trusted online casino malaysia
Jón Daníelsson 28/09/2015

Mælarnir reyndust 5 milljarða gullgæs

rafmagnsmaelirNærri 15 árum eftir þá furðulegu ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur að selja einkafyrirtæki rafmagns- og hitaveitumæla sína og leigja þá síðan aftur, liggur loksins fyrir hvað þetta ævintýri kostaði. Og talan á verðmiðanum er um 5 millljarðar.

Þessir peningar hafa streymt úr sameiginlegum sjóðum Reykvíkinga í vasa einstaklinga í formi arðgreiðslna. Er í rauninni gerlegt að kalla þetta nokkuð annað en spillingu? Ég spyr og þætti vænt um svör í formi nákvæmari talna.

Við höfum nefnilega einungis verið upplýst um brúttótölurnar og í leiðinni er að auki reynt að plata okkur. Meðal þess sem fram kemur í skriflegu svari OR til Fréttablaðsins, er þetta:

„Eins og áður segir greiddi OR Frumherja 5,7 milljarða í leigu frá 2001. Voru greiðslur núvirtar á bilinu 360 til 420 milljónir á ári. Greiðslurnar voru vegna alls rekstrar mælasafnsins, svo sem launa og annars rekstrarkostnaðar, fjárfestinga í nýjum mælum vegna stækkunar veitusvæðis og endurnýjana, prófana á mælum, þjónustu við þá og útskipta ásamt ábyrgð á mælum sem bila.“

Það sem ég feitletra í tilvitnuninni er ekki alls kostar rétt. Starfsmenn OR hafa sem sé alla tíð séð um álestur og að líkindum er það stærsti launaliðurinn í tengslum við rekstur mælanna. Þeir sem telja sig vita betur, mega gjarnan leiðrétta mig.

Frumherji greiddi á sínum tíma 259 milljónir króna fyrir mælana og samkvæmt frétt Morgunblaðsins á þeim tíma voru tvær prófunarstöðvar inni í þeirri tölu, ásamt verkstæðum og lager. Mælarnir hafa því trúlega verið mun ódýrari. Orkuveitan borgar nú 1.600 milljónir fyrir mælana, en þeim hefur að vísu fjölgað nokkuð. Ekkert er minnst á mælistöðvar og verkstæði.

Hitt bætir ekki úr skák að hjá OR fara menn að auki rangt með þessar tölur. Upphaflega kaupverðið (259 milljónir) er sagt 590 milljónir á núvirði, en 550 milljónir eru nær lagi. Útkoman verður þveröfug þegar kemur að leigugjöldunum til Frumherja. Þessi gjöld eru núvirt (eða réttara sagt uppfærð til núgildandi verðlags) á 5,7 milljarða, en rétt tala er ekki undir 6 milljörðum. Þetta sést með einfaldri vísitöluuppflettingu á vef Hagstofunnar. Þannig virðist sem OR reyni að draga sem mest úr tapi okkar úr sameiginlegum sjóðum.

Þegar þessum 1,6 milljörðum er bætt við þá 6 milljarða leigu, sem OR hefur greitt á bráðum 15 árum, verður heildarsumman 7,6 milljarðar. Um kostnað Frumherja vitum við ekki neitt, en hann hefur tæpast verið nema brot af þessu, þar eð OR sá áfram um álesturinn.

Um gjalddaga í upphaflega kaupsamningnum vitum við heldur ekkert, en líklegast hefur greiðslunum verið skipt á kannski 2-3 ár og þá hefur Orkuveitan í rauninni borgað kaupverðið sjálf. Einkavæðingarsamningar eru stundum þannig úr garði gerðir.

Í rauninni eru þetta ekki háar tölur og einkavæðing orkumælanna var fremur smá í sniðum. Hún er hins vegar þess eðlis, að Orkuveitunni er í lófa lagið að áætla kostnað Frumherja nokkuð nákvæmlega og þar með væri hægt að upplýsa almenning um rauntölurnar.

Og ég vil sjá rauntölurnar. Mig langar til að vita hvernig einkavæðing virkar í raun og veru.

Flokkun : Efst á baugi, Pistlar
2,273