trusted online casino malaysia
Gestastofa 07/12/2014

Heimspakur maður í erindum

Jón Steinar GunnlaugssonEftir Jón Steinar Gunnlaugsson

Jón Ólafsson heimspekingur skrifar grein á netsíðu Herðubreiðar 6. desember þar sem hann gerir mig og bók mína „Í krafti sannfæringar“ að umræðuefni. Kveðst hann vera með „tvö komment“ um bókina. Mér sýnist að athugasemdir hans megi greina að minnsta kosti í „fimm komment“ og séu þessar:

  1. Ég hafi á köflum „einfeldningsleg viðhorf“, sem þó séu skýr og oftast fyrirsjáanleg. Sannfæring mín sé að í hverju dómsmáli sé ein (og aðeins ein) rétt niðurstaða.
  2. Þá telur hann mig, meðan ég var málflytjandi, aldrei hafa tekið að mér mál nema hafa verið sannfærður um réttmæti málstaðar þess sem ég fór með málið fyrir. Virðist hann draga þessa ályktun af nafni bókar minnar!
  3. Hann telur mig á rangri braut þegar ég hef sagt að dómarar þurfi að gæta sín á að láta ekki tímabundin viðhorf í samfélaginu hafa áhrif á dóma sína. Þetta sé ekkert minna en fáránleg afstaða!
  4. Þá sýnist mér hann gagnrýna mig fyrir að hafa sagt að reglan um að menn skuli teljast saklausir þar til sekt sannast sé ekki bara lagaregla, sem eigi að leiða til sýknu sakargifta fyrir dómi, heldur sé þetta einnig siðaregla sem okkur beri að beita í samskiptum okkar almennt.
  5. Ég sé raupsamur í bókinni og fylli bókina með löngum tilvitnunum í sjálfan mig og aðra. Ég hafi óþarflega mikla tilhneigingu til að lýsa málstað andstæðinga minna með háði.

Ég hef í einhver skipti á ævi minni átt í orðaskiptum við heimspekinga. Það ætti að teljast meginkrafa til heimspekings að hann hugsi skýrt. Reynsla mín af þeim sem ég hef átt orðastað við er hreint ekki sú. Mér finnst þeir hafa hugsað óskýrt. Vonandi eru þetta undantekningarnar sem sanna regluna. Þessir viðmælendur mínir hafa haft tilhneigingu til að gera það sem háskólamenn og fræðimenn ættu aldrei að gera. Þá á ég við að afflytja málsstað viðmælanda síns svo að betur henti svarinu. Þetta gerist Jón Ólafsson heimspekingur svo sannarlega sekur um í greininni á Herðubreið. Það er líkast því að hann hafi sjálfur alls ekki lesið bók mína. Mig grunar að hann fjalli um það sem hann heldur að standi í henni. Raunar verður ekki séð af skrifum hans að þau séu drifin áfram af sjálfstæðri málefnalegri hvöt höfundarins til að láta málið til sín taka. Þetta er meira eins og erindrekstur. Slíkt sést oftast á svona skrifum. Lítum nánar á málið.

———-

Um. 1. Þar sem heimspekingurinn er að fjalla um efni bókar minnar er réttast að birta hér kafla úr henni þar sem ég geri grein fyrir hinum einfeldningslegu viðhorfum mínum, sem hann nefnir svo; sjá hér fyrst bls. 48-49 og svo nánari umfjöllun á bls. 131-133 í bókinni.

Bls. 48-49:

„Í umræðum íslenskra lögfræðinga um réttarheimildir og starfsemi dómstóla hef ég sagt að menn verði ávallt að ganga út frá því að einungis ein niðurstaða sé rétt í dómsmálinu. Réttarheimildin, sem beita beri, hafi verið til þegar atvik málsins urðu. Málið snúist um að finna hana og beita henni til úrlausnar á ágreiningi málsaðila. Ganga verði út frá því við leitina að ein niðurstaða sé rétt. Dómarinn megi aldrei telja sér trú um að hann eigi val milli fleiri kosta. Raunar hljóta þeir sem telja hann eiga slíkt val að þurfa þá að gera grein fyrir þeim sjónarmiðum sem þeir telja að honum beri að beita við valið, nema þeir telji hann eiga „frjálst“ val. Það er að mínum dómi undarlegt ef skoðanir um þetta eru skiptar meðal lögfræðinga, eins augljóst og þetta ætti að vera. Hefur til dæmis einhver einhvern tíma séð í forsendum dóms lýst tveimur jafngóðum niðurstöðum, þar sem dómari hefur klykkt út með því að lýsa yfir því að hann hafi ákveðið að taka aðra fram yfir hina? Auðvitað ekki. Er þetta þá vegna þess að þessi aðferðafræði sé leyndarmál? Má þá dómarinn gera þetta en bara ekki segja frá því? Satt að segja er ótrúlegt að menn skuli heyra alvörugefna lögfræðinga, jafnvel meðal starfandi dómara, láta uppi það sjónarmið að dómarar eigi slíkan valrétt. Það væri raunar beinlínis óheiðarlegt að beita honum án þess að láta þess getið og setja síðan niðurstöðuna í þann búning að hún sé hin eina rétta.

Ég hef ekki legið á skoðunum mínum á þessu. Ég hef aldrei sagt að leitin að hinni einu réttu niðurstöðu sé ávallt auðveld eða kunni ekki að orka tvímælis. Ég hef hins vegar talið afar þýðingarmikið að þeim, sem með dómsvaldið fara, sé ljós sú takmörkun á valdi þeirra sem felst í að leita viðeigandi réttarheimildar en ekki skapa hana. Það getur sjálfsagt verið freistandi fyrir þá sem fara með þjóðfélagsvald á ákveðnu sviði að beita því án þeirra takmarkana sem við eiga. Þannig geta þeir komið fram áhugamálum sínum, hvort sem þau eru af stjórnmálalegum toga eða tengjast persónulegum áhugamálum.“

Á bls. 131-133 er þetta skýrt nánar:

„Af sjálfu leiðir að erfitt getur verið að fást við flókin lögfræðileg úrlausnarefni. Þarf þá einatt að feta sig í gegnum heilmikið efni, þar sem ýmist þarf að leysa úr atriðum sem varða sönnun um atvik máls eða beita réttarreglum í víðum skilningi. Þá kann oft að vera mjótt á munum við mat á því hvaða kostur telst réttur út frá aðferðafræði lögfræðinnar. Viðfangsefni þessi hafa orðið flóknari og erfiðari með tímanum, meðal annars vegna þess að hinn setti réttur teygir sig yfir fleiri svið en áður og geymir iðulega opin ákvæði og óljós, sem erfitt kann að vera að túlka með óyggjandi hætti. Þar kunna líka að vera „eyður“, sem óhjákvæmilegt er að fylla í.

Dómari máls verður að ljúka á það dómi. Hann getur ekki vísað verkefninu frá sér á þeirri forsendu að ekki sé til lagaregla um úrlausnarefnið. Réttarheimildafræði lögfræðinnar gengur líka út á að heimildin sé ávallt til, jafnvel þó að ekki sé unnt að finna setta lagareglu sem við eigi. Þá er gripið til annarra „réttlægri heimilda“, sem nefndar hafa verið meginreglur laga, eðli máls eða jafnvel réttarvitund almennings, allt þar til sú heimild finnst sem talin er eiga við. Réttarheimildirnar eru tæmandi í þessum skilningi.

Dómari, sem fæst við að leysa úr flóknu dómsmáli, kemur iðulega að eins konar vegamótum og þarf þá að ákveða í hvora áttina skuli halda. Skoðun mín er sú, að þá beri honum ávallt að velja þá leið sem hann telur vera réttari út frá lögfræðilegu sjónarmiði, þegar á allt er litið sem máli skiptir. Hann má aldrei reisa afstöðu sína á neinu öðru en þessu. Hann má til dæmis ekki telja sjálfum sér trú um að

í dómsvaldi hans felist vald til að ákveða út frá persónulegum sjónarmiðum hvaða leið skuli fara. Hér getur þó verið hægara um að tala en í að komast, því að alls konar persónuleg sjónarmið manna geta haft áhrif á ákvarðanir þeirra, jafnt í lögfræði sem á öðrum sviðum. Öll réttarheimildafræði hlýtur hins vegar að hafa það markmið að útrýma slíkum viðhorfum.

Fræðigreinin gengur hreinlega út á að kenna hvaða aðferðir séu heimilar til að komast að lögfræðilegum niðurstöðum. Þetta er þáttur í framkvæmd þeirrar meginhugsunar að almennar reglur skuli ráða, óháðar geðþótta einstakra manna. Dómar eigi ekki að ráðast af neinum persónulegum viðhorfum þess eða þeirra dómara sem um fjalla, heldur af almennum hlutlausum lagareglum, sem séu hinar sömu, án tillits til þess hvaða dómari dæmi hverju sinni eða hver bíður dóms.

Ljóst má vera, af því sem hér hefur verið sagt, að menn kann oft að greina á um hina réttu lögfræðilega aðferð og þar með niðurstöðu í einstöku tilviki. Enginn maður getur gengið út frá því að skoðanir hans séu alltaf þær einu réttu. Manni kann að skjátlast, hversu mjög sem hann hefur lagt sig fram við að finna rétta niðurstöðu. Hér erum við komin að því sem ég vil kalla frambærilegan ágreining um lögfræðileg málefni. Slíkur ágreiningur er auðvitað óhjákvæmilegur og í honum felst tilefni flestra ágreiningsmála sem fyrir dómstólana koma. Þjóðfélagið hefur af nauðsyn komið sér upp sérstökum valdastofnunum til að leysa úr slíkum ágreiningi, það er dómstólum, en um leið tekið fram að þeir megi ekki við annað styðjast en lögin í verkum sínum. Eftir að þeir hafa skorið úr er niðurstaðan fengin.

Það á ekki að valda nokkrum manni erfiðleikum að sætta sig við niðurstöðu, þó að hann kunni að vera henni ósammála, ef hún er fundin með aðferðum sem sýnilega fela í sér einlæga viðleitni dómara til að beita réttarheimildum eftir bestu vitund. Og vegna kröfunnar um einingu réttarins gefum við dómum æðsta dómstólsins, Hæstaréttar, sérstakt gildi, sem við köllum fordæmisgildi. Í því felst fyrirheit um að sambærileg úrlausnarefni muni framvegis fá sams konar úrlausn, nema settur réttur hafi breyst í millitíðinni. Augljósa nauðsyn ber líka til þess að þeir dómar Hæstaréttar, sem við kunnum að telja að ekki fullnægi eðlilegum kröfum um beitingu réttarheimilda, hafi líka þetta gildi. Við getum ekki flokkað dómana eftir því hvað okkur finnst um vitið í þeim. Allir hljóta þeir að hafa fordæmisgildi, þó að unnt kunni að vera að hnekkja því í öðru máli síðar.

Ef til vill hafa þessar kringumstæður í réttarkerfinu villt mönnum sýn, þannig að þeir hafi farið að tala um margar jafnréttar niðurstöður í sama lögfræðilega úrlausnarefninu. Eftir að dómsmáli er lokið og dómur fallinn er dómurinn „réttur“ í þeim skilningi að hann er sú úrlausn sem viðeigandi valdastofnun hefur ákveðið. Skiptir þá ekki máli þó að niðurstaðan sé augljóslega byggð á óframbærilegum aðferðum. Dómurinn fær réttaráhrif í samskiptum milli málsaðilanna og raunar einnig þau almennu fordæmisáhrif sem ég nefndi, sé um hæstaréttardóm að ræða. Þetta merkir þó ekki að hætt sé að skipta máli hvernig niðurstaðan var fengin. Þessi formlega staða dómsins, eftir að hann hefur verið kveðinn upp, þýðir ekki að fram að uppkvaðningu hans hafi dómararnir haft frelsi til að velja úr mörgum jafnréttum niðurstöðum. Þá voru þeir vitaskuld bundnir af þeim aðferðum lögfræðinnar um meðferð réttarheimilda sem ég hef lýst hér að framan.“

Lesendur Herðubreiðar geta svo gamnað sér við að meta hversu vel Jóni Ólafssyni heimspekingi tekst upp við lýsingu sína á viðhorfum mínum um þessi málefni. Hann virðist alls ekki hafa lesið það sem ég skrifa. Kannski mætti frekar spyrja heimspekinginn hvort hann sé ósammála því sem hér var tekið upp úr bókinni um aðferðir í lögfræði. Vill hann þá gera grein fyrir því í hverju ágreiningurinn felst? Slík umfjöllun væri fræðimenninum fremur sæmandi en þeir útúrsnúningar og sleggjudómar sem hann birtir í grein sinni.

Í tilefni af ræðu Jóns er kannski rétt að taka fram að viðfangsefni í lögfræði lúta sömu lögmálum hvort sem lögmaður eða dómari fjallar um þau. Munur á starfi þessara lögfræðinga er hins vegar sá að lögmaðurinn reynir að sannfæra dómarann um að niðurstaða í þágu umbjóðandans sé sú eina rétta. Dómarinn tekur svo afstöðu til þess í dómi sínum hvort svo sé. Ég hreinlega skil ekki orðræðu heimspekingsins um mótsögn hjá mér sem þetta varði.

———-

Um 2. Að ég hafi, meðan ég var málflytjandi, aldrei tekið að mér mál nema hafa verið sannfærður um réttmæti málstaðar þess sem ég fór með málið fyrir.

Þetta er kostulegur boðskapur. Hann er rangur. Að vísu reyndi ég að tala menn ofan af því að fara í mál ef ég taldi mál vonlítið, sjá hér til dæmis frásögn á bls. 131 í bók minni. Og fyrir kom að ég vildi ekki taka að mér mál þar sem ég taldi málstaðinn vonlausan. Því miður er of mikið um lögmenn sem tala kappið upp í fólkinu til að fá verkefnið og geta svo skrifað reikning eftir að mál tapast. Í bók minni eru meðal annars nefnd dæmi um mál sem ég tapaði en taldi niðurstöðuna alveg ásættanlega samkvæmt aðferðafræði lögfræðinnar, sjá til dæmis ummæli um H. 2001.2975 á bls 98 í bókinni og um H.2002.4217, sem nefndur er á bls. 250 bókarinnar. Enn er svo að sjá að hinn heimspaki höfundur hafi alls ekki kynnt sér það sem hann vill fjalla um.

Þegar ég gaf bókinni nafnið „Í krafti sannfæringar“ samkvæmt tillögu eiginkonu minnar var auðvitað verið að vísa til þeirrar lífsskoðunar sem ég fékk sem ungur maður og lýst er í bókinni og hvernig ég sjálfur hef talið mig lifa eftir henni, þó að ég viðurkenni að aðrir kunni að hafa þar önnur viðhorf, sbr. lokakaflann. Það sýnir einhvers konar erindagerðir hjá heimspekingnum að snúa út úr þessu á þann hátt sem hann gerir.

———-

Um 3. Hann telur mig á rangri braut þegar ég hef sagt að dómarar þurfi að gæta sín á að láta ekki tímabundin viðhorf í samfélaginu hafa áhrif á dóma sína. Þetta sé ekkert minna en fáránleg afstaða!

Hérna kann hann að hafa eitthvað grautað í bókinni. Kannski erum við hér efnislega ósammála. Ég hef aldrei hafnað því, eins og heimspekingurinn virðist vilja halda, að nýjar og fullkomnari aðferðir við sönnunarfærslu í sakamálum eigi að leiða til sakfellingar í málum, sem á fyrri tíð hefði verið óhjákvæmilegt að sýkna í. Ég mótmæli því hins vegar að það falli undir valdsvið dómstóla að breyta gildandi rétti á þeirri forsendu að almannarómur mæli með því. Sterkasta dæmið úr bókinni um þetta er umfjöllun um frávísun sakamála á hendur eigendum Baugs á tímum þegar þeir nutu vinsælda hjá þjóðinni og síðan synjun á sambærilegum úrlausnum hjá óvinsælum útrásarvíkingum eftir hrunið mikla.

———-

Um 4. Hann gagnrýnir mig fyrir að hafa sagt að reglan um að menn skuli teljast saklausir þar til sekt sannast sé ekki bara lagaregla, sem eigi að leiða til sýknu sakargifta fyrir dómi, heldur sé þetta einnig siðaregla sem okkur beri að beita í samskiptum okkar almennt.

Á viðhorf mitt um þetta féllst starfsbróðir Jóns heimspekings, Vilhjálmur Árnason, sbr. tilvitnun til blaðagreinar hans um þetta neðst á bls. 159 í bók minni, þó að hann teldi siðaregluna flóknari og stundum ætti hún ekki að ráða í samskiptum á milli manna. Jón heimspekingur gerir ekki neina grein fyrir því hvenær hann telur að menn megi leggja til grundvallar að aðrir menn séu sekir um refsiverða háttsemi þó að ekki hafi sök þeirra sannast. Í deilu minni við Vilhjálm Árnason taldi ég fyrst og fremst að slíkar skoðanir gætu ekki orðið grundvöllur til að víkja mönnum úr embættum sínum, eins og hann hélt fram.

———-

Um 5. Það er sérkennilegt hjá fræðimanninum, svo ekki sé meira sagt, að segja mig raupsaman og að ég fylli bók mína með löngum tilvitnunum í sjálfan mig og aðra. Svo telur hann mig hæðast að viðmælendum mínum.

Í inngangi bókarinnar (bls. 10) er nefnt að ég hafi oft átt í orðaskiptum við tiltekna viðmælendur á opinberum vettvangi, þó að umræðuefnin hafi haft almenna þýðingu fyrir samfélag okkar. Tek ég fram að þar séu fyrri skrif oftast besta heimildin um það sem sagt sé frá og verði þau þá birt á ný, eftir því sem þörf krefji. Er eitthvað athugavert við þetta? Vill hann að ég endursemji frásagnir af þessu til þess að þær birtist ekki sem tilvitnanir í þessi eldri skrif? Í mörgum tilvikum birti ég líka orðréttar tilvitnanir til viðmælenda minna í því skyni að koma sjónarmiðum þeirra til skila óbrengluðum. Svo reyndi ég að létta á megintexta bókarinnar með því að færa þýðingarmikil skjöl, skýrslur og greinar í viðauka aftast.

Hann telur mig „raupsaman“ og reyna að hæðast að viðmælendum mínum. Mér finnst sjálfum að þetta sé ósanngjörn ásökun en get svo sem lítið sagt við skoðun heimspekingsins á þessu og þeirri ókurteisi sem hann kýs að sýna mér af því tilefni. Kannski er skoðun hans byggð á því að hann telur viðmælendur mína oft hafa skort rök gegn mínum og því hafi þeir farið halloka í því sem um var deilt. Hefði ég átt að sleppa frásögnum af þessari ástæðu? Fjandakornið varla!

Þegar ég les grein Jóns Ólafssonar heimspekings á netsíðu Herðubreiðar finnst mér hún einkennast af þrætubók, útúrsnúningum og þeim skotgrafahernaði sem um of einkennir umræður á Íslandi um þjóðfélagsmál og eru þar því miður ekki undanskildir svonefndir fræðimenn við háskóla. Af hverju þarf heimspekingurinn til dæmis að máta mig við hópa sem hann greinilega geymir í hugskoti sínu og notar til að flokka aðra menn, t.d. í frjálshyggjumenn og íhaldsmenn? Skilja má hann svo að hann tilheyri sjálfur hvorugum þessara hópa. Hvers vegna skoðar hann ekki bara lífsskoðun mína, sem ég ver miklu rými í að lýsa í bókinni, og gagnrýnir hana? Mér er slétt sama um John Stuart Mill og greinarmun sem hann kann að gera á almenningsáliti og afskiptum hins opinbera. Eða aðrar klisjur sem Jón Ólafsson kann að hafa lesið um í háskólum á leið sinni til manndóms.

Eitt er ljóst. Jón Ólafsson heimspekingur á við mig erindi. Ég er sýnilega í flokki manna sem hann er andsnúinn. Svo andsnúinn að hann sest niður og reynir að skrifa bók mína niður. Greinin er sýnilega ekki skrifuð í því skyni að fjalla af sanngirni um það sem í bókinni stendur. Því er öllu snúið á haus til að henti betur atlögu hans. Ekki veit ég með neinni vissu hver er ástæðan fyrir þessu framferði. Við nemendur heimspekiprófessorsins segi ég bara: Gætið ykkar á honum. Hann sveipar sig klæðum fræðimennsku til að koma höggi á mann sem honum er greinilega illa við. Ekki hafa slíkt framferði eftir honum þegar þið verðið stór; jafnvel jafnstór og hann telur sig orðinn.

Gaman væri ef þið, nemendur góðir, byðuð mér einhvern tíma að Bifröst til að ræða í ykkar áheyrn við prófessorinn ykkar um skoðanir mínar á aðferðafræði lögfræðinnar og annað sem hann kann að vilja gagnrýna mig fyrir.

Jón Steinar Gunnlaugsson

Flokkun : Pistlar
1,563