Lögfest orðagjálfur
Guðspjall: Jesús tók þá tólf til sín og sagði við þá: „Nú förum við upp til Jerúsalem og mun allt það koma fram sem spámennirnir hafa skrifað um Mannssoninn. Hann verður framseldur heiðingjum. Þeir munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann. Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta en á þriðja degi mun hann upp rísa.“ En þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin og þeir skynjuðu ekki það sem sagt var. (Lúk 18.31-34)
Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Í guðspjalli dagsins skilja lærisveinarnir ekki einfalt talað mál. Jesús útskýrir fyrir þeim í töluverðum smáatriðum hvað sé í vændum og hann talar ekki við þá í neinu líkingamáli. Ekkert af þessu segir hann undir rós. Hann nánast stafar þetta ofan í þá. En þeir skildu ekki hvað hann sagði … eða öllu heldur: Þeir „skynjuðu“ það ekki.
Hvernig mátti það vera? Hvernig var hægt að skilja ekki þessi einföldu orð? Sögð við þau á skýru mannamáli í tiltölulega einföldum og stuttum setningum?
Við getum ekki dregið þá ályktun að það hafi verið af því að orðanna hljóðan hafi verið eitthvað loðin eða torskiljanleg. Það var eitthvað annað.
Sennilega var merking orðanna of erfið fyrir þá, þeir réðu ekki við að meðtaka hana. Þeir skildu orðin sem við þá voru sögð en þeim var um megn að „skynja“ hinn óbærilega sannleika sem orðin miðluðu.
Óþægilegur sannleikur
Það er ekki erfitt að finna hliðstæðu við þetta hér meðal okkar nú tvöþúsund árum síðar.
Hvernig stendur til dæmis á því að nýleg könnun sýnir að fjórðungur Íslendinga efast um að loftslagbreytingar af manna völdum séu að eiga sér stað? Allir virtustu vísindamenn heims hafa stafað þetta ofan í fólk undanfarna áratugi. Allar mælingar og staðreyndir, sem maður hefði haldið að ekki væri hægt að loka augunum fyrir, styðja að örari lofstlagsbreytingar en áður hafa sést í jarðsögunni séu að eiga sér stað og að ástæðuna megi nánast einvörðungu rekja til brennslu manna á jarðefnaeldsneyti.
Hvernig komast stjórnmálamenn, sem enga þekkingu hafa á loftslagsvísindum, upp með að tala eins og þetta sé umdeilt og vitna í örfáa loddara á vegum jarðefnaeldsneytisiðnaðarins því til stuðnings, rétt eins og það gæti verið einhverjum hulið að gervallt vísindasamfélagið eins og það leggur sig er einhuga.
Af því að þeir vita sem er að ef staðreyndir eru nógu óþægilegar þá er það í mannlegu eðli að vilja ekki trúa þeim, hve skilmerkilega sem þær hafa verið stafaðar ofan í okkur. Af því að þeir vita að fjöldi manns er reiðubúinn til að trúa því sem er þægilegra, fylkja liði á bak fallegu lygina og skella skollaeyrum við óþægilegum staðreyndum.
Af hverju voru orð Jesú lærisveinunum hulin? Kannski af sömu ástæðu og margsannaðar vísindalegar staðreyndir eru fjórðungi Íslendinga huldar?
Hvað er það sem hylur staðreyndir fyrir okkur? Hvað er það sem dregur ábreiðu yfir þær?
Að mínu mati er það undantekningalítið ótti. Ótti við breytingar, ótti við að kjör okkar versni … ótti við að missa spón úr aski okkar.
Merking orða
Tökum annað dæmi um auðskiljanlega setningu sem sumum virðist erfitt að „skynja“, nánast eins og einhver ótti hafi dregið hulu yfir merkingu hennar fyrir þeim. Hún er svona: „Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna hefur verið lögfestur á Íslandi.“
Þetta er falleg setning. Hún ætti að þýða að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna sé lög á Íslandi, hvað gæti orðið „lögfestur“ annars þýtt?
Í annarri grein þessa sáttmála er kveðið á um að hann gildi um öll börn innan lögsögu ríkja, án tillits til þess með hvaða hætti þau komu þangað eða hve lengi þau hafa dvalið þar.
Og næsta grein á eftir hefst á orðunum: „Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn.“
Hvers vegna er þetta hulið þeim armi stjórnvaldsins sem nefnist Útlendingastofnun? Hvað er það sem breiðir yfir merkingu þessara orða gagnvart henni? Þetta eru ekki torskilin orð. Nema orðið „lögfestur“ merki eitthvað allt annað en „fest í lög“.
Nú í vikunni fengum við fréttir af því að írönskum unglingi, sem hér hefur dvalið alllengi, eignast hér vini og lært tunguna, skuli vísað úr landi til ríkis þar sem hann hefur ekkert bakland og hætta er á að honum verði vísað aftur til Írans þar sem hann er í bráðri lífshættu vegna kynáttunar sinnar.
Hvernig dettur einhverjum í hug að það sé honum fyrir bestu?
Og framkoman er með þeim hætti að unglingurinn fyllist svo miklum kvíða að hann fær taugaáfall og þarf að leggjast inn á spítala og vera þar uns hann nær bata. Á meðan bíður útlendingastofnun á þröskuldinum eftir að hann útskrifist af geðsjúkrahúsi til að geta sparkað honum úr landi.
Lögfest grimmd
Hvert erum við komin sem samfélag ef þessi framkoma er látin viðgangast? Hvert erum við komin sem samfélag ef svona framganga opinberrar stofnunar hefur engar afleiðingar fyrir þá sem bera ábyrgð á henni?
Sem betur fer hafa þúsundir Íslendinga mótmælt þessari framkomu og við skulum vona að það beri árangur.
En á sama tíma fáum við fréttir af því að vísa eigi fjórum íröskum börnum undir níu ára aldri úr landi til Grikklands af því að þau hafa ekki verið hér nógu lengi og það þótt dómsmálaráðherra hafi nýverið lýst því yfir að einstaklingar séu ekki sendir til Grikklands vegna ástandsins þar. Dómsmálaráðherra virðist hafa gleymt að tilkynna Útlendingastofnun þetta.
Sem betur fer er þúsundum Íslendinga misboðið og við skulum vona að þessari ákvörðun verði líka snúið við.
En hvernig stendur á því að almenningur á Íslandi skuli ítrekað þurfa að rísa öndverður upp gegn stjórnvaldsákvörðunum sem misbjóða siðferðiskennd hans? Er verið að bíða eftir því að fólk venjist grimmdinni? Að skorturinn á mannúð verði normið? Að við sættum okkur við að búa í samfélagi þar sem svona er komið fram við börn?
Hver er skýringin?
Að mínum dómi koma aðeins þrjár til greina:
a) Útlendingastofnun gerist ítrekað brotleg við landslög án þess að það hafi neinar afleiðingar fyrir hana.
b) Landslög gilda ekki um Útlendingastofnun.
c) Sú fullyrðing að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna hafi verið lögfestur á Íslandi er í besta falli haugalygi, í versta falli merkingarlaust orðagjálfur sem hefur ekkert í för með sér annað en að stjórnmálamenn geta skreytt sig með henni á hátíðarstundum til geta virst voða góðir og með hjartað á réttum stað á sama tíma og stofnanir sem heyra undir þá hrekja börn inn á geðsjúkrahús eða senda þau hreppaflutningum til landa þar sem þeim er hætta búin.
Hver þeirra skyldi vera rétt?
Hvernig sem ég reyni finn ég ekki fjórða möguleikann til að fá þetta til að ganga upp.
Ábreiða óttans
Við getum lesið guðspjall dagsins og hrist höfuðið yfir skiliningsleysi lærisveinanna að „skynja“ ekki merkingu orða sem ekki ætti að vera hægt að misskilja.
En við búum í samfélagi þar sem opinberar stofnanir skynja ekki merkingu sáraeinfaldra setninga eins og „Aðildarríki skulu virða og tryggja hverju barni innan lögsögu sinnar þau réttindi sem kveðið er á um í samningi þessum, án mismununar af nokkru tagi“ og „Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar [gerðar eru] ráðstafanir sem varða börn.“
Hvað er það sem breiðir svona þykkt klæði yfir merkingu þessara orða?
Við búum í samfélagi þar sem auðkýfingurinn situr með hundrað kökur fyrir framan sig en verkamaðurinn með eina og auðkýfingurinn er búinn að telja verkamanninum trú um að útlendingurinn sem á enga köku ætli að taka kökuna hans af honum. Og verkamaðurinn verður hræddur við útlendinginn, en ekki þann sem raunverulega er að ræna hann … auðkýfinginn.
Við þurfum ekki að óttast útlendinginn sem hingað er kominn til að verða nýtur borgari. Óttinn við hann er miklu hættulegri en hann sjálfur. Reynslan á meginlandi Evrópu og í Bandaríkjunum sýnir að þjóðernissinnaðir öfgahægrimenn eru margfalt blóðþyrstari en nokkrir útlendingar. Þeir hafa miklu fleiri, ljótari og mannskæðari ódæði á samviskunni.
Ef það er þá hægt að tala um að hópur ungmenna sem safnar liði til að gagna í skrokk á fjórtán ára útlendingi og niðurlægja hann og tekur það upp á myndband sem hann dreifir á samfélagsmiðlum sér til skemmtunar og hótar meira ofbeldi ef sagt verði frá … hafi yfirhöfuð einhverja samvisku.
Varhugaverðir tímar
Við erum uppi á mjög varhugaverðum tímum. Við erum að mörgu leyti á mjög slæmum stað sem samfélag. Ótti og hatur sem nærast á lygum gegnsýra hluta þjóðarinnar. Útlendingahatur veður uppi fóðrað af áróðursvélum á internetinu og öldum ljósvakans. Stjórnvöld bregðast ítrekað siðferðislegum skyldum sínum við okkar minnstu bræður og systur – ef ekki beinlínis lögbundnum skyldum sínum. Vegið er að réttarríkinu, bæði að ofan og neðan og jafnvel að innan líka. Alltjent þótti við hæfi á aldarafmæli Hæstaréttar að flytja inn fyrirlesara sem einkum hefur unnið sér það til frægðar að grafa undan Mannréttindadómstóli Evrópu, sem við Íslendingar getum þakkað flestar ef ekki allar réttarbætur sem við höfum notið síðan við gerðumst aðilar að honum. Frjálsir fjölmiðlar eiga undir högg að sækja, þeir öflugustu eru lítið annað en málgögn auðkýfingsins með kökurnar hundrað og Ríkisútvarpið er leiksoppur stjórnmálaflokka þar sem mannaráðningar eru hluti af pólitískum hrossakaupum. Og fjórðungur þjóðarinnar hefur lýst því yfir í nýlegri skoðanakönnun að hann sé ólæs á staðreyndir ef þær eru óþægilegar.
Þeim mun mikilvægara er að hin 75% rísi upp öndverð og sýni að illskan og heimskan eru í minnihluta. Þeim mun mikilvægara er að hin 75% haldi árvekni sinni og mæðist ekki þótt rísa þurfi upp og snúa við nýju níðingsverki nánast vikulega. Því ef við gerum það ekki munu illskan og heimskan taka öll völd í samfélagi okkar. Það eina sem þær systur þurfa til að vinna sigur er að gott fólk geri ekki neitt.
Við verðum að skilja það sem stafað er ofan í okkur, jafnvel þótt okkur þætti betra að það væri ósatt og láta ekki óttann hylja sannleikann fyrir okkur.
Guð er kærleikur. Að snúa baki við kærleikanum, að snúa baki við mannúð og samhygð, er að snúa baki við Guði.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.
Prédikun flutt í Laugarneskirkju 23. 2. 2020
- Jesús kallar konu tík - 09/03/2020
- Lögfest orðagjálfur - 28/02/2020
- Sannleikurinn er sæskjaldbaka - 26/02/2020