trusted online casino malaysia
Gestastofa 02/05/2014

Hver dagur skiptir máli

Eftir Róbert MarshallRóbert Marshall

Það var einhver, veit ekki hver, sem kom alveg upp að mér í hvert skipti sem ég rumskaði og hvíslaði að mér að ég hefði lent í slysi,  farið í aðgerð og væri að vakna.  Það er ógnvænleg tilfinning að vakna úr djúpri svæfingu, í öndunarvél, og vita ekki hvar maður er staddur í veröldinni. Ég held að sú sem sat við rúmið mitt hafi kannski komið til mín þrisvar eða fjórum sinnum meðan ég var að vakna og sett mig inní stöðu mála. Og gerði það af alúð og væntumþykju.

Þetta voru 17 beinbrot og þrjú sködduð líffæri með tilheyrandi innvortis blæðingum. Læknar segja mér að gott líkamlegt form hafi skipt sköpum í slysinu og varnað því að ekki fór verr. Styttir líka bataveginn. Það er rétt, ég hleyp, syndi, hjóla og geng á fjöll. Æfi í Mjölni; heillaðist þar af blöndu af bardagalistum í bland við æfingar með eigin líkamsþunga og ketilbjöllur. Allt miðast þar við að styrkja kjarnann. Styrkja magavöðva og bak. Búa til góða snerpu, þol, styrk og liðleika.

Mest heillaðist ég af smitandi ákefð og ástríðu þjálfaranna þar. Sífellt að spá í nýjar æfingar. Alltaf að breyta og bæta. Passjón fyrir starfinu, hvert sem það er, hefur alltaf heillað mig. Fólk sem brennur fyrir því sem það er að gera. Það finnst mér fallegt. Þannig voru kennararnir á Sólborg, þar sem þrjú yngstu börnin mín voru í leikskóla. Þeir vildu vita hvernig börnin hefðu hagað sér saman í afmælum í heimahúsum! Þetta voru fagnördar.

Punkturinn? Þessa ákefð, þessa ástríðu, þennan bruna finnurðu á Landspítalanum þegar þú kemur þangað brotinn maður. Jafnvel margbrotnir menn, eins og ég, komast ekki hjá því að finna fyrir andanum sem þarna ríkir. Það er stórt og mikið hjarta sem slær í stóra sjúkrahúsinu okkar. Fólkið sem vinnur þar við ólík störf er sálin í þessari mikilvægu starfsemi. Það er ósköp eðlilegt að fyllast djúpu þakklæti þegar maður slasast það mikið að maður verður algerlega ósjálfbjarga en tilfinning mín fyrir faglegum metnaði sjúkraliða, hjúkrunarfræðinga og lækna ristir dýpra en það.

Sjúkraflutningamennirnir stöldruðu við og leyfðu mér að njóta í smástund svalandi vorloftsins áður en þeir renndu með mig niður á Hringbraut. Hlýtur að hafa verið skrítin sjón; tveir sjúkraflutningamenn  með sjúkling á börum sem teygaði í sig kærkomið ferskt loft eftir þriggja daga dvöl á gjörgæslu. Grafkyrrir undir bláum himni.

– Leyfum honum aðeins , sagði annar þeirra. Svo biðu þeir.

Það er hrikalega vont að aka liggjandi rifbeinsbrotinn milli Fossvogs og Hringbrautar. Leiðinlegt líka að horfa á þakskemmdir út um gluggann á sjúkrastofunni. Hallgrímskirkja í bakgrunni, sjúkrahús í niðurníðslu í forgrunni. Ég fór svo seinna í tvígang með leigubíl og hjúkrunarkonu aftur í Fossvoginn til frekari rannsókna. Undarlegt ferðalag.  Vissuð þið að það fer bíll á milli á kortersfresti allan daginn?

Mér finnst eins og við gætum misst það sem eigum í starfsfólkinu á Landspítalanum ef við förum ekki að taka stórar og ákveðnar ákvarðanir um uppbyggingu á Hringbrautinni. Það er búið að rannsaka þetta og greina í áratugi; hagkvæmast er að byggja þar sem mest er af nýtanlegu húsnæði. Ég óttast að við munum missa hjartað og sálina úr þessari mikilvægu starfsemi ef við ekki tökum afgerandi skref strax. Við þurfum að sýna í verki að við virðum og viljum ýta undir það faglega kapp sem starfsfólk þessarar mikilvægu heilbrigðisstofnunnar sýnir.  Stjórnvöld sýna ábyrgðarleysi með því að láta þetta stóra mál óleyst. Þessari ákvörðun er ekki hægt að ýta á undan sér eins og nú er gert.  Hver dagur án ákvarðana kostar mikla peninga. Hver dagur skiptir máli.

Fyrir okkur sem sem nýtt höfum þjónustu Landspítalans nýlega eða eigum ástvini sem það hafa gert er þýðing hvers nýs dags þar sem við horfum út í vorið með fjölskyldum okkar og hlökkum til sumarsins ekki metin til fjár. Ég vona að ákefðin, ástríðan, liðsheildin, fagmennskan, alúðin og væntumþykjan verði þarna ennþá þegar ríkisstjórnin vaknar. Þú sem beiðst mín þegar ég vaknaði: Takk.

 

Höfundur er alþingismaður

Flokkun : Pistlar
1,711