trusted online casino malaysia
Jón Daníelsson 11/04/2014

Hvar er fjandans kanínan núna?

Oft – en að vísu ekki alltaf – er það eitthvert eitt málefni, sem verður svo stórt í hugum fólks allra síðustu vikurnar fyrir kosningar, að það ræður hreinlega úrslitum. Fyrirbrigðið er algengara fyrir þingkosningar, en þó má einnig nefna dæmi um að tekist hafi að blása út svipaða sápukúlu fyrir sveitarstjórnarkosningar.

Þetta má a.m.k. í sumum tilvikum kalla beinlínis óheiðarlegt, en stærsti gallinn er þó sá að við slíkar aðstæður vilja grundvallaratriðin gleymast. Því auðvitað ættu kosningar að stærstum hluta að snúast um grundvallaratriði, grunnstefnumál, grunngildi bæði flokka og kjósenda. Til dæmis einföld grunngildi á borð við hægri eða vinstri.

Framsóknarmenn hafa verið öðrum fundvísari á svona „sápukúlumál“, mál sem hafa í raun takmarkaða þýðingu en hægt er að blása út í stóra, litfagra kúlu, sem springur ekki fyrr en eftir kosningar. Í fljótu bragði man ég eftir þremur augljósum framsóknarsápukúlum síðustu 20 ár.

1995 lofuðu Framsóknarmenn því að skapa 12.000 ný störf. Þá hafði efnahagslífið verið í nokkurri lægð og atvinnuleysi farið vaxandi. En veturinn 1994-95 var þeirri kreppu lokið og bjart framundan. Það þurfti því tæpast neina spádómsgáfu til að sjá að 10-20 þúsund störf myndu skapast á næstu árum. Engum öðrum datt þó í huga að búa til úr þessu kosningaloforð, en það hreif. Mér er minnisstætt að fyrir kosningarnar 1999 hrósuðu Framsóknarmenn sér mjög af því  að hafa staðið við loforðið – og gott betur. Nýju störfin voru þá orðin 20.000.

2003 kom svo loforðið um 90% íbúðalán. Það loforð virkaði gríðarlega vel. Við þetta loforð var vissulega staðið og reyndar fyrr en til stóð, en þessi lán urðu þó sárafá, enda voru stóru bankarnir stokknir inn á markaðinn og farnir að veita 100% lán.

2007 fannst engin sápukúla. Og ári síðar mátti flokkurinn prísa sig sælan fyrir að hafa hrökklast úr ríkisstjórn.

Svo kom Sigmundur Davíð. Hann gerði snögga leiftursókn að kosningasigri 2009 með því að boða almenna 20% lækkun íbúðalána. Það mistókst þá, en merkilegt nokk tókst honum að blása nokkurn veginn sömu hugmynd upp í 300 milljarða hrægammaveiðar 2013. Nú má segja að sú sápukúla sé sprungin bæði framan í hann og kjósendur.

Framundan eru sveitarstjórnarkosningar. Hvergi virðist blása tiltakanlega góður byr í segl Framsóknarflokksins. En hvergi er ástandið þó jafn skelfilegt og í Reykjavík, þar sem flokkurinn átti þó fulltrúa svo lengi sem elstu menn muna og til 2010. Hafi einhvern tíma verið þörf fyrir að finna kanínu í hatti, er það núna.

Dauðaleit stendur yfir, bæði að kanínunni og töframanninum sjálfum.

Flokkun : Pistlar
1,453