Njála er skáldsaga Íslands
Guðmundur Andri Thorsson skrifar
(Hann Hallgrímur Helgason skrifaði nýlega svo skemmtilega færslu á facebook um Njálu að mér datt í hug að birta bara hér í heilu lagi smá kynningu á Njálu sem ég var beðinn um fyrr á þessu ári við opnun Njálusýningar í Borgarleikhúsinu. Ég fór um víðan völl í almennu tali um Njálu, þetta er ekki fræðilegt og ekki farið djúpt ofan í einstök atriði. Þetta er langt, en nú er sumar og sumarið er fyrir langhunda.)
***
Njála er skáldsaga Íslands. Hún fjallar um ástir og örlög, vonir og skipbrot, ofsa og auðmýkt, heilindi og vináttu, girnd, völd og vélráð, misnotkun og þrá – sæmd og skömm. Allt það sem prýða má góða sápuóperu að viðbættum öllum spakmælunum og snjallyrðunum. Þessi saga hefur um aldir höfðað til Íslendinga umfram aðrar sögur, og skyldi engan undra. Fyrir almenningi hefur ljómi hennar ekki síst stafað af því að þar – líkt og í Downton Abbey og slíkum þáttum – fáum við að fylgjast með höfðingjaslekti, þar sem fallega fólkið er fallegra en við og ljóta fólkið ljótara, vitra fólkið vitrara, vonda fólkið verra og góða fólkið betra; persónum sem eru stórar í sniðum en glíma við tilfinningar og aðstæður sem við þekkjum úr okkar lífi, eru sammannlegar eins og það er kallað. Fólki sem er allt öðruvísi en við – og þar með eins og við.
Njála er ómótstæðileg. Hún kallar á túlkun – það er eitthvað í henni sem við verðum að tala um og ræða fram og til baka og helst útkljá: vinátta Njáls og Gunnars, ástir Hallgerðar, samband Njálssona og Höskuldar Hvítanessgoða, tilfinningalíf Marðar Valgarðssonar, kynlíf Hrúts og Unnar, framkomu Bergþóru við Hallgerði, ergibrigslin um Njál og ergibrigsl Njáls um Flosa – og auðvitað: ást Gunnars og Hallgerðar. Endalausar ráðgátur um mannlega breytni og mannleg sambönd.
Rétt eins og Sturlunga að sínu leyti getur Njála gagntekið fólk. Ég átti á yngri árum kunningja sem var mikið efni í fræðimann en varð fyrir þeirri ógæfu að missa um hríð tökin á hugarstarfi sínu. Hann varð þegar þannig háttaði til hjá honum gagntekinn af Njálu og ekki síst gátunni stærstu sem svo margir hafa viljað leysa, sem sé þeirri hver höfundur sögunnar hafi verið; fólki finnst eðlilega að slík listasmíði hljóti að hafa orðið til hjá höfundi eins og við sjáum slíkt fólk fyrir okkur í dag: að persóna sem líkist Auði Övu eða Halldóri Kiljan hafi setið við skrifborð með fjaðurstaf og kálfskinn og mótað þessa miklu smíði. Og þar var þessi kunningi minn engin undantekning, nema hann taldi sig hafa ráðið í það hver þetta muni hafa með því að skoða vandlega gestina í brúðkaupi Gunnars og Hallgerðar og lesa saman stafina í nöfnum þeirra eftir ákveðinni röð sem hann hafði fundið út eftir heilmikið grufl, og kom þá í ljós nafnið Erlendur digri, sem er alls ekki verri tilgáta en hver önnur.
Annar og öllu þekktari könnuður og leitandi að höfundi Njálu var Barði Guðmundsson sem skrifaði heila bók um þessa leit og komst að þeirri niðurstöðu að höfundur Njálu væri Þorvarður Þórarinsson, og verða sjálfsagt ekki margir miklu nær við að sjá það nafn nefnt – Einar Ólafur Sveinsson hafnaði þessari tilgátu en á seinni árum hefur annað nafn verið nefnt – Sturlu Þórðarsonar lögmanns, fyrst af Matthíasi Johannessen skáldi og ritstjóra og svo af Einari Kárasyni rithöfundi sem hefur skrifað vinsælar skáldsögur um atburðina sem lýst er í Sturlungusafninu. Rökin fyrir Sturlu eru sterk en sjálfur hef ég samt tilhneigingu til að sjá fyrir mér sem höfund Njálu nokkra munka sem starfa saman í ritsmiðju í til dæmis Þingeyraklaustri og setja saman þessar sögur samkvæmt eftirspurn um gengna og ljómandi Íslendinga og það samfélag sem hér á landi mótaðist á fyrstu öldum landnáms. Ekki þekkjum við höfunda Downton Abbey. Það finnst mér til dæmis skýra nafnleysi höfundanna, auk þess sem sögurnar miðla innsýn í mannlega breytni og mannlegar ástríður sem vitna um sýn þess sem stendur álengdar og horfir á mannlífið utan frá.
Enn aðrir – og alveg sérstaklega Einar Pálsson, sá merki fræðimaður og hugsuður – telja að Njála sé launsögn þar sem sjá megi, sé vel rýnt, horfnar rætur íslenskrar menningar og að lesa þurfi Njálu með hliðsjón af goðsögnum Kelta og þjóða við Miðjarðarhaf. Kenningar Einars eru enn djarfar og utan meginstraumsins í íslenskum fræðum, að því er ég best veit, en hann skrifar af hugkvæmni og þekkingu. Og hvað sem líður kenningum hans er augljóst að Njála fjallar um átök ólíkra hugmyndakerfa, sem við kennum við kristni og heiðni, og hvernig þau birtast í mannlífinu.
***
Þannig finnur hver og einn lesandi sína Njálu í þessari iðandi þjóðlífssögu sem er um margt öðruvísi en flestar aðrar Íslendingasögur. Mér dugir alveg að þar er lýst mannlegum samböndum sem eiga sér samsvaranir í okkar tíma; þar er rétt eins og í grísku harmleikjunum og verkum Shakespeares lýst mannlegum kenndum sem hefja sig upp yfir rúm og tíma, birtast í ólíkum samfélögum vegna þess að þær eru órjúfanlegur hluti mannlegrar tilveru; í Njálu er lýst sterkum tilfinningum og hvötum sem stýra orðum og gerðum fólks þrátt fyrir að það viti betur og viti að þetta muni leiða til ófarnaðar, en svo sterkar eru þessar tilfinningar og hvatir að það velur að fylgja þeim engu að síður.
Njála fjallar um sæmd og skömm. Hugmyndin um sæmd hefur verið sterk í íslensku samfélagi alla tíð, og endurspeglast til að mynda strax í Hávamálum í erindunum um orðstírinn sem lifir þótt deyi fé og deyi frændur; og enn býr þessi hugsun að baki því háttalagi okkar að skrifa minningargreinar um fólk okkur nákomið og kært, til að tryggja að orðstír viðkomandi – sæmd – lifi. Í fornum íslenskum lögum er níð talið mjög alvarlegt brot – illt umtal sem veldur viðkomandi skömm eða vansæmd – og það eru þung viðurlög við níði, sem enn má sjá leifar af í nútímalagaumhverfi þó að þetta sé vissulega að breytast og ekki sé lengur refsivert eins og áður að tala illa um til dæmis opinbera embættismenn.
Sæmd er lykilhugtak í íslenskri hugsun: hún er sú ára sem leikur um okkur vegna eiginleika okkar og orðspors; og vansæmd er það versta sem talið er geta fallið yfir nokkurn mann, að verða fyrir skömm, fá illt orð á sig. Sæmdin er samfélagsleg og maður stýrir henni ekki sjálfur, nema með framgöngu sinni. Hún verður ekki hönnuð. Útrásarvíkingarnir uppgötvuðu þetta þegar allt var um seinan og þeir voru farnir að finna fyrir því hversu sárt er að búa við vansæmd og skömm í samfélaginu sem þrátt fyrir allt er samfélag þeirra – þótt þeir búi í London og Lúxemborg…
Íslendingasögurnar fjalla oft um hetju sem haldin er nokkurs konar sæmdarþorsta, vill drýgja dáðir sem vekja aðdáun fólks og sigra aðrar hetjur og keppa við þær um sæmdarstig, og sagan endar iðulega þannig að hetjan seilist of langt í viðleitni sinni, mætir ofjarli sínum og er vegin, annaðhvort af hópi manna eða jafnvel með fjölkynngi og göldrum, eins og Grettir sterki. Í þessum sögum er oft brugðið upp nokkuð breiðri mynd af samfélagi þar sem gengið er til venjulegra bústarfa og fólk þarf að ala önn fyrir skepnum og ómegð – og svo er hetjan sett í þetta samfélag; hetjan sem á kannski meira skylt við veröld víkingatímans og fornaldarsagna en það friðsæla samfélag sem er að vaxa upp í sveitum landsins. Hetjan á ekki heima í sveit. Þannig fjalla þessar sögur oft um mikinn atgervismann sem ekki er pláss fyrir í samfélaginu – ætli þetta myndi ekki kallast eitruð karlmennska í dag? Það vaxa síðan deilur af þessu – vandræðamenn á sveimi í friðsælu samfélagi og sögurnar fjalla oft um leiðina að jafnvæginu á nýjan leik.
***
Njála fjallar um átök höfðingjaætta á Suðurlandi kringum aldamótin 1000, við upphaf kristnitöku, á mótum tvenns konar siðar. Hún er sennilega samin fyrir aldamótin 1300, sem sé eftir hrun íslenska þjóðveldisins – Njála er „hrunsaga“ – og vinsældir hennar gegnum tíðina má ráða af gríðarlegum fjölda handrita sem til eru af henni. Hún er lengst allra Íslendingasagna og hún er óvenjuleg í laginu af Íslendingasögu að vera. Þær hefjast margar hverjar í Noregi með nokkurs konar forleik þar sem rakinn er aðdragandinn að því að landnámsmennirnir flytja búferlum og þar er oft að finna rótina að þeim vandamálum sem sagan greinir svo frá. Njála hefst hins vegar í miðjum klíðum svo að segja, in medias res, á því að nefndur er til sögunnar Mörður gígja, faðir Unnar sem giftist svo Hrúti föðurbróður Hallgerðar og þar með æðir sagan af stað. En forleikurinn er nú þarna samt, eins og Gísli Sigurðsson hefur dregið fram í bók sinni Leiftur á horfinni öld: Hann bendir á að tekið er fram í upphafi sögunnar að Mörður gígja hafi verið sonur Sighvats hins rauða og þar með opnast fyrir kunnugum hlustendum heil forsaga, en Gunnar á Hlíðarenda er einmitt afsprengi sátta milli fjölskyldna eftir mannvíg og bruna, deilur um sætaskipan og eggjanir kvenna, eins og segir frá í Landnámu; Njálu lýkur einmitt með slíku sáttahjónabandi þeirra Kára og Hildigunnar. Sagan er komin í hring.
Í sögunni togast á lagahyggja nýrrar samfélagsskipunar, þar sem leitast er við að setja niður deilur og leysa mál á friðsamlegan hátt og með því að fylgja réttum ferlum – og svo aftur hin forna hefndarskylda þar sem blóði skal úthellt og ættarhollusta er æðri öllu; þarna togast á vinátta og ættarhyggja, valdasýki og virðing fyrir lögum – sæmdarþorsti og sáttarvilji.
Njáls saga er ekki Njáls saga. Þetta er allt eins Hallgerðar saga eða Gunnars saga – en fyrst og fremst er þetta átakasaga. Einar Ólafur segir söguna vera þríleik með tveimur forleikjum en Svanhildur Óskarsdóttir og fleiri fræðimenn tala um hana sem tvískipta – Gunnars sögu annars vegar og svo hins vegar sögu Njáls, sem kemur í framhaldi, þar sem frændi Gunnars, Mörður Valgarðsson hefur horn í síðu Njáls og Njálssona eftir að Njáll fær Höskuldi Þráinssyni goðorð, sem ógnar Merði.
***
Njála er ástarsaga Hallgerðar og Gunnars.
Hallgerður hefur gegnum tíðina vakið sterkari tilfinningar með lesendum og hlustendum Njálu en aðrar persónur, og ekki að ósekju; okkur þykir sem hún njóti ekki sannmælis í sögunni, hvorki af hendi annarra persóna né söguhöfundar. Við viljum taka upp þykkjuna fyrir hana, finna henni málsbætur, förum jafnvel að þræta fyrir að hún hafi gert það sem hún er sögð gera í sögunni. Höfundur virðist haldinn aðdáunaróbeit á persónunni og hefur skapað úr henni heillandi og margslunginn persónuleika sem er í senn þolandi og gerandi, stríður karakter samsett úr ólíkum eiginleikum.
Hún er kynnt til sögunnar sem meybarn og vakin athygli á fegurð hennar og vænleik – „og munu margir þess gjalda,“ eins og Hrútur föðurbróðir hennar segir við Höskuld bróður sinn, áður en hann bætir svo við þessari ótrúlegu setningu um það „hvaðan þjófsaugu þessi séu komin í ættir vorar“. Við fylgjumst svo með uppvexti hennar og því hvernig Þjóstólfur fóstri hennar er „engi skapbætir“ henni, drepur fyrir hana og fyrir henni tvo eiginmenn, annan að hennar undirlagi, Þorvald, en hinn gegn vilja hennar, Glúm, og í kjölfarið sendir hún Þjóstólf til Hrúts til að láta drepa hann. Hjónabandið með Glúmi er í samráði við Hallgerði og þann stutta tíma sem það varir sýnir hún á sér allt aðrar hliðar en gagnvart Þorvaldi, en sá ráðahagur hafði ekki verið borinn undir hana.
Báðir hafa þessir menn gefið henni kinnhest og þar með vitum við hvað það táknar fyrir mann að slá Hallgerði langbrók utan undir. Hallgerður er af konungakyni, ætt hennar rakin til Ragnars loðbrókar og hún er stolt og örlynd, hún unir sér ekki við hokur og hugur hennar stefnir frá amstri og önnum hversdagslífsins og inn í glæstari veröld þar sem hún á heima. Í beinu framhaldi er svo Gunnar Hámundarson kynntur til sögunnar með eftirminnilegri lýsingu í 19. kafla – sem kannski er ein sú viðhafnarmesta í íslenskum fornbókmenntum, og raunar svo glæsileg að það hefur nánast bitnað á honum seinni árin.
Gunnar á Hlíðarenda er sem sé hetja. En hann er óvenjulegur fyrir ýmissa hluta sakir, ekki síst vegna þess að með öllu þessu líkamlega atgervi fylgir mild skapgerð. Hann er oft í flokkunum á persónum Íslendingasagna talinn vera ein af hinum „ljósu hetjum“ – en dökku hetjurnar eru þá menn eins og Grettir Ásmundarson og Egill Skallagrímsson, skáld og vargar í aðra röndina, blendnari persónur en hinar ljósu hetjur eru alla jafnan. Gunnar er eiginlega „hin mjúka hetja“. Hann segir til að mynda við Kolskegg bróður sinn að hann viti ekki hvort hann „mun því óvaskari maður en aðrir menn sem mér þykir meira fyrir en öðrum mönnum að vega menn“.
Með öðrum orðum: hann er bardagamaður sem þolir ekki að drepa menn. Hann er eins og fótboltamaður sem þolir ekki návígi en vill bara skora beint úr aukaspyrnum og taka sig út þess á milli. Nema hann vill setjast í helgan stein – hann er kominn með trilludrauminn sem allir íslenskir karlmenn fá einhvern tímann á ævinni. Hann vill verða bóndi, þráir friðsælt líf í skauti náttúrunnar, þráir í raun tíðindaleysið, lífið sjálft.
Gunnar á Hlíðarenda endurheimtir fé Unnar frænku sinnar frá Hrúti, sem hélt eftir heimanmundi hennar þrátt fyrir skilnað þeirra, sem varð vegna þess að Hrúti dvaldist í rekkju Gunnhildar drottningar meðan Unnur beið hans í festum heima – hér er að verki „harmleikur kynlífsins“ – „girndarráðið“ – og Gunnhildur lagði svo á Hrút þau álög að hann mætti ekki gagnast konu sinni vegna þess að getnaðarlimur hans myndi þrútna um of í hvert sinn sem þau hygðu á samfarir, svo að óbærilegt yrði. Gunnar nær sem sé heimanmundinum til baka aftur, með hjálp Njáls, og með því að dulbúast sem persónan Kaupa-Héðinn.
Þannig er kynlífsógæfa Hrúts og Unnar eins og nokkurs konar forleikur að sambandi þeirra Gunnars og Hallgerðar. Setur tóninn.
Gunnar hefur verið í víking á meðan Hallgerður bjó við sína hjónabandsógæfu og gæfu, og hann hefur skapað sér mikið nafn fyrir vaskleik. Þau hittast svo á Þingvöllum – bæði í litklæðum. Hann er vaskasti og fallegasti maður landsins með ljóma atvinnumennskunnar í manndrápum yfir sér og hún er ættgöfugasta kona landsins, sú fegursta og sú hárprúðasta, fræg fyrir stolt sitt og orðsnilld og ýmislegt annað sem má besta kvenkost landsins prýða, valkyrja af því tagi sem kýs mönnum örlög. Og hvernig má annað vera en að þau laðist hvort að öðru þarna: fallegasta fólk landsins á fallegasta degi ársins á fallegasta stað landsins – þetta er sviðsetning eins og í suðuramerískri sápuóperu, og þetta getur náttúrlega ekki endað vel.
Því að rétt eins og Gunnar villti á sér heimildir gagnvart Hrúti í dulargervi sínu þá kemur hann ekki alveg hreint fram gagnvart Hallgerði; hún sér í honum manninn sem gefur henni kost á því að losna úr búhokri sveitalífsins og hvunndagsveröld og inn í heim ævintýranna, heim fornaldarsagnanna, heim víkingatímans, svo að hún geti verið sú Guðrún Gjúkadóttir eða Brynhildur Buðladóttir sem hún er borin til að vera – en hann er þreyttur á vígamennsku og víkingastússi og vill eins og fyrr segir komast út úr því, vill fara að búa með sexhundruð fjár og í mesta lagi koma fram í skemmtiatriði á þorrablótinu í sveitinni. Þessi fundur þeirra á Þingvöllum er eina hamingjustundin sem þau eiga.
Hvort um sig leitar sæmdar. Og Hallgerður sér sína sæmd í rausnarbúi – þótt höfundur tali um að hún hafi „allt í sukki“ – og freistast til að láta hnupla osti sem Gunnar hafði áður ekki fengið að kaupa, en Gunnar lýstur hana kinnhesti þegar hann uppgötvar það. Það er meira en að segja það að vera bóndi á Suðurlandi. Hetjur eiga ekki heima í sveit. Sveitalífið gengur út á fleira en taka aukaspyrnur og taka sig út. Gunnari tekst ekki að búa með öllum þeim smámennum sem vilja vinna á honum, um leið og hann sér samt að lokum sæmd sína í því að rjúfa gerða samninga um að hann fari utan; verður sú hetja sem hlutskipti hans er að vera og hann er alla söguna að reyna að víkjast undan að vera.
Og snýr aftur með orðum um bleika akra og slegin tún, sem mér þykja ekki endilega endurspegla bóndann í honum eða ástina á ættjörðinni, eins og Jónas Hallgrímsson útleggur það í Gunnarshólma – heldur er þetta dauðamynd, lokamynd, sátt þess sem veit að nú bíður hetjudauðinn hans og ævarandi sæmd. Og Hallgerður neitar honum um lepp úr hári sínu á banastundinni, neitar að bjarga lífi hans, því að það eru örlög hennar að gera það, hún er orðin að Guðrúnu Gjúkadóttur, þetta er skrifað svona: enginn lifandi maður, ekki einu sinni vænsti maður landsins, í öllum skilningi, skal komast upp með að slá hana. Og þar með öðlaðist Hallgerður sína ævarandi sæmd.
Guðmundur Andri Thorsson
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021