trusted online casino malaysia
Karl Th. Birgisson 28/04/2018

Helvítis merin

Soldið sérstök auglýsing hefur glumið í útvarpinu mínu síðustu daga.

Hún hefst á hneggi.

Í kjölfarið fylgir texti sem er nokkurn veginn svona – „Taktu merina með til að skoða nýjan bíl hjá okkur. BE bílar.“

Sniðugt, hugsaði ég fyrst, að höfða svona sérstaklega til hestamanna. Þeir eru margir og taka áreiðanlega eftir því þegar þeir eru ávarpaðir svona beint.

En auðvitað er það ekkert svoleiðis. BE bílar eru að tala um konur eða kærustur viðskiptavinanna, sem þeir virðast gera ráð fyrir að séu karlkyns.

Og hvað er nú sérstakt við það? Að lágmarki þrennt.

Fyrst er að þeir eigendur fyrirtækja séu enn til – eftir allt sem á undan er gengið – sem finnst boðlegt eða jafnvel fyndið (ímynda ég mér) að kalla konur merar í auglýsingum.

Í öðru lagi að sá kúnnahópur sé ennþá til sem kaupir þessa hugmynd. Því að varla hefðu BE bílar búið til svona auglýsingu ef þeir héldu ekki að hún virkaði? Þeir hljóta að þekkja viðskiptavini sína og vita hvað höfðar til þeirra.

Í þriðja og hugsanlega alvarlegasta lagi, þá hef ég heyrt bara þessa auglýsingu í Ríkisútvarpinu. Nú nenni ég ekki að grafa á vef Ríkisútvarpsins eftir einhvers konar siðareglum eða viðmiðum um hvað telst boðlegt að bera fram í auglýsingum. Ef þær eru ekki til (sem ég vona), þá ætti að búa þær til og það snarlega.

Og segja svo bara nei, takk samt, næst þegar BE bílar hringja. Einmitt eftir allt sem á undan er gengið, árum og áratugum saman.

Nú heyri ég eigendur BE bíla hrópa „Ritskoðun! Ritskoðun!“ sem viðbrögð við þessari tillögu.

Ónei (og þeir eru síðastir til að vera fórnarlömb í þessari heimsku og smekkleysu). Auglýsingamarkaðurinn er sem betur fer frjáls og ef BE bílum þykir bráðnauðsynlegt að búa til auglýsingar, þar sem karlmenn eru hvattir til að taka merarnar sínar með á bílasöluna, þá er sem betur fer nóg af öðrum útvarpsstöðvum í landinu.

BE bílar geta farið með dónaskapinn annað.

Ríkisútvarpið á ekki að taka þátt í því. Það á að vera miklu stærra og merkilegra en svo.

Miklu stærra en litlu karlarnir hjá BE bílum.

1,717