trusted online casino malaysia
Guðmundur Gunnarsson 27/03/2016

Kæri Landsbanki efnaðra íslendinga

Forsætisráðherra segir í viðtali við sjálfan sig í dag að Landsbanki Íslands hafi ráðlagt honum og konu hans ásamt öðru efnafólki að flytja eignir sínar úr hinu íslenska krónuefnahagskerfi yfir á Tortólareikninga. Þetta sé bara daglegt venjulegt brauð á borðum ráðgjafa bankanna.Landsbankinn

Hvers vegna ráðlagði Landsbankinn ekki öðrum venjulegum íslendingum að gera slíkt hið sama

Ég kynntist allmörgum í starfi mínu innnan verkalýðshreyfingarinnar sem töpuðu aleigunni og öllum sínum lífeyrissjóð á grundvelli þess að Landsbankinn ráðlagði þessum viðskiptavinum sínum, sem reyndar voru ekki efnafólk, að leggja alla sína peninga inn á krónureikninga í Landsbanka allra íslendinga og kaupa þar að auki hlutabréf í Landsbanka íslendinga.

Allt það fé varð einskis virði nokkrum dögum eftir að helstu eigendur Landsbanka íslendinga náðu til sín öllum erlendum eigum Seðlabanka íslendinga ásamt því að sækja það fast að fá til viðbótar 500 milljarða af eignum lífeyrissjóða launamanna, og fluttu fé sitt þannig yfir á erlenda reikninga á Tortóla. En síðan var okkur venjulegum íslendingum, sem höfðum reyndar unnið okkur það til saka að vera ekki efnafólk, gert að greiða allan þennan kostnað í gegnum skatta og 72% gengisfellingu íslensku krónunnar. Sem er eins og forsætisráðherra íslendinga, kannski sérstaklega þeirra sem eru miklir efnamenn, sagði í opinberu viðtali við konu sína sem hann birti í dag.

Hvers vegna fengu sumir efnaðir íslendingar allt öðru vísi ráðgjöf hjá Landsbanka allra íslendinga?

Hvers vegna ráðlagði forsætisráðherra íslendinga, sem sagði okkur í dag í viðtali við sjálfan sig og konu sína, að hann hefði verið að berjast fyrir okkur, en gætti þess ekki að segja okkur slíkt hið sama „vegna hugsanlegs siðferðisbrests!!??“ að við ættum að gera slíkt hið sama og hann gerði sjálfur. Það er að flytja alla peninga okkar úr krónuhagkerfinu.

Hins vegar gerði hann allt sem í hans valdi stóð til þess að koma í veg fyrir að við þetta venjulega fólk, og vorum ekki efnafólk, gætum gert slíkt hið sama?

Nú liggja fyrir spár um að krónan falli umtalsvert á næsta ári. Hvers vegna megum við ekki flytja okkar eignir úr krónuhagkerfinu eins og forsætisráðherra fékk að gera eftir sérstökum ráðleggingum Landsbanka allra íslendinga?

Ég spyr Landsbanka allra íslendinga: „Er hann ekki tilbúinn að flytja allan lífeyrissjóð minn og aðrar eigur úr krónukerfinu yfir til Tortóla?“

Ef svo er ekki, „Hvers vegna á ég að búa við annan veruleika en forsætisráðherra allra íslendinga og aðrir efnamenn, svo notað sé orðalag forsætisráðherra allra íslendinga?“

Hvers vegna lokar Landsbanki Íslands ekki sinni starfsemi nú þegar eftir páska sakir þess að ljóst er að hann starfar einungis með það að markmiði að verja hagsmuni efnamanna, eins og forsætisráðherra Íslands rakti ítarlega í viðtali við sjálfan sig í dag?

Er ekki kominn tími til að við losum okkur við ríkisstjórn sem hugsar einungis um hagsmuni milljarðamæringa og er jafnframt stjórnað af milljarðamæringum?

Forsætisráðherra sem hafnar því alfarið að ræða við Ríkisútvarp allra íslendinga, sakir þess að hans mati þá spyr sú stofnun óþægilegra spurninga.

Það er útilokað að Sigmundur Davíð hafi svona slaka spunadoktora. Þeir eru greinilega að vinna í fullkomlega tapaðri stöðu. Málið allt lyktar af siðblindu og hroka. Eins og raunar mörg önnur mál sem hafa streymt upp á yfirborðið undanfarin misseri í stjórnmálum og viðskiptalífinu. Með þessum vinnubrögðum mun ekki takast að byggja upp það traust sem okkur vantar svo sárlega í samfélag okkar.

Það er orðið til þess að ungt menntað fólk langar ekki til þess að flytja heim. Hér ríkir reiði og svo mikill sársauki vegna óprúttinnar hegðunar stjórnmálamanna gagnvart þjóðinni. Það er ekkert sem bendir til þess að leiðandi aðilar í stjórnmálum og viðskiptalífi hafi þá auðmýkt til að bera sem nauðsynleg er og felst fyrst og síðast í því að veita fúslega allar upplýsingar, viðurkenna mistök og axla ábyrgð.

———-

[Viðbót frá ritstjóra Herðubreiðar: Upplýsingafulltrúi Landsbankans vill koma svohljóðandi athugasemd á framfæri við lesendur: „Sú starfsemi sem lýst er í greininni tengdist Landsbanka Íslands hf. en rekstri hans lauk 6. október 2008. Landsbankinn hf. var stofnaður 7. október 2008.“ – Heila þökk fyrir áminninguna og hughreystinguna.]

Flokkun : Pistlar
1,322