trusted online casino malaysia
Guðmundur Gunnarsson 03/05/2014

Kárahnjúkaósóminn

Þegar Landsvirkjun ákvað að ganga til samninga við Impregilo bentu Íslensk verktakafyrirtæki og forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar ítrekað á að tilboðið stæðist enga skoðun, enda væri það langt undir öllum áætlunum. Sýnt var fram á að það væri ekki hægt að reisa virkjunina fyrir þá upphæð sem ítalirnir buðu og augljóst væri að hér væri ætlunin að nýta erlent verkafólk á Síberíulaunum og byggja svo restina á bakkröfum („claimum“).

Því var haldið fram að þegar upp yrði staðið kæmi ljós að Ítalirnir myndu fá töluvert meira en íslensku fyrirtækin hefðu boðið í verkið, sem var nálægt verðmati. Virkjunin væri í raun ekki arðbær eins haldið væri fram að ráðherrum. Þessu var alfarið hafnað af þeim, þá sérstaklega ráðherrum Framsóknarflokksins. Halldór Ásgrímsson steig fram í fjölmiðlum að þakkaði Ítölunum fyrir sérstaka gæsku í garð íslendinga fyrir að taka verkefnið að sér fyrir þessa upphæð og gera það um leið arðbært.

Halldór ásamt meðráðherrum sínum tóku síðan allt eftirlitskerfi vinnueftirlitsins, brunaeftirlitsins og heilbrigðiseftirlitsins úr sambandi og Ítalirnir óðu hér uppi eins og þekkt varð. Allir opinberir starfsmenn sem komu að þessu máli sýndu í raun ómælanlega mannvonsku við þessar framkvæmdir.

Á meðan 5.000 íslendingar gengu atvinnulausir um göturnar voru fluttir til landsins fleiri þúsund erlendir verkamenn frá láglaunasvæðum. Fyrirtækið ásamt íslenskum eftirlitsstofnunum gerðu hins vegar þá kröfu til íslendinga að þeir sæktu dýr námskeið til þess að geta tekið meirapróf og sótt sér tilskilin vinnuvélaréttindi eða þeir væru löggiltir iðnaðarmenn. Íslenskum fyrirtækjum var gert að búa sínum starfsmönnum lágmarksaðbúnað og tryggja öryggi þeirra á vinnustað.

Starfsmönnum stéttarfélaga var hins vegar gert að sitja undir ónotum frá ráðherrum og forsvarsmönnum opinberra eftirlitsstofnana og Landsvirkjunar. Steininn tók úr þegar stjórnarformaður Landsvirkjunar gekk fram í fjölmiðlum og bar á stéttarfélögin og íslendinga almennt að þeir séu ósanngjarnir í garð hins erlenda verktaka, sem sannanlega gekk hér um og þverbraut öll lög. Halldór Ásgrímsson gerði sér sérstaka ferð upp á vinnusvæðið og lýsti vinnubúðunum sem þeim glæsilegustu sem reistar hefðu verið í heiminum og hann ásamt eiginkonu sinni gæti vel hugsað sér að búa þarna. Annað átti nú eftir að koma í ljós, og hinum erlendum láglaunamönnum var gert að búa í húsum sem hvorki héldi vatni né vind upp á alversta veðrasvæði íslenska hálendisins. Þvílík mannvonska.

Ráðherrar komu fram í fjölmiðlum og margþökkuðu sérstaklega hinu þessu erlenda fyrirtæki fyrir að hafa komið hingað. Fyrirtækið var þá orðið uppvíst af því að flytja hingað erlent launafólk og greiða því laun sem voru langt neðan öll lögleg lágmörk. Í efnahagslegum áætlunum var gert ráð fyrir að hlutfall íslenskra starfsmanna við Kárahnjúka væri um 80% en það hlutfall varð í raun einungis um 20-30%.

Íslensk lög og reglugerðir um starfsréttindi og öryggismál voru þverbrotin. Landsvirkjun lét gera glansmynd fyrir sjónvarpið þar sem sneitt var hjá öllu hinu versta, en starfsmönnum stéttarfélaga og trúnaðarmönnum lýst sem ósanngjörnum lygurum.

Í landinu voru þúsundir manna í störfum sem ekki höfði tilskilin réttindi, óku réttindalausir um á stórum vinnuvélum. Öll framkvæmdin var í raun ekkert annað en aðför að innlendu atvinnulífi. Íslensk fyrirtæki sem reyndu að standa skil á sínu við sína íslensku starfsmenn og gagnvart íslensku samfélagi, var hins vegar af ráðherrum og Landsvirkjun gert ómögulegt að stunda sinn atvinnurekstur sakir þess að þeim er gert að uppfylla margskonar skyldur sem eru í íslenskum lögum á meðan erlendu fyrirtæki er hjálpað til þess að þverbrjóta allt sem á vegi þess verður og fyrirtækinu voru fluttar sérstakar þakkir fyrir að gera það.

Landsvirkjun varð illilega á í messunni þegar þeir gerðu samning við hin erlenda verktaka. Allt sem starfsmenn verkalýðsfélaganna spáðu til um heildarkostnað stóðst og verkið fór 50 – 70% fram úr áætlunum, eða vel yfir milljarð kóna.

Í stað þess að viðurkenna það og lagfæra mistökin sem gerð voru með samningnum við hið ítalska fyrirtæki, réðust ráðherrar, forsvarsmenn opinberra stofnana og talsmenn Landsvirkjunar á íslenska launamenn og samtök þeirra, íslensk fyrirtæki, íslensk starfsréttindi, íslenskt starfsmenntakerfi, íslensk samfélag og reyndu með öllum tiltækum ráðum að réttlæta gjörðir sínar þegar þeir færðu íslenskan vinnumarkað niður á lægsta plan.

En sannleikurinn kemur alltaf upp á yfirborðið, en stundum tekur það alllangan tíma. Halldór Ásgrímsson og meðráðherra hans yrðu menn að meiri ef þeir bæðu íslenska þjóð afsökunar á framferði sínu í Kárahnjúkum.

Þess skal getið að undirritaður var á vinnusvæðinu reglulega allan byggingartímann í slagsmálum við verktakann, opinbera eftirlitsmenn og lögmenn starfsmannaleiga á svæðinu mörg af þeim gögnum verða birt í bók sem er í smíðum.

Flokkun : Pistlar
1,443