trusted online casino malaysia
Karl Th. Birgisson 03/06/2014

Hryggð, en ekki óvild

Stundum er ástæða til að rifja upp hugsanir. Það fer eftir gagnsemi þeirra og skírskotun.

Ég ætla að birta hér lungann úr grein sem ég skrifaði í lok september 2013. Þankarnir eru ekki mínir, heldur endursögn á samtali við góðan bandarískan vin minn og fyrrum prófessor, doktor frá Harvard upp úr 1970, sem var að tala um Tepokahreyfinguna þar í landi. Ítem:

„Hann byrjaði á að rifja upp tilvitnun: Þegar fasisminn kemur til Ameríku verður hann sveipaður fánanum og með kross í hönd.

Og hann hafði þetta að segja um fólkið í Tepokahreyfingunni: Þau eru ómenntaðir, illa upplýstir rasistar, sem daðra við fasisma án þess að gera sér grein fyrir því.

Þau hafna ekki bara almennri skynsemi og rökum, þau hafna staðreyndum, þau afneita vísindalegum aðferðum og þekkingarleit, þau taka trúarkreddur fram yfir margreynd sannindi og það sem blasir við allra augum allt í kring.

Ef illa gengur fjárhagslega kenna þau utanaðkomandi um, sérstaklega útlendingum og fólki sem er ekki eins og þau. Þau segjast aðhyllast einstaklingshyggju, en hegða sér eins og hjarðdýr.

Þau skilja ekki hvers vegna grundvallarmannréttindi eru nauðsynleg, fyrir alla, ekki bara fólk af þeirra eigin sauðahúsi.

Hann var kominn á flug, svo að nú greip nemandinn fram í: Ómenntuð? Hvað áttu við? Hvers lags menntasnobb er þetta eiginlega?

Svarið kom um hæl: Það er hægt að sitja á skólabekk árum saman án þess að menntast. Þú getur verið sprenglærður lögfræðingur, kunnað heilu lagabálkana, dómafordæmi, lögjöfnun og hvað þetta heitir. Það er samt bara þekking, ekki menntun.

Þú getur haft doktorspróf í verkfræði og skilið allar heimsins stærðfræðijöfnur. Það er samt bara kunnátta, ekki menntun.

Ljónið veit hvernig á að veiða og drepa bráðina. Ljónið veit hins vegar ekki hvers vegna bráðin fer niður að vatninu eftir að rignt hefur. Það veit enn síður hvers vegna rignir.

Það er munurinn á kunnáttu og menntun.

Menntun felst í því að setja þekkingu í samhengi, að raða saman ólíkri vitneskju úr tíma og rúmi, að skilja samhengi atburða og hegðunar, ekki bara frá í gær, heldur fyrir tíu árum, hundrað árum og þúsund árum.

Í Tepokahreyfingunni er fjöldi langskólagenginna lögfræðinga, en þeir eru samt ómenntað hyski. Fasistarnir vissu þó hvað þeir voru að gera. Þetta fólk skilur ekki hvað það er að gera í sínum fasisma og rasisma.

Nú verður nemandinn að andmæla aftur: Rasistar? Það eru varla nokkur merki um rasisma hjá Tepokafólkinu, og er mér þó illa við að verja það sérstaklega.

Það er nokkurn veginn rétt, er svarið. Við hérna megin hafs erum eiginlega alveg hætt að tala um svertingja sem orsök allra okkar meina. Við höfum það fram yfir ykkur í Evrópu, sem eruð ennþá – sum ykkar – að ofsækja gyðingana.

Tungutak okkar er breytt. Undirmálsfólkið getur ekki lengur kennt blökkufólki um eigin vanlíðan,  svo að núna tölum við um ólöglega innflytjendur og bótaþega. Og samkynhneigða. Og yfirleitt flesta minnihlutahópa.

Svo höfum við bætt múslimunum við. Það var mikil himnasending. Án þeirra hefðum við bara fátækt fólk að óvinum, innan landamæra og utan.

Og ætlastu svo til þess, Kalli minn, að ég sé sérstaklega upprifinn yfir þessari veröld og fólkinu sem byggir hana?

Það vill svo til, ágætu lesendur, að ég veit að mínum gamla vini þykir vænt um veröldina. Þess vegna er honum svona mikið niðri fyrir. Og þess vegna endurspegla þessir dómar hans frekar hryggð en óvild í garð þeirra sem hann lýsir svo.

En ég neita því ekki, að undir samræðunum varð mér reglulega hugsað heim.

Hvert og til hverra læt ég liggja milli hluta.“

Og já, þetta var – vel að merkja – skrifað í september 2013.

1,280