Ísland og Grikkland
Umræðan í Evrópu upp á síðkastið um skuldamál Grikklands er um margt áhugaverð frá íslensku sjónarhorni.
Eitt er að báðar þjóðirnar stóðu andspænis þeim kalda veruleika í fjármálakreppunni að glata fjárhagslegu sjálfstæði sínu að því leyti að þær neyddust til að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og vina- og bandalagsþjóða í Evrópu um lánafyrirgreiðslu. Því fylgdi aftur að báðar urðu þær, reyndar í misríkum mæli, að undirgangast ströng skilyrði um aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum.
Samkomulagið um björgunaráætlunina við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn var gert skömmu eftir hrun 2008. Áætlunin fól í sér umfangsmestu íhaldsráðstafanir í fjármálum sem gerðar hafa verið á Íslandi. Hún gilti þó aðeins til ársins 2011.
Forystumenn VG snerust gegn áætluninni í byrjun. Eftir gríðarlegan kosningasigur nokkrum mánuðum seinna varð þáverandi formaður VG fjármálaráðherra. Hann axlaði á hinn bóginn þá ábyrgð vafningalaust að hrinda áætluninni um íhaldsúrræðin í framkvæmd. Það tókst ágætlega í öllum aðalatriðum.
Engum dylst nú að markviss framkvæmd þessarar sameiginlegu björgunaráætlunar réði úrslitum um hægfara bata í þjóðarbúskapnum. Mistökin voru að halda ekki þessu samstarfi áfram.
Ný forysta Framsóknar lagði til ásamt þeim sem lengst voru til vinstri í VG að samkomulaginu yrði rift í miðjum klíðum. Það náði ekki fram að ganga. En þetta sýnir að andstaða við að gangast undir skilyrði þeirra sem lánafyrirgreiðslu veita er rík hér eins og í Grikklandi.
Munurinn er kannski sá að við ríkisstjórnarborðið var vinstri vængurinn hér ábyrgari en í Grikklandi. Hann kom alltént í verk þeim skilyrðum sem fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins og formaður bankastjórnar Seðlabankans höfðu fallist á gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
Vinir eða óvinir?
Annað atriði sem vert er að skoða frá íslensku sjónarhorni er afstaða til bandalagsþjóðanna. Eru þær vinir eða óvinir þegar á reynir?
Í kosningabaráttunni stilltu grískir vinstri menn ráðamönnum Þýskalands og Evrópusambandsins upp sem óvinum þjóðarinnar. Hér heima endurómuðu svo talsmenn andstöðunnar við aðildarumsóknina þetta viðhorf grísku vinstri stjórnarinnar.
Trúlega er margt til í því að Grikkjum hafi að ákveðnu marki verið sett of ströng skilyrði í byrjun. Um sumt sættu þeir harðari kostum en Ísland; einkum þó fyrir þá sök að þeir voru dýpra sokknir. En um annað var lánafyrirgreiðslan til þeirra mun mildari en sú sem við nutum.
Athyglisvert er til að mynda að skuldir gríska ríkissjóðsins eru um áttatíu hundraðshlutum hærri en ríkissjóðs Íslands í hlutfalli við landsframleiðslu. Eigi að síður eru vaxtaútgjöld ríkissjóðs Grikklands fjörutíu hundraðshlutum lægri en vaxtagreiðslur ríkissjóðsins okkar.
Hvað sem líður þeirri óvinaímynd sem grískir vinstri menn og andstæðingar Evrópusambandsaðildar á Íslandi hafa teiknað sýna þessar tölulegu staðreyndir að Grikkir hafa notið aðildar að evrópska myntbandalaginu í afar hagstæðum lánakjörum. Óvinakenningin rímar því ekki í einu og öllu við veruleikann.
Eftir samkomulagið við Evrópusambandið á föstudaginn í fyrri viku fóru grísku ráðherrarnir að tala um mikilvægi þess að vinna með vinum og bandamönnum í Evrópusambandinu. Hvað það endist veit enginn. Og hitt er sama gátan hversu lengi gríska vinstri stjórnin verður haldreipi fyrir andstæðinga Evrópusambandsaðildar hér heima.
Er unnt að kjósa skuldavandann burt?
Þriðja atriðið í þessu samhengi sem vert er að skoða er lýðskrum af því tagi að gera megi út um skuldir í kosningum.
Í þingkosningunum í Grikklandi á dögunum lofuðu vinstri menn að þurrka út skuldirnar að stórum hluta og skilyrðin sem fylgt höfðu lánafyrirgreiðslu til landsins. Grískir kjósendur bitu á agnið.
Verkurinn var aftur á móti sá að það voru kjósendur þeirra ríkisstjórna sem veitt höfðu Grikkjum lán sem höfðu umboð til að afskrifa lánin og falla frá skilyrðunum eða breyta þeim. Segja má að gríska stjórnin hafi verið býsna fljót að viðurkenna þetta lögmál í samskiptum fullvalda ríkja. Það er lofsvert.
Í þjóðaratkvæði um síðasta Icesave-samninginn snerist forseti Íslands og Framsókn gegn þeirri ákvörðun sem þáverandi ríkisstjórn og þingflokkur sjálfstæðismanna tóku á Alþingi. Þjóðin keypti einfaldlega það loforð að kjósa mætti það mál út af borðinu.
Veruleikinn var hins vegar sá að kröfuhafarnir höfðu veð í eignum skattgreiðenda í Landsbankanum. Landsbankinn í eigu ríkissjóðs samdi svo undir lok síðasta árs um þessar greiðslur. Þjóðaratkvæðagreiðslan hafði fyrst og fremst þá þýðingu að færa verkefnið af einu skrifborði yfir á annað í eigu ríkissjóðs.
Gríska ríkisstjórnin hefur vissulega náð fram meira svigrúmi en hún hafði. En hún rembist við að halda hinu að kjósendum sínum að þeir hafi með atkvæðum sínum lækkað skuldir og upphafið lánaskilyrði. Þessu er svipað háttað hér heima þar sem enn er verið að halda því fram að skuldum hafi verið eytt í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Í báðum ríkjum hefur mörgum reynst erfitt að horfast í augu við veruleikann.
Þorsteinn Pálsson, Hringbraut, 26. febrúar 2015
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021