trusted online casino malaysia
Davíð Þór Jónsson 02/04/2018

Leiðinn – þjáning nútímamannsins

Guðspjall: Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust. En hann sagði við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjáið þarna staðinn þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann eins og hann sagði yður.“ (Mrk 16.1-7)

week10-largeNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Gleðilega páskahátíð.

Í dag höldum við mestu hátíð kristinna manna. Við fögnum sigri lífsins á dauðanum. Þetta höfum við mennskir menn gert um þetta leyti árs síðan löngu fyrir daga kristindómsins.

Já, það er algjör óþarfi að láta eins og menn hafi ekki haldið hátíð í kringum jafndægur að vori mun lengur en kristindómurinn hefur verið við lýði. Það er staðreynd. Menn hafa fylgst með gangi himintunglanna, hringrás náttúrunnar og lífsins og við hver tímamót séð ástæðu til að fagna því að allt gengur sinn vanagang. Það bendir til þess að heimurinn sé ekki í þann mund að farast … í bili.

Lífið rís upp

Um þessar mundir fer fyrsti gróðurinn að skjóta kollinum upp úr moldinni eftir dvala vetrarins. Hann rís upp af jörðinni svo að segja. Gróska jarðar og frjósemi er tryggð.

Eggið er auðvitað tákn frjósemi, páskaeggið. Sama gildir um páskahérann. Hérar fjölga sér eins og … kanínur … Hvað er betra tákn fyrir frjósemi?

Er þetta þá bara enn ein hundheiðin hátíð sem kristindómurinn stal af heiðarlegum heiðingjum og gerði að sínum, svona eins og vetrarsólstöðuhátíðinni sem við köllum jól?

Tja … já … og nei.

Við fögnum fæðingu Jesú þegar daginn tekur að lengja. Þegar ljósið sigrar myrkrið fögnum við því að ljós lífsins kom í heiminn. Og þegar náttúran vaknar aftur til lífsins minnumst við þess þegar frelsari okkar gerði það. Í báðum tilfellum kallar táknmálið beinlínis á þetta. Nótt og dagur eru jafnlöng um þessar mundir, ljósið og myrkrið í jafnvægi og þessi tími er helgaður báðu. Við minnumst hvors tveggja, ljóss og myrkurs, sorgar og gleði, harms og fögnuðar.

Að vísu hjálpar það til með tímasetninguna að guðspjöllin greina frá því að upprisan hafi vissulega átt sér stað í kringum páskahátíð gyðinga sem einmitt er um þessar mundir, en jafnvel þótt svo væri ekki væri varla hægt að finna meira viðeigandi tíma til að hugleiða atburði síðustu vikunnar í jarðvist Jesú frá Nasaret.

Þjáning og dauði

Í dag stend ég fyrir framan altari Guðs í hvítum hökli. Í fyrradag var ég í svörtum.

Þann dag minnumst við krossfestingar Jesú Krists. Sá dagur er helgaður sorginni og þjáningunni, dauðanum og myrkrinu … sem eru óhjákvæmilegur og eðlilegur hluti mannlegrar tilveru.

Allt sem lifir þjáist og deyr.

En þar með er tilveran ekki afgreidd. Þjáning og dauði eru vissulega hluti hennar en vonandi ekki meginhluti hennar eða þungamiðja. Okkur stendur til boða að fylla líf okkar verðmætum sem gera það þess virði, sem láta þjáninguna og dauðann virðast lítið gjald fyrir þær andlegu gnægðir sem lífið færði okkur.

Þegar við fáum nýfætt barn í fangið hugsum við ekki að þarna sé kominn nýr dauðdagi sem bíði þess að eiga sér stað. Samt vitum við að barnið mun, eins og allt annað, deyja … En við vonum að það verði langt þangað til og að í millitíðinni muni það upplifa allt það stórkostlega sem lífið hefur upp á að bjóða; ást og kærleika, fegurð og yndi, djúpa sátt við Guð og menn, innilegan samhljóm við lífið sjálft. Og að þjáningin sem óhjákvæmilega fylgir mannlegri tilveru verði í lágmarki í lífi þess.

Kirkjan gengst við þjáningunni og dauðanum. Hún gefur þessu pláss. Einn dag á ári. Einn dag á ári kveikjum við ekki á kertum. Einn dag á ári er messuliturinn svartur. Einn dagur á ári er helgaður myrkri og dauða. Einn dagur á ári.

Það er einum degi meira en samtíminn virðist þola.

Þjáning nútímamannsins

Nútíminn krefst þess að tilveran sé svo stanslaus runa af sólskini og sleikipinnum, fjöri og afþreyingu, að tilhugsunin ein um það að upp geti runnið stund þar sem heimurinn hefur annað að gera en að hafa ofan fyrir okkur stappar nærri mannréttindabrotum. Að það sé slíkt kvalræði að þurfa að vera einn með hugsunum sínum dagspart að umhverfið sé beinlínis að leggja á mann óbærilegar þjáningar með slíku.

Er það þjáning nútímamannsins? Að leiðast?

Í þessari viku barst mér boð um að að mæta á skemmtun … eða öllu heldur … á leiðindi. Samkoman átti að ganga út á að allt yrði sem leiðinlegast. Drekka átti eitthvað vont. Starfsfólkið átti að sýna það sem kallað var „albönsk þjónustulund“. Sjálfur hef ég aldrei komið til Albaníu og þekki fáa Albani og engan af  neinu sérstaklega illu, en af samhenginu mátti ráða að albönsk þjónustulund væri ekkert til að hrópa húrra fyrir. Dægradvölin sem í boði átti að vera í þessum leiðindum átti síðan að vera leiðinleg borðspil, þá helst Trivial Pursuit með spurningunum frá 1985 og Mikadó á völtum borðum. Auðvitað var þetta glens og alls ekki illa heppnað sem slíkt. En undir því afhjúpast samt þessi ótti við að hafa ekkert skemmtilegt til að dreifa athygli sinni.

Og af hverju þessi leiðindi? Hver átti að vera tilgangurinn með þessum ónauðsynlegu þjáningum? Jú, þeir sem gátu þreyjað þessi ósköp voru verðlaunaðir með góðum drykk og ókeypis aðgangi að stórkostlegum tónleikum að launum fyrir þolgæðið.

Markalusar sjálfspíslir

 Um þetta leyti árs berast okkur gjarnan fréttir frá fjarlægum heimshlutum þar sem fólk notar þennan dag til að láta krossfesta sig í þeirri trú að leiðin til hjálpræðisins liggi í gegnum þjáninguna. Það lætur negla sig á krossa til að líða sömu þjáningar og frelsarinn og telur sig í gegn um þær nálgast hann. Ýmsir sjálfspíslahópar styðjast að einhverju eða öllu leyti við sömu vafasömu hugmyndafræðina.

Mér þykir skondið til þess að hugsa að á bak við þessa leiðindasamkomu, sem mér var boðið á, er nákvæmlega sama hugsunin á ferðinni. Að unnt sé að kaupa sér einhver stórkostleg andleg verðmæti með þjáningum. Munurinn er sá að hér eru verðlaunin ekki vitundarsamband við almættið heldur kaldur bjór og íslensk rapptónlist. Og sá að hér eru þjáningarnar þetta eitt … að leiðast.

Segja má að hér hafi verið boðið upp á sjálfspíslarstund fyrir hugleysingja.

Ég vil leyfa mér að fullyrða að fátt sé fólki hollara en að leiðast. Að þurfa að hafa ofan af fyrir sér sjálfur, að hafa um stund ekki aðgang að neinu fáfengilegu til að dreifa athyglinni. Að hafa ekkert annað að gera en að hugsa … sinn gang. Hugleiða lífið og tilveruna, hið mannlega hlutskipti … og dauðann. Er það kannski vitund okkar um dauðleika okkar sjálfra sem gerir okkur svo hrædd við lífið að hver stund, sem ekki er full af einhverju til að dreifa huganum frá því, er þjáning?

Ekkert okkar kemst í gegn um lífið án sorgar og harms. Þessu er ekki skammtað jafnt eða réttlátlega frekar en öðru, en enginn sem ekki er siðblindur og kemst til vits og ára getur vænst þess að vera alveg laus við slíkt allt til dauða. Hvernig búum við okkur undir þær óhjákvæmlegu stundir? Svona? Er þessi lífsafstaða – eða lífsafstöðuleysi – til þess fallið að auðvelda okkur að takast á við myrkrið þegar það skellur á? Stælir þetta okkur og styrkir til að bera harm þegar hann knýr dyra í lífi okkar? Til að kveðja lífið þegar þar að kemur?

Það held ég ekki.

Við verðum að gefa myrkrinu pláss. Við getum ekki sminkað yfir það og látið eins og það sé ekki til, við getum ekki hraðspólað yfir það, við getum ekki drekkt því í köldum bjór og tónlist … ekki einu sinni því besta í íslensku rappi.

Ljós og myrkur

 Við verðum að þora að horfast í augu við myrkirið.

Og við getum gert það óhrædd af því að við erum ekki föst í föstudeginum langa.

Við eigum páskana.

Við vitum að vonin í brjósti okkar, hve grimmilega sem reynt er að murka lífið úr henni, hve miskunnarlaust sem hún er krossfest fyrir augunum á okkur, af vondum mönnum eða duttlungum örlaga sem skeyta engu um sálarlíf okkar eða tilfinningar … við vitum að hún rís upp frá dauðum.

Hinn kristni maður, sem hefur frelsarann upprisinn í hjarta sér, veit á myrkustu Golgata-stundum lífs síns að páskadagsmorgunninn er framundan, hve órafjarlægur sem hann kann að virðast á því augnabliki.

Myrkrið kemur. Það er þarna. Það er ekki að fara neitt. Öll heimsins afþreying mun ekki stökkva því á flótta, alveg sama hve við reynum af mikilli örvæntingu að fylla hverja stund lífs okkar af hverju sem er til að beina athygli okkar frá því, til að dreifa huganum, til að láta eins og það sé ekki þarna, komi okkur ekki við. Til að þurfa ekki að gangast við því sem hluta mannlegrar tilveru. Það bíður okkar allra.

Þegar konurnar koma að gröfinni í guðspjalli dagsins til að smyrja lík Jesú bíður þeirra ekkert lík. Þess í stað mæta þær ungum manni sem segir við þær: „Skelfist eigi.“ Þetta eru skilaboð páskanna: „Skelfist eigi.“

Við getum horfst óhrædd í augu við myrkrið af því að við höfum ljós lífsins í hjarta okkar. Og það verður ekki drepið. Engin krossfesting ræður niðurlögum þess. Það rís alltaf upp aftur.

Kristur er upprisinn.

Kristur er sannarlega upprisinn.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju í hátíðarmessu á páskadag 1. apríl 2018

Davíð Þór Jónsson
Latest posts by Davíð Þór Jónsson (see all)
1,629