trusted online casino malaysia
Karl Th. Birgisson 27/03/2014

Mokað úr tómri tunnu

Látum vera að Framsóknarflokkurinn hafi líka svikið kosningaloforðið um 300 milljarða skuldalækkun á kostnað hrægammanna (Illugi Jökulsson rekur skýr orð forsætisráðherra þar um hér).

Við því var að búast eftir aðildarumsóknar-afferuna.

Látum líka vera að upphæðin sé aðeins um 150 milljarðar og að helminginn eigi fólk sjálft að borga með sparnaði sínum.

Hitt er verst að seinni helmingurinn, sirka 75 milljarðar, eiga að koma beint úr galtómum ríkissjóði. Af skattfé okkar allra. Og þessa tugmilljarða á að afhenda fólki alveg óháð því hvort það er í nokkrum einustu vandræðum.

Ekki er annað að heyra en að fjármálaráðherra, formanni Sjálfstæðisflokksins, þyki þetta hin skynsamlegasta ráðstöfun. Það þykir nágrönnum hans í Garðabæ áreiðanlega líka enda njóta þeir góðs af.

En hvað þykir ábyrgum sjálfstæðismönnum, sem eru ekki í glórulausri vinsældapólitík, til dæmis forystumönnum í atvinnulífinu?

Þykir þeim það skynsamleg og ábyrg ráðstöfun skattfjár að moka tugmilljörðum úr ríkissjóði til fólks sem þarf ekki á því að halda?

Myndu þeir gera slíkt í eigin rekstri? Eða myndu þeir finna betri not fyrir þessa peninga? Kannske að greiða niður skuldir?

Ég þykist vita svarið, og líka að þeir munu ekki segja múkk. Og halda svo áfram að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í þeirri áratugagömlu blindu, að það sé ávísun á ábyrg ríkisfjármál og heilbrigt viðskiptaumhverfi.

Enn einu sinni hefur Sjálfstæðisflokkurinn sannað nákvæmlega hið gagnstæða.

1,333