trusted online casino malaysia
Jón Daníelsson 04/11/2014

Mörður Bjarna

MörðurÉg var að lesa í þriðja sinn lítið kver, sem Bjarni Harðarson gaf út í sumar. Mörður heitir þessi frásaga og er lögð í munn Merði Valgarðssyni, sennilega þekktasta illmenni þeirra miðaldabókmennta sem kallast einu nafni Íslendingasögur.

Bjarni er orðinn mikill snillingur í persónusköpun. Og honum er líka einkar lagið að lýsa löngu horfnum tíðaranda og aðstæðum fólks á trúverðugan hátt. Það er einkum þetta tvennt sem gerir Mörð að góðri bók. Hún vekur manni vellíðan, vegna þess að hún veitir innsýn og skilning.

Það er hins vegar á misskilningi byggt að Mörður fái þarna einhverja teljandi uppreisn æru. Mörður Bjarna er enginn engill, þvert á móti er hann nokkurn veginn sami skíthællinn og í Njálu. Munurinn er sá að í meðförum Bjarna öðlast illmennska hans mennskan tilgang og hún á sér líka mennskar ástæður.

Það er auðvitað mikilsvert að gera sér ljóst að Njála er skáldsaga. Höfundur Njálu valdi einfaldar lausnir til að leysa flókin vandamál. Hann þurfti á illmennum að halda til að knýja framvindu sögunnar og lét sér oftast nægja að skapa illmennum sínum illt eðli, án frekari umsvifa eða skýringa. Svo langt gekk höfundur Njálu í notkun eðlislægrar illsku, að hann eyðilagði alveg nokkur ágæt mannanöfn. Þau hafa ekki verið notuð í íslensku síðan – með aðeins einni undantekningu.

En svo vel tekst Bjarna Harðarsyni að skýra margslungna persónu Marðar Valgarðssonar, að hann ætti kannski að taka sig til og endurskrifa Njálu í heild. Það gæti orðið nokkuð fróðleg lesning.

Flokkun : Pistlar
1,440