trusted online casino malaysia
Bragi Kristjónsson 02/09/2014

Mig vantar mannskratta…

Veltur um Kjarval – Samskip – og Eimskip.Bragi Kristjónsson

„Mig vantar mannskratta til að höggva úr túninu hjá mér. Tíu krónur í kaup á viku, og meira ef óskað er. Nógar heitar pönnukökur hjá konunni – þeir sem vilja hafa það svo.“

(Auglýsing í Vestra, Ísafirði, 1914. Auglýsandi Þorsteinn Kjarval.)

Þorsteinn hét maður og var Kjarval. Bróðir hans hét Jóhannes, líka Kjarval.

Þorsteinn var bóndi í Skutulsfirði, gegnt Ísafjarðarkaupstað. Honum varð drjúgt efna. Hann kleif björg og tíndi egg fugla, ferðaðist með þau í kössum til Reykjavíkur og seldi á Lækjartorgi og víðar. Eitt áhugamál hafði Þorsteinn annað en búskapinn. Það voru hlutabréf í Eimskipafélagi Íslands. Hann sókti eptir þessum bréfum hvarvetna sem hann kom og varð drjúgt ágengt.

Þorsteinn hafði líka við ýmsar aðrar aðferðir við framfærslu sína. Oft sáu Ísfirðingar hann á stjákli í fjörunni við skipasmíðastöðina að degi til. Stórir smíðabjálkar voru í fjörunni við skipasmíðastöðina. Sumir tóku eptir því, þegar kvöldaði, að einn og einn bjálki lagði til sunds og hvarf yfir til Þorsteins bónda. Hafði hann þá um daginn sett reipi í bjálkann og dró hann síðan yfir fjörðinn þegar náttaði. Þókti mörgum þetta svo fyndið, að eg held hann hafi aldrei sætt opinberum ákúrum fyrir þetta framtak.

———-

Dag einn, um níu ára aldurinn, kom eg heim úr skóla í hádeginu. Faðir minn var þá aðalféhirðir Sambands ísl. samvinnufélaga. Hann hafði þá gert kaup við Þorstein bónda og keypti af honum fyrir hönd SÍS öll hlutabréf hans í Eimskipafélaginu. Það nam um 75.000 krónum. Upphaflegt hlutafé Eimskips var 1.000.000 við stofnun, 1917. Þetta nam því 7.5% hlut í þessu ríkasta hlutafélagi þess tíma. Aldrei vissi eg, hvert verð SÍS hafði greitt fyrir þenna hlut Þorsteins.

Á þessum árum, nokkru fyrir 1950, hafði SÍS uppi hugmyndir að eignast meirihluta í Eimskipafélaginu. Af því varð þó ekki, því hluthafar meðal Íslendinga í Vesturheimi og stöndugir kaupahéðnar í Frímúrarareglunni, vildu síður fá Sambandið í hópinn.

Þessvegna stofnaði forstjóri SÍS Vilhjálmur Þór, snjallasti fjármálagúrú 20. aldarinnar, Skipadeild SÍS. Eg fullyrði, að Vilhjálmur Þór, sem byrjaði 12 ára sem sendill hjá KEA á Akureyri og endaði sem fyrsti Seðlabankastjórinn, hafi verið stórkostlegasti fésýsluhugsuður síðustu aldar.

Síðar hét Skipadeildin Samskip. Þegar SÍS geispaði golunni eftir gríðarleg fjörbrot og magnaðasta baktjaldamakk sögunnar, voru hlutir þess „seldir“ ýmsum þeim, sem komið höfðu að rekstri þeirra síðustu árin fyrir fallið.

Þannig er til komin þátttaka Ólafs Ólafssonar kaupsýslumanns í íslenzku athafnalífi, en hann hafði verið forstjóri Skipadeildarinnar. Ólafur er „selfmade“ maður, sonur fv. kaupfélagsstjóra í Borgarnesi, enda Borgfirðingur í marga ættliði.

Opt hef eg furðað mig á því, hve orðspor Ólafs kaupsýslumanns er bjagað í hinni íslenzku umræðu. Gildir það jafnt, þegar hann f.h. ýmissa félaga eignast drjúgan hlut í fv. ríkisbanka til þess, er hann fær til landsins í afmæli sitt skemmtikraft, sem frægastur er fyrir að hafa sungið og spilað við jarðarför Díönu prinsessu. Eg hef engin kynni haft af Ólafi Ólafssyni. Hann er nokkuð fyrirferðarmikill í sýslu sinni, en hann hefur líka lagt drjúgum til samfélagsins með sjóðsstofnunum og lagt góðum málefnum lið. Hann ætti því að vera í fylkingu viðurkenndra landstólpa.

Þetta er líkt og með okkar ástsæla Halldór Ásgrímsson fv. forsætisráðherra. Faðir hans, góður kunningi minn um árabil, Ásgrímur Halldórsson, kaupfélagsstjóri á Höfn í Hornafirði, hafði keypt af kaupfélaginu gjaldvana rekstur nokkurra báta á heimaslóðum. Af dugnaði og elju og góðu samstarfi við öfluga heimamenn varð þetta fyrirtæki til fyrirmyndar í rekstri og ágóði drjúgur. Og er enn. Erfðir skipuðu málum þannig, að Halldór sonur átti lítilsháttar hlut í góðu félagi. Það félag, ásamt félögum í eigu áðurnefnds Ólafs Ólafssonar, eignaðist vænan hlut í Búnaðarbankanum, þegar landssjóði þóknaðist að bjóða hann til sölu réttsinnuðum aðiljum.

Það var líkt með Þorstein Kjarval og títtnefndan Ólaf Borgfirðing. Þorsteinn lét hluta eigna sinn eptir söluna á bréfunum til SÍS, renna til Hins íslenzka náttúrufræðisfélags, sem m.a. gefur út eina vísindaritið um íslenzka náttúrufræði.

Á góðri stundu stofnaði Ólafur digran sjóð til styrktar íslenzkum frumkrapti og framtaki.

En þótt ýmislegt eigi þeir sameiginlegt Þorsteinn og Ólafur er ólíkt, hvernig „rykti“ þeirra er háttað í ísl. umræðu. Umræðan um Ólaf ber vott um ólund og öfund þeirra sem hana rækja, en umræðan um Þorstein eggjabónda er löngu horfin upp í bæjarsundin til nátttröllanna. Og afþví hér var nefndur einn framsóknarmaðurinn til: Halldór Ásgrímsson, er eins og jörðin hafi gleypt hans góðu og ábatasömu störf fyrir land og lýð. Það líkt og enginn vilji lengur muna eptir þessum merka frumherja.

Áhrif íslenzkrar þöggunar hafa löngum verið til lítilla bóta í samfélaginu.

Skrítið.

Flokkun : Pistlar
1,306