trusted online casino malaysia
Jón Daníelsson 23/10/2014

Lögreglan að verða mesta ógnin

MP5Við horfum of mikið á bandarískar bíómyndir. Sjónin er sú tegund skynjunar sem mannskepnunni er eðlilegt að treysta best og þess vegna þarf engan að undra þótt bíómyndir og sjónvarpsþættir hafi áhrif á okkur. Það verður ekki ósatt þótt við gerum okkur ekki meðvitað grein fyrir því.

Almenn ímynd lögreglunnar skiptir máli. Það skiptir máli, þegar við sjáum lögreglubíl nálgast, hvort við búumst við, að út úr honum stígi vopnaðir eða óvopnaðir lögreglumenn. Það skiptir máli hvort við búumst við að óvopnaður lögreglumaður opni afturdyrnar og biðji okkur kurteislega að setjast inn, eða hvort við megum vænta þess að sjá hríðskotabyssur á lofti og fá skipun um að leggjast á grúfu með hendur á hnakka.

Almenn ímynd íslensku lögreglunnar hefur verið sú, að hún sé óvopnuð. Þess vegna skynjum við enga hættu, þegar við sjáum einkennsibúning lögreglu. Við vitum af sérsveitinni, en hún er í hugum okkar flestra skýrt afmörkuð frá almennu lögreglunni.

Það er gríðarlega mikilvægt að við fáum að hafa þetta einmitt svona. Að við getum treyst því sem við sjáum. Fólk í almennum einkennisbúningi lögreglu: Óvopnað og hættulaust. Fólk í dökkum sérsveitarbúningum: Byssur og hættuástand. Þannig eigum við að fá að túlka það sem við sjáum.

Reyndar er til ein mikilvæg undantekning. Lögreglumenn í dreifbýli mega gjarnan hafa kindabyssu í hanskahólfinu til að geta aflífað skepnur, sem hafa orðið fyrir bíl. En það á líka að vera kindabyssa, ekki hríðskotaskammbyssa úr bandarískri bíómynd.

Umræða síðustu daga um norsku hríðskotarifflana hefur því miður leitt í ljós, að þessi vopnlausa ímynd lögreglunnar er ekki lengur sönn. Til eru leynireglur um vopnaburð lögreglu. Og fyrst reglurnar eru leynilegar, þarf ekki að efast um að í þeim stendur eitthvað um vopnaburð almennu lögreglunnar.

Kannski er þessi óvissa allra verst. Óvissa hefur tilhneigingu til þess. Það, að geta allt eins átt von á að lögreglan dragi upp skammbyssu eða veifi hríðskotarifflum, eykur óhjákvæmilega líkurnar á því að „andstæðingarnir“ vígbúist lika. Jafnvel hálfstálpaðir smákrimmar gætu tekið upp á því að koma sér upp skammbyssum til að „vera við öllu búnir“.

Sömu hálfstálpuðu og hálfdópuðu smákrimmar gætu líka ákveðið að verða fyrri til, þegar lögreglan mætir á vettvang. Og þegar búið er að skjóta óvopnaðan lögreglumann, sem fór í útkall í venjulegum einkennisbúningi á venjulegum lögreglubíl, þá verður ekki aftur snúið. Þá sitjum við öll föst í bandarískri bíómynd, hvort heldur okkur líkar það betur eða verr.

Skipulögð glæpasamtök og hryðjuverk hafa vissulega breytt heiminum til hins verra. Við þurfum vafalítið á vopnaðri lögreglu að halda. Til öryggis getur líka verið nauðsynlegt að kalla til vopnaða lögreglu, þegar æði rennur á ölvað, uppdópað eða geðsjúkt fólk. En sú lögregla á að vera í sérsveitarbúningum. Við eigum að geta treyst því að hinn almenni lögreglubúningur sé sjálfkrafa tákn um vopnleysi.

Þegar við getum ekki treyst því lengur, stafar okkar friðsamlega samfélagi sennilega meiri ógn af lögreglunni sjálfri en nokkrum glæpamönnum. Og eftir dálitla umhugsun, sé ég enga ástæðu til að setja spurningarmerki á eftir fyrirsögninni.

Flokkun : Pistlar
1,635