ólafsdóttir, Fréttatíminn, 30. október 2014
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021