trusted online casino malaysia
Davíð Þór Jónsson 21/03/2017

Öld lyginnar

Guðspjall: Jesús svaraði: „Ef Guð væri faðir yðar munduð þér elska mig því að frá Guði er ég út genginn og kominn. Ekki hef ég sent mig sjálfur. Það er hann sem sendi mig. Hví skiljið þér ekki mál mitt? Af því að þér getið ekki hlustað á orð mitt. Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gera það sem faðir yðar girnist. Hann var manndrápari frá upphafi og hefur aldrei þekkt sannleikann því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu því hann er lygari og lyginnar faðir. En af því að ég segi sannleikann trúið þér mér ekki. Hver yðar getur sannað á mig synd? Ef ég segi sannleikann, hví trúið þér mér ekki? Sá sem er af Guði heyrir Guðs orð. Þér heyrið ekki vegna þess að þér eruð ekki af Guði.“ (Jóh 8.42-51)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.

Við mennirnir viljum vita og skilja. Þess vegna fylgjumst við með, skráum niður, skilgreinum og flokkum. Best er ef við getum sett tilveruna eins og hún leggur sig ofan í aðskilin hólf með viðeigandi merkimiða á hverju þeirra. Því miður lætur það oft raunveruleikanum illa að vera hólfaður niður með svo einföldum hætti.Óvættur

Póstmódernismi

Við skiptum sögunni niður í tímabil sem við kennum við þau verkfæri, tækni eða fyrirbæri í menningu og hugsun sem einkenndu þau. Steinöld, járnöld, bronsöld … og síðar endurreisnartímabilið, rómantíska tímabilið og svo framvegis.

Á steinöld gerði enginn sér grein fyrir því að hann væri uppi á steinöld. En  við … við erum okkur mjög meðvituð um að við erum uppi á póstmódernískum tímum.

Eitt megineinkenni póstmódernismans er að sannleikurinn er teygjanlegur, staðreyndir eru túlkunaratriði því merking verður til hjá viðtakandanum. Þekking og sannleikur eru ekki algjör, ekki endanleg, heldur verða þau til í ákveðnu sögulegu, félagslegu og pólitísku samhengi og eru þess vegna afstæð í eðli sínu.

En ekkert stöðvar tímans þunga nið og þessu tímabili mannkynssögunnar mun ljúka og annað taka við. Hvað tekur við af póstmódernismanum?

Ég las um daginn grein þar sem talað er um að eftirstaðreyndatímabilið sé gengið í garð – „post-fact era“ eins og það var kallað. Megineinkenni þess er að staðreyndir skipta ekki máli lengur, þær eru úrelt fyrirbæri sem einhver grunnur að afstöðu eða lífsskoðun. Fólk getur búið til sínar eigin staðreyndir og þær eru jafnréttháar raunverulegum staðreyndum því sannleikurinn er jú afstæður og við lifum öll hvort sem er á einhvern hátt í okkar eigin heimi, okkar eigin sápukúlu sem við höfum blásið utan um líf okkar og handvalið þangað inn það og þá sem við viljum hafa í kringum okkur. Og internetið hjálpar okkur við þetta með algóryþmum sem reikna okkur út og sýna okkur bara það sem þeir sjá fyrir að okkur muni líka – og gildir þá einu hvort það er satt eða logið.

Eftirstaðreyndatímabilið

Og víst er að við höfum séð merki þess í heimsfréttum að við séum uppi á einhverju annarlegu „eftirstaðreyndatímabili“. Ekki bara af því að forseta Bandaríkjanna virðist fyrirmunað að greina staðreyndir frá heilaspuna eða yfirhöfuð að segja satt orð um nokkurn skapaðan hlut. Það er eins og hann trúi því að um leið og hann segi eitthvað sé það orðið sannleikur, hve auðhrekjanlegt sem það er, og því sé nóg fyrir hann að opna munninn og segja hvernig hann vill að heimurinn sé og þá – hókus pókus – verði hann þannig. Og þegar reynt er að reka eitthvað af svæsnasta þvættingnum ofan í hann er svarið gjarnan að margir trúi því nú að svona sé þetta og þar með er bullið í hans huga orðið jafngilt sannleikanum – „hliðstæð staðreynd“ eins og talsmaður hans kallaði það; „alternative fact.“ Orð sem að mínum dómi var snilldarlega vel þýtt yfir á íslensku sem „sannlíki“.

Ástandið er ekki mikið skárra hinum megin Atlantshafsins. Forseti Rússlands þrætti fyrir að Rússar kæmu á nokkurn hátt nálægt kolólöglegri innlimun Krímskagans eða vopnaskakinu í austurhluta Úkraínu á sama tíma og úkraínski herinn var að handtaka rússneska hermenn í stórum stíl í bardögum innan landamæra Úkraínu. Það er semsagt beinlínis hægt að ráðast með her inn í nágrannaríki og þræta fyrir það.

Og í Tyrklandi er forseti sem kallar Hollendinga fasista fyrir að leyfa ekki að þangað sé farið til að reka áróður fyrir því meðal tyrkneskra kjósenda í Hollandi að stjórnarskrá Tyrklands verði breytt á þann veg að Tyrkland verði í allri praktískri merkingu þess orðs einræðisríki. Og ekki bara það. Hollendingar eru líka sekir um kynþáttahyggju að mati Tyrklandsforseta, væntanlega af því að Tyrkir í Hollandi njóta réttinda sem Tyrkjum dettur ekki í hug að leyfa tyrkneskum Kúrdum að njóta þótt þeir séu bornir og barnfæddir í Tyrklandi. Og í sömu viku og forseti Tyrklands, lands sem neitar að gangast við þjóðarmorðum sínum á Armenum fyrir um hundrað árum, kallar Hollendinga nasista höfnuðu Hollendingar flokki nýnasista í þingkosningum.

Lygi er sannleikur

Eftirstaðreyndatímabilið: Sannleikurinn er það sem hentar hverjum og einum. Og þó lygin sé himinhrópandi augljós þá er það skoðanakúgun að umgangast hana ekki eins og hún sé jafnrétthá sannleikanum og hlutdrægni að afhjúpa hana.

Lygin er sannleikur og sannleikurinn er lygi.

Það þarf engan að undra að skáldsaga Georges Orwells, 1984, komi upp í hugann: Stríð er friður. Þrældómur er frelsi. Fáfræði er styrkur.

Við sjáum meira að segja merki þess að „newspeak“ – tungumál fasistastjórnarinnar í þeirri skáldsögu – sé að ryðja sér til rúms í fjölmiðlum. Við heyrum kynþáttahatur og kvenfyrirlitningu kallaða „óhefðbundna orðræðu“. Við heyrum okkar eigin stjórnmálamenn jafnvel kalla grímulausa hatursorðræðu erlendra þjóðarleiðtoga „áhyggjuefni“ eins og ástæðulaust sé að taka dýpra í árinni. Fyrir stuttu var sagt um stjórnmálamann sem nýtur opinbers stuðnings Ku Klux Klan, hefur gert yfirlýstan nýnasista að sínum helsta ráðgjafa, hvatt til ofbeldis gegn minnihlutahópum og hæðst að fötluðum að hann sé „ekki óumdeildur“ í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins.

Normalísering hins óásættanlega er í fullum gangi allt í kringum okkur og hún gengur vel.

Afstæði sannleikans

Jesús Kristur talaði ekki „newspeak“. Og hann var ekki póstmódernisti. Hann talaði tæpitungulaust mannamál og fyrir honum var sannleikurinn klipptur og skorinn. Allir textar dagsins lúta að því. Boðorðin eru skýr. Þar segir ekki: „Þú ættir ekki nema undir kringumstæðum þar sem það er félagslega og menningarlega viðurkennt að …“ Nei, þar segir: „Þú skalt ekki …“ Þar er ekkert óljóst. Rétt er rétt og rangt er rangt. Gott og illt eru skýrar og raunverulegar andstæður, ekki afstæð hugtök í einhverju háloftablaðri. Enginn manipúlerar sannleikann til að vera það sem hentar honum. Hann er ekkert túlkunaratriði. Sannleikurinn er sannleikur og lygin er ekki sannlíki eða hliðstæð staðreynd … hún er lygi.

Jesús sýnir oft á sér geðþekkari og hlýlegri hliðar en hann gerir í guðspjalli dagsins. En hann var sannur maður; sannur Guð sem stakk sér á bólakaf í hið mannlega hlutskipti með öllu sem það inniber, þar með talið allri tilfinningaflóru mannlegrar tilvistar. Jesús grætur og Jesús reiðist. „Manni“ getur jú sárnað – segir máltækið. Öll höfum við átt stundir þar sem okkur hefur þótt meiri ástæða til að hvæsa en mala.

„Hví skiljið þér ekki mál mitt?“ spyr Jesús viðmælendur sína og svarar spurningunni sjáfur: „Af því að þér getið ekki hlustað á orð mitt.“ – Það rúmast ekki innan sápukúlunnar ykkar. Algóryþminn ykkar útilokar ykkur frá því.

Satan sjálfur

Ykkur kann að finnast ég fara eins og köttur í kringum heitan graut að hafa ekki minnst einu orði á fílinn í borðstofunni; orðið í textanum sem hoppar á okkur og kynni jafnvel að yfirskyggja merkingu textans vegna þess hvað það stuðar okkur, hvað það snertir okkur óþægilega. Orðið sem kemur bæði fyrir í pistlinum og guðspjallinu: Djöfullinn / Satan.

„Þeir eru samkunda Satans“ segir í pistlinum og í guðspjallinu hreytir Jesús í viðmælendur sína: „Þér eigið djöfulinn að föður.“

Við ykkur sem eruð að hugsa: „Ætlar maðurinn ekki að minnast einu orði á andskotann?“ vil ég segja: Ég hef ekki talað um annað alla þessa prédikun.

„Hann hefur aldrei þekkt sannleikann því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu því hann er lygari og lyginnar faðir.“ Allt sem ég hef verið að segja persónugerist í Kölska.

Við gætum umorðað þetta: „Hann hefur aldrei þekkt sannleikann því fyrir honum er sannleikurinn afstæður. Þegar hann býr til sínar eigin staðreyndir jafnóðum fer hann að eðli sínu því hann er ófær um að greina mun á réttu og röngu og segir því það sem hentar honum hverju sinni.“

Ef við viljum

Við getum – ef við viljum – talað „newspeak“ þar sem ekkert orð er fyrir Guð og þarafleiðandi er óþarfi að eiga orð yfir andstæðu hans, djöfulinn. Þar sem mannhatur og illska er ekki mannhatur og illska heldur „óhefðbundin orðræða“. Þar sem kvenfyrirlitning og kynþáttahatur gerir menn í versta falli „ekki óumdeilda“. Þar sem sannlíki og hliðstæðar staðreyndir hafa sama tilverurétt og sannleikur og raunverulegar staðreyndir. Og við getum kallað það tímabil mannkynssögunnar „eftirstaðreyndatímabilið“ ef við viljum.

En Jesús Kristur hefði ekki gert það. Hann hefði kallað það sínu rétta nafni: „Öld lyginnar.“

Við getum tekið þátt í þessu. Það væri á flestan hátt þægilegra fyrir okkur.

En við getum ekki bæði tekið þátt í því að innleiða öld lyginnar og talið okkur trú um að við séum kristnar manneskjur, að við séum að leitast við að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífs okkar.

Það er nefnilega ekki Guð sem er faðir lyginnar.

Það er annar.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 19. mars 2017.

Davíð Þór Jónsson
Latest posts by Davíð Þór Jónsson (see all)
Flokkun : Pistlar
2,290