trusted online casino malaysia
Jón Daníelsson 19/03/2015

Ofteknir skattar

SkattbyrðiÁ vinnumarkaði stefnir í harðar deilur og verkföll. Að því er allra lægstu laun varðar, gætu stjórnvöld skorist í leikinn og auðveldað kjarasamninga til muna með því einu að færa skattleysismörk í svipað horf og þau voru fyrir svo sem 15 árum.

Mörgum þykir það nokkuð brött krafa að hækka lægstu laun um 50%, úr 200 í 300 þúsund á mánuði. Þetta eru vissulega háar tölur og ástæða til að skoða aðeins hvað þær merkja.

Frá sjónarhóli þeirra sem greiða launin, er merkingin einföld: Heildarkostnaður við starfsmann, sem hefur 200 þúsund á mánuði, er um 256 þúsund, þegar launatengdu gjöldin eru reiknuð með. Yrði gengið að ýtrustu kröfum verkalýðsfélaganna færi þessi tala upp í 384 þúsund.

Frá sjónarhóli launþegans lítur dæmið allt öðru vísi út. Til viðbótar við föst mánaðarlaun kemur orlof (10,17%), en á móti þarf að greiða 28.500 krónur í tekjuskatt og útsvar. Inn á launareikninginn fara ekki nema 183 þúsund krónur. En það er líka sú tala sem skiptir launþegann máli. (Sé orlofið notað í sumarfrí koma bara 171.000,- kr. inn á reikninginn – en hver hefur efni á því?).

Eftir hækkun launa í 300 þúsund á mánuði, yrðu krónurnar á launareikningnum 249.500, sem þýðir raunlaunahækkun upp á 36%. Ef skattur væri ekki tekinn af svo lágum launum, væri í raun verið að fara fram á innan við 25% launahækkun á þremur árum. Fyrsta boð atvinnurekenda skilst mér að hljóði upp á nærri helming af því. Á þessum grundvelli væri ekki hægt að sjá þarna neitt óbrúanlegt bil.

Þegar núverandi staðgreiðslukerfi skatta var tekið upp fyrir rúmum aldarfjórðungi 1988, voru lægstu launataxtar langt undir skattleysismörkum. Það gilti líka um bæði elli- og örorkulífeyri. Nú þarf þetta lágtekjufólk að borga kringum 15% tekna sinna í skatt. Ástæðan er einföld: Persónuafslátturinn, sú tala sem ákvarðar skattleysismörk, hefur ekki verið hækkaður í neinu samræmi við laun eða bætur.

Persónuafsláttur er nú rétt rúmar 50 þúsund krónur á mánuði. Hefði launaþróun verið fylgt allt frá byrjun, væri persónuafslátturinn kominn í tæpar 93 þúsund krónur og 235 þúsund króna mánaðarlaun væru skattfrjáls.

En er það ekki óheyrilega dýrt að afnema skatta af lægstu töxtum? Það er vissulega ekki ókeypis. Tíu þúsund manns á lægstu töxtum greiða um 3,4 milljarða til ríkis og sveitarfélaga í formi staðgreiðsluskatta. Fjöldatölur eru mér ekki tiltækar, en gróflega má kannski áætla að 50 þúsund manns, fólk á lægstu launum og lífeyrisþegar á strípuðum bótum, greiði alls um 18 milljarða í tekjuskatt og útsvar.

Auðlegðarskattar skiluðu meira en 10 milljörðum á síðasta ári. Veiðigjaldið, sem núverandi stjórn snarlækkaði þegar hún tók við, mætti trúlega hækka dálítið aftur. (Vissulega þyrfti örlitlar breytingar ofar í skattstiganum til að koma í veg fyrir lækkunaráhrif alla leið á toppinn, en það er allt annað mál).

Þetta er sem sagt bara spurning um forgangsröðun. Og að hrifsa 30 þúsund í skatta af svo lágum tekjum, er í rauninni hrein svívirða. Þetta eru gróflega ofteknir skattar.

Auðvitað geri ég ekki ráð fyrir neinum slíkum aðgerðum af hálfu stjórnarinnar sem nú situr. Hægri mönnum virðist þykja sjálfsagt að skattleggja fátækt. Þetta er hins vegar verðugt verkefni fyrir jafnaðarmenn eftir næstu kosningar.

– – –

PS: Myndin sýnir þróun skattbyrði lægstu launataxta 1988-2014. Skattbyrðin var auðvitað einfaldlega núll til 1998, en línan er látin halda sér til að undirstrika hvernig skattkerfið var hugsað á sínum tíma. Þetta línurit birtist upphaflega í Herðurbreiðarpistli í haust.

Flokkun : Pistlar
1,529