Magnþrungin sinfónía Elísabetar
Freyr Eyjólfsson skrifar
Elísabet Kristín Jökulsdóttir
Aprílsólarkuldi
Þegar Oliver Sacks var einhverju sinni spurður afhverju hann væri alltaf að skrifa um bækur um geðveiki, svaraði hann því til að þar væru mestu leyndardómar lífsins og mannshugarins geymdir. Það er vandasamt að vera til og sálin okkar er lítil og brothætt, sérstaklega gagnvart ógnaröflum eins og Dauðanum og Ástinni. Við búum við þau forréttindi, en líka böl, að vera hugsandi apar með tilfinningar, í afar hörðum heimi og öll listaverk reyna með einhverju hætti að fjalla um þessa endalausu glímu mannsins við Ástina og Dauðann.
Aprílsólarkuldi er magnþrungin sinfónía með mikilli og ómstríðri stígandi. Fyrsti tónninn er dimmur, þegar Dauðinn stígur á svið og hrifsar til sín föður, en síðan kemur Ástin sem huggar sál sorgmæddu stúlkunnar og þá um leið hefst mikill og brjálaður darraðardans sem endar með að hún tapar áttum, en svo lýkur þessu mikla verki á ljúfsárum tónum og við lesendur erum minntir á að hugga þá sem næst okkur standa.
Það gengur sem sé á ýmsu í þessu skáldverki en þrátt fyrir það er öll frásögnin rígbundin og strúktúreruð eins og fínasta tónverk; það skiptast á hægir og hraðir kaflar, gleði og sorg. Við vitum öll þessi saga er saga höfundarins, þetta er sagan hennar Elísabetar og hún er að segja okkur hver hún er og hvernig hún varð til, hvernig hún veiktist og hún notar skáldsagnarformið til þess að gera það. Því eins og Laxness sagði einhverju sinni, þá þarf stundum að ljúga svolítið til að segja sannleikann betur. En hér er samt engin lygi á ferð. Aðeins helber sannleikur um hvað lífið getur bæði verið sorglegt og fallegt.
Þetta er frásögn um ást og geðveiki og huggun og hér er engum hlíft, en enginn heldur dæmdur. Hér dugir ekkert annað en miskunnarlaust hugrekki og heiðarleiki, þetta er magnþrungin lesning.
Elísabet Kristín Jökulsdóttir – þú ert svo mikil galdrakona. Takk fyrir frábæra bók.
Freyr Eyjólfsson
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021