trusted online casino malaysia
Gestastofa 29/04/2014

Hreppaflutningar

Eftir Úlfar Þormóðsson 

Stórútgerðarmenn ráða öllu sem þeim þeir vilja í samfélaginu. Þeir falsa aflatölur, hlunnfara sjómenn og helst það uppi því að ráðherrar og fjöldi þingmanna fékk fjárstyrk frá þeim í alþingiskosningum og skuldar þeim kærar þakkir fyrir. Þeir neita að borga sanngjarnt veiðileyfagjald í ríkissjóð og þjónar þeirra stökkva til og breyta lögum til þess að svo megi verða.

Þessa daga er þarf ein grindvísk stórútgerð ekki lengur á því að halda að gera út frá Austfjörðum, Vestfjörðum og Norðurlandi. Hún er búin að „eignast“ þann kvóta sem hún sóttist eftir og þar var að hafa. Hún fer með hann suður og ætlar einvörðungu að gera út frá Grindavík. Í kristilegu góðmennskukasti bjóða þeir landsbyggðarfólkinu vinnu syðra. Tugir manns munu sæta hreppaflutningum úr einum stað í annan. Byggðir munu veslast upp, fátækt aukast en afkoma útgerðarinnar batna.

Þegar haustar munu þeir kvarta yfir því að fá ekki nógu margar krónur fyrir fiskinn á erlendum mörkuðum. Þeir munu hóta því að fara á hausinn nema gengi krónunnar verði „leiðrétt“. Og þeir munu fá sínu framgengt með þeim fyrirvara sem nægir þeim til þess að greiða fyrst af erlendu lánunum. Svo fáum við gengisfellingu í andlitið, við þessi verðlausi múgur.

Ríkisstjórnin aðstoðar þá. Þeir efndu í hana. Þeir eiga hana. Og þannig mun það verða áfram á meðan óbreytt kvótakerfi er við lýði, á meðan við látum þá flytja okkur hreppaflutningum átölulaust, á meðan við kjósum frambjóðendur þeirra til áhrifa í samfélaginu.

Flokkun : Pistlar
1,565