trusted online casino malaysia
Guðmundur Gunnarsson 06/04/2014

Handstýrt atvinnustig

Það var lengi viðtekin skoðun hagfræðinga að mjög lágt atvinnuleysi hefði verðbólgu í för með sér. Stjórnvöld gætu valið á milli þess að hafa mikið atvinnuleysi og litla verðbólgu eða lítið atvinnuleysi og mikla verðbólgu. Sé Ísland borið saman við nágrannalöndin þá blasir við að atvinnuleysisvofan markaði djúp spor í þjóðarsálina í gegnum aldirnar og varð einn helsti óvinur hennar.

 

Launamenn sættu sig ekki við tilvist atvinnuleysis og beittu öllum tiltækum ráðum gegn því. Þessi staða leiddi til þes að gengisbreytingar urðu að sjálfsögðu vopni í höndum íslenskra stjórnvalda til þess að halda uppi fullri atvinnu, á meðan megináherslan í nágrannalöndum okkar var hins vegar lögð á stöðugleika í efnahagslífinu. Í þessu sambandi verðum við að hafa í huga að atvinnuleysisbætur voru nánast óþekktar á Íslandi allt fram á miðja síðustu öld. Eina félagslega hjálpin var fátækrahjálpin, sá styrkur mátti aldrei verða hærri en 2/3 af lágmarkslaunum verkafólks. Útilokað var að launamaður gæti dregið fram lífið á þessum bótum, hvað þá ef hann þyrfti jafnframt að framfleyta fjölskyldu.

 

Stjórnmálamenn útgerðar og bænda börðust ávalt kröftuglega gegn atvinnuleysisbótum og töldu þær andstæðar þeirra hagsmunum. Viðhorf um of hátt bótakerfi hafa í vetur verið endurvaktar í ummælum forsvarsmanna núverandi ríkisstjórnar.  Verðbólgan hefur verið nýtt sem verkfæri í efnahagsstjórninni, en sú stefna hefur leitt til upptöku fjórðungi af innkomu launamanna á íslenskum vinnumarkaði til fyrirtækjanna og hins opinbera, þegar tillit hafði verið tekið til lakari launa, hærra vöruverðs, hærri vaxta og lengri vinnuviku. Þar birtist okkur ásæða þess hvers vegna sömu aðilar berjast svo hatramlega gegn því að við losum okkur við krónuna.

 

Mikil spenna á vinnumarkaði ásamt veðbólgunni hefur framkallað launaskrið sem síðan birtist umfangsmiklum kröfum um launahækkanir. Því var mætt með fleiri krónum og hringrásin hélt áfram eftir afgreiðslu kjarasamninga var kröfum vinnuveitenda mætt með gengisfellingu.

 

Verðbólgan hefur þannig verið nýtt af þessum stjórnmálamönnum sem sáttasemjari á vinnumarkað og þeir hafa haldið íslenskum launamenn föstum í heimatilbúinni sjálfheldu, óstöðugleikinn framkallaði háa vexti. Ef Íslendingum stóð ekki til boða um 10 klst. lengri vinnuvika en þekktist í nágrannalöndum okkar og tiltölulega örugg vinna, blasti við launamönnum gjaldþrot heimilanna á stuttum tíma vegna mikillar skuldsetningar og hárra vaxta. Íslenskum launamönnum er þannig haldið í efnahagslegum þrælabúðum

 

Aðilar vinnumarkaðsins sameinuðust við gerð síðustu kjarsamninga um þá skoðun að ef auka eigi kaupmátt sé grundvallaratriði að komast út úr víxlverkunum gengis, verðlags og launa. Ef það eigi að takast verði að skapa eðlilegt efnahagsástand, samsvarandi því sem er í nágrannalöndum, annars stefndum við í enn meiri vandræði. Forsenda þessa er tryggja öruggan gjaldmiðil. Ræða formanns Sjálfstæðismanna á laugardagsfundinum í Valhöll í gær er greinilega samin á skrifstofum samtaka bænda og útgerðar. Þar hafnar rikisstjórnin því að sameinast um breytta hugsun í gerð kjarasamninga með þríhliða samkomulagi aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda um breytta hlutverka- og ábyrgðarskiptingu á samhengi efnahagsstjórnunar, gengis- og peningamála og launabreytinga, með áherslu á stöðugt verðlag og hægfara en öruggan vöxt kaupmáttar.

 

Við gerð þjóðarsáttar 1990 náðist þessi breiða samstaða um að skipta um gír glíma við þennan efnahagsvanda á grundvelli stöðugleika og lágrar verðbólgu í stað hefðbundinna kollsteypusamninga með hinum fastengdu gengisfellingum og tókst sú aðgerð mjög vel. Samið var um EES og Davíð Oddson og ríkisstjórnir hans voru þá samstíga aðilum vinnumarkaðsins.

 

Davíð sagði meðal annars á þessum árum „Við hljótum að vinna heimavinnuna með þeim hætti að laga eigið efnahagslíf og leikreglur þess að því sem viðgengst á Vesturlöndum. Við getum aldrei aftur lýst því yfir að í þessu landi verði ekki beitt þeim úrræðum, sem best hafa reynst í þessum heimshluta. Við hljótum að setja okkur það mark að aldrei aftur þurfi þessi þjóð að hokra undir handafli ofstjórnar og kreppuhugsunarháttar, miðstýringar og mismununar.

 

Hugsanlega verður þó skynsamlegast að óska beinlínis eftir viðræðum um inngöngu Íslands í Evrópubandalagið, þótt menn séu um leið reiðubúnir að láta inngöngu ráðast af því, hvort þau skilyrði, sem henni kunna að fylgja, þyki aðgengileg eða ekki. Verði sú niðurstaðan, að þau séu óaðgengileg talin, hafa menn heldur engar brýr brotið að baki sér.

 

Við megum síst af öllu ganga að þessu viðfangsefni með þrá um forna innilokun og einangrun, alteknir af ótta og kjarkleysi. Við verðum að sýna reisn og styrk og forðast einangrunarþörf og minnimáttarkennd. Til slíkra viðræðna hljótum við að ganga sannfærðir um það að reyna að ná fram hinu besta, en jafnframt tilbúnir til þess að hverfa frá þeirri leiðinni, ef niðurstaðan er ekki þolanleg.“

 

En þessari stefnu var hent fyrir borð af ríkisstjórn Davíðs Oddssonar um aldamótin með þeim afleiðingum sem við þekkjum of vel.

Flokkun : Pistlar
1,960