trusted online casino malaysia
Gestastofa 19/09/2014

Minnimáttarkenndin er ráðandi

StöðvarfjörðurEftir Krumma í Rjóðri

Minnimáttarkenndin er ráðandi aflið í heiminum, hún er völd að öllum okkar verstu mistökum og óskunda. Við þekkjum hana öll og afneitum henni, hægri, vinstri, í eiginlegum sem óeiginlegum skilningi. Við gerum það daglega. Við gerum það heimavið og opinberlega.

Auðvitað er það asnalegt að sitja við og skrifa niður eitthvað sem allir vita. Ég gæti eins skrifað: rigningin er blaut. Það er þegar kemur að beinu dæmunum sem málið fer að vandast og afneitunin tekur sig til og hafnar hlutunum fyrir annarra hönd og þannig hefur það alltaf verið. Það eru þarna samt undantekningar, undantekningar sem fáir alla vega voga sér að afneita í dag, síðsumars 2014. Kosningaréttur kvenna, sömu laun handa konum og slangur af öðru réttindastagli. Þannig að, það er kannski rétt að velta við steinum af og til.

Ef einhver „heimur“ er sjálflægur og næstum því sjálfum sér nægur er það „fjölmiðlaheimurinn“. „Fólkið“ talar, ef ekki hvert við annað, þá hvert um annað og þegar best lætur örlítið út fyrir það og jafnvel um merkilega hluti, mjög merkilega jafnvel, og það fyrir marga. Samt stendur það eftir, aftur og aftur, að „stóra samhengið“ kemst ekki á dagskrá. Við höfum jafnvel sérstakan ventil sem passar upp á að það gerist ekki. „Sérfræðinginn“ það er þessi með minnimáttarkenndina sem alltaf lætur vita af því ef bryddar á óþægri umræðu að, ekki endilega hann viti, en hann viti samt að einhver eigi að vita og „aðrir“ ekki. Venjulegast eru þetta afsprengi Vatnsmýrarskólans sem framleiddi flesta sérfræðingana og pólitíkusana sem sáu okkur fyrir hruninu, skólans þar sem fólk étur bara hvítu hliðina af kolanum og hendir hnífapörunum í ruslið. Ég held þeir rækti þar, annaðhvort í mýrinni eða tilraunaglösum, vanmetakennd og systur hennar vænisýkina í þar til gerðum reitum. Nokkuð er, að ef það eru einhverjir hausar sem eru fljótir að hverfa í sandinn þegar virkilega kemur að hlutunum, þá eru það sviðahausar háskólanna. Þeir segjast ekki vera í pólitík og öll ógæfa stafi af því að þeir hafi ekki fengið borgað, alla vega ekki nóg.

Mikið væri nú gott ef þetta væri allt og sumt, og hefði ekkert með það að gera að þekkingin hefur einfaldlega þanist svo út að það hálfa væri nóg og yfirsýnin er löngu horfin. Nú skilur þar með feigum og ófeigum sem mannskepnan viðurkennir takmörk sín. Heimurinn er ekki flókinn, það er lýgi. Hann verður sífellt einfaldari en það stendur á því að viðurkenna það. Það verður vitaskuld ekki gert og það fer illa fyrir honum.

Eniac, fyrsta tölvan, fór í gang 1946 og tekin úr notkun níu árum seinna, nú er gott ef hlutirnir eru látnir duga í fimm. Það er trúlega hraðinn sem kyndir minnimáttarkenndarbálið hvað mest, yfirlýsing um meinta þekkingu í dag er orðin að þvættingi á morgun og þar er allt undir. Ég sé að vísu ekki fyrir mér að upphafsyfirlýsing þessara lína muni eiga eftir að úreldast. Það gæti hins vegar hent drög þessi að tillögum til úrbóta.

„Sérfræðingar“ telja vænlegast til bjargar þriðjaheiminum að afhenda konum hann til fósturs og ég bara spyr: bíðiði, bara þriðjaheiminn?

Eitt af því sem við höfum uppskorið með vaxandi minnimáttarkennd er að við flokkum augljósa hluti með skoðunum. Annað er að hanalæti hrjáir frekar stráka en stelpur. Þriðja að „common sense“ sem við hér á landi höfum að vísu kallað „heilbrigða“ skynsemi er einfaldlega vafasöm sýn á rökfærslu okkar fyrir tilfinningunum, ég gæti bætt við, hvað sem allri bjartsýni Páls Skúlasonar líður.

Já, ég ætla að reyna ráða konum heilt. Hættið þið að troða ykkur í föt karlanna, þau eru skítug. Auðvitað hefði ég átt að enda á þessu. En svona er þetta, ég þykist vera einn fárra karla sem viðurkennir mistök og það sem vitlausara er, ég stekk ekki upp á nef mér þótt öðrum verði á, ekki heldur á minn kostnað. Ágætu konur, það er vitlaust gefið og í guðana bænum ekki hætta þótt hvíni í tálknum á stöku þorski, ekki einu sinn þótt hann þéri ykkur. Látið ekki hræða ykkur og alls ekki kvarta undan umræðu, hún er og verður máttlaus, álíka áhrifarík og þessi skrif, komi þau yfir höfuð fyrir annarra sjónir en höfundar. Það þarf í dag magnaðan sjónvarpsþátt, ekki einn heldur röð, til að hagga hlutunum og dugir oft ekki til. Ég er hins vegar ekki frá því að svo mikið megi sífra yfir því að einhverjir séu vondir við mann að það fari að verða hlálegt. Það þarf að fara sparlega með hvíta lygi og hálfsannleikurinn er alltaf ákaflega leiðinlegur og oftast þeim sem brúkar hann til lítils gagns, ég tala nú ekki um ef hann á ekki bakland, t.d. í stjórnmálum. Allir vita og hafa alltaf, að lygin kemur í bakið. Ekki reyna að snobba niður á við og síst fyrir kosningar ef þið eruð í stjórnmálum. Það eru ekki bara „börn“ sem sjá í gengum hræsni fólks, þess utan eru þau fljót að vaxa úr grasi og muna margt úr bernskunni.

Síðustu fjölmiðladagar hafa einkennst af umræðum um minnimáttarkenndina í Bretlandi. Auðvitað er hún ekki nefnd á nafn, bara talað um sjálfstætt eða bundið Skotland, þar sem helst er að skilja að Skotar hafi þurft að passa að restin af því sem eftir er af heimsveldinu fari ekki með þá úr Evrópusambandinu.

9. september árið 1946 dró breski tunduduflaslæðarinn Simpson K689, sem þá var í Þórshöfn í Færeyjum, niður danska fánann úr fram mastrinu og upp þann færeyska. Ástæðan fyrir þessari viðurkenningu var að laugardaginn 14. höfðu Færeyingar kosið sér sjálfstæði. Til að gera langa sögu stutta, embættismenn sáu til þess að þeir urðu það ekki. (The First Salute for the Independent Faroe Islands, útgefin des. 2013 höf. Zakarias Wang).

Það sem bjargaði sjálfstæði okkar var að Bandaríkjamenn redduðu sér ódýru atkvæði, atkvæði sem þeir gátu meira að segja stýrt til að leggja fyrir Sameinuðu þjóðirnar tillögu um Ísraelsríki. Þægilegt í dag. „Íslendingar lögðu þetta til“. Ef minnimáttarkenndin var ekki þarna lifandi komin, þarna þar sem Marshall féið streymdi, verð ég að viðurkenna að ég er illa svikinn.

Krummi í Rjóðri

Flokkun : Pistlar
1,393