trusted online casino malaysia
Jón Daníelsson 15/07/2015

Nú ættum við að lána Grikkjum

greece-oxiÍslensk stjórnvöld ættu nú að bregðast við tafarlaust og tilkynna, að Íslendingar veiti Grikkjum peningalán án skilyrða. Upphæðina mætti t.d. miða við það sem Sameinuðu þjóðirnar ætlast til að ríku löndin veiti árlega í þróunarstoð, sem sagt kringum fjóra milljarða króna eða um 27 milljónir evra. Þeir peningar ættu að vera til í Seðlabankanum.

Slíkir smáaurar skipta Grikki auðvitað engu máli til eða frá, en lánið væri mikilvæg stuðningsyfirlýsing, auk þess sem við gætum fylgt fordæmi Færeyinga og Pólverja, sem lánuðu okkur af fátækt sinni, þegar neyð okkar var stærst.

Kröfur Evruríkjanna á hendur Grikkjum eru fullkomin brjálsemi. Segja má að ætlast sé til að Grikkir dragi úr verstu hungurverkjunum með því að skera sig á háls. Að vísu nokkuð óbrigðul aðferð, en það er önnur saga.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er almennt ekki þekktur fyrir linkind og þegar hann neitar að taka þátt í svo hrottalegum kúgunaraðgerðum, má vel kalla það endanlega sönnun. Grikkir þurfa innspýtingu en ekki niðurskurð. Þeir þurfa bæði einhverja skuldalækkun og 5-10 ára afborganaleysi til að koma atvinnulífinu í gang og auka þannig tekjur ríkissjóðs, áður en þeir geta farið að borga skuldir.

Að vísu skilst mér að Grikkjum sé meinilla við borga skatta og hafi reyndar aldrei gert það nema í mesta hófi. Það vandamál þurfa grísk stjórnvöld að leysa.

En það er einmitt við svona aðstæður, sem einhver þarf að standa upp af rassgatinu og rífa kjaft. Og við Íslendingar erum eiginlega sérfræðingar í því.

Við unnum sigur í fjórum þorskastríðum við Breta út á það rífa kjaft og hóta að segja okkur úr NATÓ. Við neituðum líka að sætta okkur við Icesave, þótt allur heimurinn virtist á móti okkur framan af. Við storkuðum sjálfum Bandaríkjunum með því smygla Bobby Fisher hingað til að bjarga honum frá bandarísku fangelsi.

Okkur tókst að setja heimsmet í viðbragðsflýti, þegar íslensk rústabjörgunarsveit var sú fyrsta, sem mætti á staðinn eftir jarðskjálftann á Haíti árið 2010 – einmitt þegar kreppan svarf sárast að okkur.

Síðast en ekki síst viðurkenndum við sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna áður en nokkurt annað, vestrænt ríki þorði að ögra Rússum með þvílíku framferði. Og Jón Baldvin fór í eigin persónu til Vilníus, tók sér þar stöðu úti á götu og þandi kjaft. Mögulega kom hann þannig í veg fyrir rússneska innrás.

Við kunnum þetta. Þetta er okkar sérgrein í alþjóðasamskiptum. Veitum nú Grikkjum neyðarlán.

Flokkun : Efst á baugi, Pistlar
1,592